HAMAGANGUR Í HOLLANDI ÚT AF "VITRÆNNI HÖNNUN" = "INTELLIGENT DESIGN"
Fyrir fáeinum dögum fjallaði ég í Bandaríkjapistli mínum hér á síðunni um nokkuð sem á ensku er kallað Intelligent Design og ég hef þýtt sem Vitræn Hönnun. Þessu hugtaki flíka þeir sem telja að því aðeins að menn trúi á "skapara" sé hægt að skilja hversu óendanlega margslungin og stórkostleg náttúran er. Þetta er afstaða þeirra sem trúa á Biblíuna í einu og öllu og þá einnig bókstaf hennar um sköpunarsöguna. Vitræn Hönnun, Intelligent Design lætur betur í eyrum og hefur vísindalegra yfirbragð en að vísa til gamla Testamentisins eða annarra trúarrita. Einkum eru það trúarsöfnuðir í Bandaríkjunum og samtök þeim tengd sem nú fara mikinn vestra til að hnekkja lögmálum í líffræði og jarðfræði sem ganga í berhögg við sköpunarsögu Biblíunnar. Þessir aðilar segja jörðina aðeins nokkurra þúsund ára gamla og hafa, með stuðningi Bush stjórnarinnar, fengið því áorkað að "fræðirit" með boðskap af þessu tagi er nú selt í opinberum verslunum í þjóðgarðinum við Miklagljúfur í Klettafjöllunum og flokkað þar sem vísindarit!
Cees Dekker, nano-eðlisfræðingur við Tækniháskólann í Delft í Hollandi, annar ritstjóra safns 22 ritgerða um Vitræna Hönnun, sem væntanlegt er í verslanir í haust, segir þá miklu gagnrýni sem fram hafi komið í Hollandi vera móðursýkislega: "Margir vísindamenn tengja þetta íhaldssömum kristnum söfnuðum, Kansas og George Bush – þess vegna hljóti þetta að vera slæmt," segir hann.
Einstaklingar á borð við Cees Dekker segja að Vitræn Hönnun þurfi engan veginn að vera kristileg. Það kann að vera rétt, en trúarleg hlýtur kenningin að vera engu að síður því þessi nálgun byggir ekki á aðferðum vísindanna um niðurstöður byggðar á rannsóknum heldur trú manna á hvað þeim þykir vera sennilegt.
Það var einmitt þetta trúarlega sjónarhorn sem hreif Van der Hoeven vísinda- og menntamálaráðherra Hollands, að hennar eigin sögn. Hún lýsti því yfir opinberlega í vor að hún hefði átt "stórkostlega merkilega" samræðu við fyrrnefndan Cees Dekker og í kjölfarið skrifaði hún eftirfarandi á heimasíðu sína: "Það sem sameinar Múhameðstrúarmenn, Gyðinga og Kristna er hugmyndin um skapara...Ef okkur tekst að sameina vísindamenn af mismunandi trúarbrögðum, mætti nýta það í skólum og í kennsluefni sem þar er kennt..."
Í haust ætlar að Van der Hoeven, ráðherra, að halda seminar um Vitræna Hönnun í menntamálaráðuneytinu hollenska.
Hollenskir þingmenn og vísindamenn vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Piet Borst, fyrrum forstöðumaður Krabbameinsstofnunar Hollands segir í viðtali við Science (júní sl.) að hann sjái ekki að það sé hlutverk ráðherrans að skipta sér af líffræði með þessum hætti. Van der Hoeven, ráðherra svarar slíkum ummælum með nokkrum þjósti að hennar hlutverk sé að stuðla að umræðu um áhugaverð efni. Martin Ensbrink furðar sig á því í ljósi þeirra ummæla að hún neiti tímaritinu Science um viðtal.
Almennt ætla hollenskir vísindamenn að hundsa seminarið í ráðuneytinu. Þeir tengja áhuga menntamálaráðherrans, sem er kaþólsk og fulltrúi Kristilega demókrataflokksins á hollenska þinginu, íhaldssömum og jafnvel afturhaldssömum stjórnmálaviðhorfum. Alla vega sé varinn góður: "Kansas hefur gert okkur full efasemda og varfærnari í þessum efnum", er haft eftir þekktum hollenskum vísindamanni í Utrecht í fyrr ívitnaðri grein í bandaríska tímaritinu Science. Þar kemur einnig fram að ritgerðasafn Vees Dekkers og félaga komi út fljótlega. Þess sé skammt að bíða að fyrsta eintakið verði afhent – og við mikla viðhöfn. Og viðtakandinn? Menntamálaráðherra landsins, íhaldskonan Van der Hoeven.
Sjá nánar fjallað um Vitræna Hönnun í Bandaríkjapistli HÉR.