Fara í efni

HALLDÓR BLÖNDAL OG JÓN GRUNNVÍKINGUR

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 02.11.10.
Alltaf er gott til þess að vita þegar manni berast fregnir um að gamlir samstarfsmenn eldist vel. Fyrir skemmstu skrifaði Halldór Blöndal, fyrrum forseti Alþingis, grein í þetta blað sem sannfærði mig um að hann væri enn sjálfum sér líkur.
Grein Halldórs hét  "Mannréttindaráðherrann og Jón Grindvíkingur" og var hugmyndin sú að greinin fjallaði um mig og afstöðu mína til fjárlagafrumvarpsins. Við nánari skoðun mátti skilja að hún fjallaði líka um atvinnustefnu Sjálfstæðisflokksins. Þannig var, að félagar Halldórs á þingi höfðu fundið upp á því snjallræði að spyrja mig út úr um tilteknar forsendur fjárlaganna. Ef ég efaðist um einhver atriði þar, mætti gera því skóna að ekki stæði steinn yfir steini í gervöllu frumvarpinu. Þeir Sigurður Kári Kristjánsson og Einar K. Guðfinnsson léku sitt hlutverk með prýði í þinginu en síðan kom sjálfur guðfaðirinn með útleggingar sínar í Morgunblaðinu. Einar K. Guðfinnssson gaf okkur reyndar innsýn í sálarlíf Sjálfstæðisflokksins þegar hann ýjaði að því að á þeim bæ væri talið að skoðanir mínar og afstaða til fjárlagafrumvarpsins hefðu gengið kaupum og sölum fyrir ráðherrastól! Svaraði ég því til að margur héldi mig sig.
Í þessi orð mín vitnaði fyrrverandi forseti Alþingis samhengislaust. En hvað um það. Hann náði því að koma víða við í örgrein sinni, m.a. á fjölum Þjóðleikhússins þar sem hann taldi mig hafa fengið innblástur frá Jóni Grindvíkingi úr Íslandsklukku Halldórs Laxness. Þaðan hlyti að vera komin hugmyndin að tali mínu um einsýni  Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálum! Svo var nú reyndar ekki. Ég hef ekki þurft annað en hlusta á flokkssystkini Halldórs Blöndals ræða atvinnumál til að sannfærast um að þar er ekki mikilli víðsýni fyrir að fara. Fábreytni er þar ein í boði, bara ein lausn á atvinnumálum þjóðarinnar, sú sama og í gær og í fyrradag og allan aðdragandann að hruninu: Ál.
Grein Halldórs Blöndals, sem út af fyrir sig er ólíkt skemmtilegri en tuð félaga hans við Austurvöll, varð mér tilefni til að fletta upp í skrifum 18. aldarmannsins Jóns Ólafssonar frá Grunnavík, fyrirmyndinni að Grindvíkingi Halldórs Laxness. Í Hagþenki sínum talar Jón Ólafsson frá Grunnavík um hve bagaleg sé fábreytnin í atvinnumálum.  Hann segir að Íslendingar sem settir séu til mennta geti varla orðið nema prestar enda hafi landið einvörðungu getað boðið upp á tvær skólameistarastöður og fjórar til fimm kennarastöður. Þeir sem hafi haft ráð á  að sigla hafi getað notið menningar í Kaupmannahöfn um skamma hríð en síðan þurft að hverfa til baka í fábreytileikann á Íslandi: Þá fljótlega hafi komið "þursinn úr hverri átt," stangað þá og stjakað og gjört þá um síðir sér jafnvitlausa, en ógæfan sé svo römm að þeir þykist " þá hvað vitrastir ..."
Svona endurtekur sagan sig. Talsmenn Sjálfstæðisflokksins, málsvarar einsleitninnar, eru vissir í sinni sök. Allt er gott í dag sem sagt var í gær. Og því oftar sem tuggan er endurtekin því viturri telja menn sig vera. En kannski væri rétt að huga að orðum Jóns frá Grunnavík og lofta út.