HAGSMUNIR STJÓRNSÝSLU OG STJÓRNMÁLA
Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 05.05.13.
Núverandi ríkisstjórn lagði mikið upp úr því að ýmsar grundvallabreytingar yrðu gerðar innan stjórnsýslunnar, þar á meðal á skipulagi Stjórnarráðsins. Lögum var breytt á þá lund að hægt yrði að breyta ráðuneytum og verkaskiptingu þeirra í milli án aðkomu Alþingis.
Um þetta var harkalega deilt á þingi. Mörgum þótti þetta ótækt og haldnar voru fleiri ræður og lengri en nokkur vill nú muna. Afgreiðsla á öðrum málum frestaðist. Ríkisstjórnin taldi sig verða að koma þessu gegn. Stjórnarandstaðan taldi sig á hinn bóginn verða að stöðva málið. Koma í veg fyrir þessa ósvinnu. Það á að vera meira en að segja það að umturna stjórnsýslunni, var sagt.
Stjórnarandstaðan hafði nokkuð til síns máls. En hitt er líka rétt að stjórnsýslan má ekki staðna, hún þarf að geta tekið breytingum, með tilliti til nýrra aðstæðna, breyttra þarfa og nýrra viðfangsefna. Þetta þarf þó að gerast með yfirveguðum hætti. Þar kunna gagnrýnendur að hafa haft rétt fyrir sér; að hraðinn hafi verið of mikill og ekki hugað nægilega vel að þeim verkefnum sem voru undir.
Andstaðan varð ekki til þess að stöðva málið. Lögum um Stjórnarráð Íslands var breytt og í kjölfarið var stofnanakerfinu breytt í veigamiklum atriðum. Ráðuneyti voru lögð niður eða sameinuð. Sumt fór úrskeiðis, annað gekk bærilega og margt gekk afbragðsvel og hefur skilað góðum árangri. Í þeim tilfellum byggðust breytingar á skynsamlegum grunni og starfsfólkið var staðráðið í því að láta dæmið ganga.
En hvað gerist nú að afloknum kosningum? Hinar herskáu raddir stjórnarandstöðu sem sáu ÖLLUM breytingum ALLT til foráttu eru þagnaðar. Ekki nóg með það. Nú heyri ég ekki betur en um það sé rætt að breyta Stjórnarráðinu, verkaskiptingu þar og skipulagi með einu pennastriki! Sundra ráðuneytum að nýju. Og hvers vegna? Vegna þess að skipulagið verði betra, stjórnsýslan markvissari? Nei, talað er um að breyta vegna þess að það er talið munu þjóna betur stundarhagsmunum við stjórnarmyndun að hafa fleiri ráðuneyti en færri. Þess vegna þurfi nú að fjölga ráðherrum.
Nú vill svo til að ráðuneyti er annað og meira en bygging, annað og meira en reglugerð. Ráðuneyti samanstendur af fólki - í sumum tilfellum of fáu fólki - sem sinnir tilteknum verkefnum. Í tvö ár er búið að vinna að því að móta nýja verkferla í nýjum ráðuneytum, stokka allt kerfið upp, ráða fólk til tiltekinna starfa, færa aðra til, sameina og samþætta.
Ég hef orðið var við að starfsfólk stjórnsýslunnar fylgist náið með stjórnarmyndunarviðræðum og yfirlýsingum stjórnmálamanna um fá ráðuneyti eða mörg, hvort fækka þurfi eða fjölga ráðherrum. Taflmennskan í stjórnarmyndunarviðræðum getur nefnilega haft afgerandi áhrif á allt gangverk stjórnsýslunnar og þar með á líf og starf þess fólks sem þar starfar.
Sjálfur tel ég að gera þurfi ýmsar breytingar á Stjórnarráðinu. Slíkar breytingar kalla á yfirvegun nú sem fyrr. En svo allir séu látnir njóta sannmælis, líka stjórnmálamenn, þá þarf að huga að því að Stjórnarráðið, sé þannig skipulagt að það svari þörfum stjórnmálanna. Þegar allt kemur til alls hafa ráðherrar lýðræðislegu hlutverki að gegna í stjórnsýslunni sem handhafar framkvæmdavaldsins. Eðlilegt er að hugað sé að því þegar verkaskipting innan Stjórnarráðsins er ákveðin.