För þeirra Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, og Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra á NATÓ fund í Istanbúl hefur ekki farið framhjá neinum. Yfirlýsingar þeirra hafa verið í sama dúr og áður við sömu aðstæður, botnlaus fylgispekt við hernaðarbandalagið og allt sem aðhafst er á þeim bæ. En það voru yfirlýsingar þeirra um kosningalögin sem vöktu athygli mína, sérstaklega það sem haft var eftir Halldóri á forsíðu Morgunblaðsins á þriðjudag. Hann sagði skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu afar vel unna. Hann sagði ennfremur "flesta virðast sammála um að eðlilegt sé að setja skilyrði í þjóðaratkvæðagreiðslu". Innar í blaðinu er greint frá niðurstöðu nýrrar Gallúpkönnunar um einmitt þetta efni. Þar kemur fram að meirihluti þjóðarinnar er andvígur því að slík skilyrði séu sett, 52% á móti en aðeins 41% meðmælt! Í framhaldinu vaknar sú spurning hvað Halldór Ásgrímsson eigi við þegar hann segir "flesta" á því máli að setja skilyrði um þátttökuna. Vinnufélagi minn, maður velviljaður Halldóri, sagði að menn ættu ekki að vera of dómharðir, þetta gæti átt við um kompaníið sem hann væri í á Tyrklandi. Kannski meinti hann að sér virtist flestir í íslensku sendinefndinni á NATÓ fundinum væru þessarar skoðunar eða ef til vill flestir sem staddir voru á hótelherberginu þá stundina sem fréttamaður Mogga hringdi.
Hafsteinn Orrason