Hallarbylting peningavaldsins
Birtist í Morgunblaðinu 15.10.04.
Á Alþingi úthluta menn fjármunum úr skatthirslunum. Tekist er á um forgangsröðun. Þetta er gangur lýðræðisins. Eða hvað? Almannaviljanum eru settar sífellt þrengri skorður. Völd sem áður voru í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa eru gengin þeim úr greipum. Þetta gerist þannig að arðsamar eignir almennings eru seldar í hendur einkaaðila; létt er sköttum af stórfyrirtækjum og nýr veruleiki verður til. Við sjáum þennan nýja veruleika auglýstan dag hvern á síðum dagblaða og í fréttum útvarps- og sjónvarpsstöðva.
Í vikunni sáum við Björgólf Guðmundsson rétta forsvarsmönnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands tékka upp á 25 milljónir króna. Eftir því sem fyrirtækin stækka taka þau meiri þátt í menningunni, sagði stjórnarformaður hins einkavædda Landsbanka við þetta tækifæri.
Eina ferðina enn varð ég hugsi. Einkavæddar almenningseignir eins og ríkisbankarnir færa nýjum eigendum tugmilljarða arð. Ríkisvaldið lækkar um leið skatta á þessa aðila. Og þá gerist það: Þeir verða veitendur, styrkja listir og menningu, líkna sjúkum og örva fræðslu, gerast velgjörðarmenn Þjóðminjasafnsins, Sinfóníunnar, listasafna og listamanna, auk þess náttúrlega að kosta fótboltaferðirnar til Bretlands fyrir stjórnendur fyrirtækjanna, og lúxusvillurnar, jeppana og munaðarlífið fyrir sjálfa sig. Hið síðara er auðvitað aukaatriði og flokkast undir allt aðra liði, "fólk í fréttum" er það kallað í glanstímaritunum.
Þetta eru afleiðingar af stefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Einkavæðingin og skattastefnan hafa gert auðmenn að veitendum í íslensku velferðarkerfi og menningarlífi. Hjá þeim liggja nú völdin. Eftir sitja fjársveltar stofnanir ríkis og sveitarfélaga. Á þennan hátt hafa landamæri lýðræðisins verið færð til á Íslandi. Það sem áður var lýðræðislegt almannavald hefur verið fært á hendur fámennis-peningavalds. Því valdi eiga nú listamenn og vísindamenn sífellt meira undir; þeir eiga afkomu sína í vaxandi mæli undir því sem fyrr á tíð var nefnt auðvald.
Það er kannski ástæða til að taka það fram, að tilefni þessara skrifa er ekki að agnúast út í kapitalistana, allra síst þegar þeir vilja láta gott af sér leiða eins og Björgólfur Guðmundsson augljóslega vill, heldur hina sem ganga erinda þeirra á Alþingi og í Stjórnarráðinu. Engan hef ég heyrt mæla hallarbyltingu peningavaldsins bót. En hvers vegna fólk kýs yfir okkur handbendi auðvaldsins – það er mér óskiljanlegt.