HALLVEIG FRÓÐADÓTTIR OG SAGA SÖGUNNAR
Sagan er ekki bara atburðir og atburðarás. Sagan er líka skilningur okkar á þeirri atburðarás, háður því hvernig samtíminn skilur sjálfan sig hverju sinni. Þarna er að finna sögu sögunnar. Hún er spegill líðandi stundar á fortíð sína.
Á öndverðri öldinni sem leið spurðu sósíalistar um hvar hinna vinnandi handa væri getið í sögunni. Okkar samtími horfir til stöðu kvenna.
Þetta kom upp í hugann þegar ég á dögunum gerðist leiðsögumaður tveggja ungra stúlkna um söfn Reykjavíkur. Þar á meðal komum við í safn Einars Jónssonar að Hnitbjörgum á Skólavörðuholti. Var okkur þar vel tekið og sagt margt fróðlegt um þennan merka listamann. Þar á meðal sáum við frumgerð hans af styttu Ingólfs Arnarsonar sem nú gnæfir glæsileg, efst á Arnarhóli. Að lokinni heimsókn okkar í Hnitbjörg lá leiðin einmitt þangað, á Arnarhól að skoða Ingólf.
En hvar var Hallveig, kona Ingólfs? Við lögðumst í rannsóknarvinnu, fundum Hallveigarstaði og Hallveigarstíg og minntumst þess að á meðal nýsköpunartogaranna svonefndu, sem keyptir voru hingað til lands eftir lok seinna stríðs, var vissulega að finna Ingólf Arnarson en einnig togarann Hallveigu Fróðadóttur.
Síðan fórum við á Þjóðminjasafnið og Landnámssýninguna í Aðalstræti sem er mjög fróðlegt og skemmtilegt að heimsækja. Þarna var þeirra vissulega rækilega getið, Ingólfs og Hallveigar og öndvegissúlurnar voru á sínum stað, þótt söguskoðun samtímans sé að verða ráðandi í framsetningu og skýringartextum. Þar er horft til landsins gæða þegar leitað er skýringa á búsetu landnámsmanna fremur en til forlagatrúarinnar sem frásögnin af öndvegissúlunum ber keim af. Sú frásögn gæti þó staðist sögulega rýni og þarf auk þess að halda til haga sögu sögunnar vegna! Leiðsögumaður okkar á Landnámssýningunni flutti okkur fróðlegt erindi um framleiðslu á vaðmáli og útflutningi á því til seglagerðar fyrr á tíð. Þarna værum við komin inn á verksvið kvenna sem án efa yrði betur kannað á komandi tíð.
Annars fer því fjarri að í íslenskum söguritum sé hlutur kvenna fyrir borð borinn. Ari fróði setti tóninn í frásögn sinni af landnáminu í Íslendingabók. En það þurfti þó vökul augu síðari tíma til að halda að okkur hlutdeild kvenna í sögunni þegar þjóðfrelsisbarátta 19. og 20. aldar varð altekin af frásögnum af „feðrunum frægu" og „frjálsræðishetjunum góðu".
Í inngangsorðum að bók sinni, Öndvegissúlurnar, sem kom út 1955, og var tileinkuð „íslenskri æsku" segir höfundurinn, kvenréttindafrömuðurinn, Laufey Vilhjálmsdóttir: „Engin þjóð í heimi á jafn-undurfagrar sagnir um fyrstu tildrög höfuðborgar lands síns og íslenska þjóðin. Sögulegt er ævintýrið um ungu hjónin, Hallveigu og Ingólf, Helgu og Hjörleif , er lögðu út á hafið ásamt fólki sínu með þeim ásetningi að nema nýtt land er yrði fósturland þeirra í framtíðinni..." Síðar í bókinni minnir Laufey lesandann á að það í kaflafyrirsögn að það hafi verið „vegna konu að Ísland byggðist".
Fer ég ekki nánar út í þá sálma en kem nú að erindinu. Væri ekki ráð að efna til hugmyndaveislu þar sem listamönnum væri boðið að setja fram tillögu um minnisvarða um Hallveigu Fróðadóttur þar sem hún kallist á við bónda sinn á Arnarhólnum?
Reykvíkingar vilja varla vera eftirbátar Akureyringa sem um miðja síðustu öld settu upp myndarlega styttu Jónasar S. Jakobssonar af þeim Helga magra og Þórunni hyrnu þar sem þau standa hlið við hlið og horfa út Eyjafjörðinn.
Þegar afarnir fara síðan með sjö ára dætradætur sínar í skoðunarferð um Reykjavík eftir þrjúhundruð ár staðnæmast þau við glæsilega veggmynd af Hallveigu Fróðadóttur og minnast þess að í byrjun 21. aldarinnar hafi Reykvíkingar sýnt Hallveigu, holdgervingi kvenna til forna, sama sóma og Ingólfi manni hennar einni öld fyrr. Afanum og stúlkunum tveim mun án efa þykja það hafa verið merkilegt framlag til sögu sögunnar.