HALDIÐ RÓ MEÐAN RÁNIÐ STENDUR YFIR
Þetta stóð á skilti sem Elísabet Jökulsdóttir skáldkona stóð með á Austurvelli í upphafi kreppunnar.
Okkur er sagt að fara heim og vera góð við hvort annað , endilega ekki hugsa um orsakir yfirstandandi kreppu eða beina reiðinni gegn ráðamönnum. Þeir eru jú önnum kafnir við að sýsla um rústirnar og endurraða á jöturnar. Það er unnið af alefli í því að takmarka skaðann fyrir auðmennina - og við eigum að borga.
Áfallahjálp er góðra gjalda verð fyrir þá sem eiga um sárt að binda og geta ekki brugðist við - og vissulega eru þeir margir núna. En við megum ekki gleyma þeirri hjálp sem felst í samtakamættinum og afli samstöðunnar.
Núna er ekki tíminn til þess að sitja hnípinn heima, núna er tíminn til þess að bretta upp ermar og veita ráðamönnum okkar aðhald, vera gagnrýnin í hugsun og gjörðum.
Skrifið greinar í blöð
Skrifið þingmönnum og ráðamönnum tölvupósta og bréf
Komið út á götu og mótmælið
Stundum pólitík
Höldum til haga því hverjir bera ábyrgðina.
Það er ekki rétt sem haldið er fram að þetta ástand komi á óvart. Á þessari síðu Ögmundar Jónassonar hafa viðvörunarbjöllurnar hringt látlaust undanfarin ár. Vinstri græn hafa lagt fram ótal fyrirspurnir og þingsálykunartillögur og breytingartillögur við lagafrumvörp í því markmiði að koma böndum á frjálshyggjuna.
Það er komin tími nýrrar stéttabaráttu
Kristófer