HÆTTIÐ AÐ DEILA!
Það er ljóst að þó nokkrir eru ánægðir með ákvörðun þína að segja af þér. Ég er ekki einn af þeim. Ég hefði viljað hafa þig áfram í ríkisstjórn. Þeir sem eru einna ánægðastir með afsögn þína og gagnrýni eru þó stuðningsmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Sannkölluð þórðargleði þar. Vinna við stjórnmál og þá sérstaklega þáttaka í ríkisstjórn hlýtur að fela í sér samstarf og eilífar málamiðlanir, alla vegar væri erfitt að setja saman stefnu fyrir marga "prinsipp" menn sem vilja lítið sem ekkert gefa eftir og standa fast á sínu.
Ég hef kynnt mér Icesave samkomulagið og hef verið þeirrar skoðunar lengi að við verðum að axla þá ábyrgð, þó ég sé alls ekki sáttur við það. Ég ætla ekki að tiltaka ástæður hér. Þær hafa allar komið fram í umræðum undanfarna mánuði. Ágæt rök með og á móti. Dýrasti og versti kosturinn úr því sem komið er, er að draga málið á langinn og taka annan hring í umræðum um þennan samning. Því það vill oft gleymast að það er einnig afar dýrt að bíða og vera með alla endurskipulagningu í óvissu og uppnámi á meðan.
Einnig er ljóst að fleiri en færri telja að staða okkur yrði mun verri ef samningnum yrði hafnað og aðstoð AGS. En í þessu eins og svo mörgu öðru eru til rök með og á móti. Aldrei hefur verið meiri nauðsyn en nú á því að ríkisstjórn landsins sé samhent og sterk. Afar erfiðar ákvarðanir eru fyrirliggjandi og ráðherrar og þingmenn eru ekki öfundsverðir af þeim.
Í mínum huga, og ég held í huga margra stuðningsmanna Vinstri Grænna og Samfylkingar, er það ömurlegt, loksins eftir öll þessi ár sem Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa stjórnað landinu, að horfa upp á upphlaup, sjálfsgagnrýni og sjálfseyðileggingu vinstri manna. Þetta er oft gert undir formerkjum heilbrigðrar umræðu eða hreinskiptra skoðanaskipta, en virðist hins vegar frekar til þess fallið að æsa upp óróa og illindi a.m.k. þegar að umræðan fer fram í fjölmiðlum eins og gert hefur verið undanfarna daga, þar sem reynt er að gera sem mest úr ósættinu. Sú ríkisstjórn sem nú situr þarf frekar á því að halda að staðið sé þétt við þær ákvarðanir og niðurstöður málamiðlana sem þar fást og landsmenn þurfa að hafa trú á því að stjórnin valdi þeim vanda sem fyrir liggur en ekki deilur og sundrung. ÞAÐ ER EKKI TIL NEIN EIN RÉTT NIÐURSTAÐA. ÞJÓÐIN Á ÞVÍ RÉTT Á ÞVÍ AÐ ÞIÐ SEM TÓKUÐ ÞETTA HLUTVERK AÐ YKKUR, KOMIÐ YKKUR SAMAN UM AÐGERÐIR OG FYLGIÐ ÞEIM OG HÆTTIÐ ÞESSUM DEILUM.
Bestu kveðjur,
Kristján Gunnarsson