TVÖFÖLD SKULDABYRÐI FRAMTÍÐAR-KYNSLÓÐA
Hún er ótrúleg umræðan sem nú á sér stað hér á Íslandi um leiðir út úr kreppunni. Einhverra hluta vegna þá eru háværar raddir sem vilja nota tækin sem komu okkur í koll til að byggja upp að nýju. Kallað er á fleiri virkjanir, meiri stóriðju, hús og brýr og sem mesta steypu. Á sama tíma á að skera niður í velferðarkerfinu og svo er komið að meira að segja verkalýðshreyfingin setur fram slíkar kröfur. Það aftrar þó ekki hinni sömu hreyfingu frá því að kalla á fjárframlög til framkvæmda. Með því móti er tvöfaldri skuldabyrði varpað yfir á komandi kynslóðir. Annars vegar í formi afborgana af lánum fyrir hinum nýju framkvæmdum og hins vegar í formi aukins kostnaðar sem hlýst í framtíðinni vegna tímabundins sparnaðar í núinu. Sem dæmi má taka þau miklu vandræði sem Finnar standa frammi fyrir í dag vegna niðurskurðar á mikilvægri heilbrigðisþjónustu sem ráðist var í á samdráttartímum. Vonandi föllum við ekki í sömu gryfju.
Angi af þessari umræðu lýtur að nýbyggingu fyrir Landspítalann. Til stendur að ríkið taki lán eftir vafasömum krókaleiðum frá lífeyrissjóðunum til að fjármagna þá framkvæmd. Nú skal ekki gert lítið úr þeim ávinningi sem verður af því að fá betra húsnæði undir starfsemi spítalans. Það breytir þó ekki því að í augum margra skýtur skökku við að byggja skuli hús utan um starfsemi sem ekki eru peningar til að reka. Staðreyndin er nefnilega sú að starfsemin skiptir þá sem á henni þurfa að halda langt um meira máli en byggingin sem hýsir hana.
Hvernig væri að hugsa hlutina upp á nýtt?
Ein hugmynd væri að í stað þess að fá lán til framkvæmda (í gegnum þriðja aðila) og skuldbinda komandi kynslóðir til að greiða af því næstu áratugina yrði fjármagnið sett inn í velferðarkerfið til að koma í veg fyrir að niðurskurður þar verði svo blóðugur að við berum varanlegan skaða af. Þannig gæti ríkið gert samning um framtíðarafborganir af lánum frá lífeyrissjóðunum sem yrðu í takti við þann sparnað sem hlýst hjá hinu opinbera við að halda vel utan um málefni þeirra sem á velferðarþjónustu þurfa að halda. Sumir útreikningar eru þegar fyrir hendi og það ætti ekki að vera flókið að ráðast í aðra útreikninga. Þannig getum við staðið vörð um velferðarkerfið og um leið komist hjá því að varpa tvöfaldri skuldabyrði á komandi kynslóðir.