HANN TRÚÐI Á ÞAÐ GÓÐA Í FÓLKI
Í dag var kvaddur Salmann Tamini, forstöðumaður Félags Múslima á Íslandi. Sveinn Rúnar Hauksson kvaddi hann með fallegum orðum sem ég vil öll gera að mínum svo og orð Þorleifs Gunnlaugssonar, annars vinar Salmanns.
Mína vináttu átti Salmann Tamini og mat ég hann mjög fyrir umburðarlyndi hans og velvilja en einnig baráttukrafts í þágu mannréttinda í Palestínu, á Íslandi og í heiminum öllum. Í hans huga áttu mannréttindi engin landamæri og trúarbrögð voru í hans huga ekki til að sundra fólki heldur semeina.
Hér eru brot úr minningaroðum þeirra Sveins Rúnars og Þorleifs:
Sveinn Rúnar Hauksson: “ … Salmann Tamimi fæddist 1.mars árið 1955 í Jerúsalem í Palestínu. Hann kom til Íslands árið 1971, 16 ára gamall, þá búinn með menntaskóla í Palestínu. Palestína fór þó aldrei frá honum og var hann ötull talsmaður réttinda Palestínumanna alla tíð og lét sig varða mannréttindi um víðan heim.
Það átti eftir að verða hlutverk Salmanns að stofna Félag múslima á Íslandi árið 1997 og var hann lengst af og til dauðadags formaður þess. Ég hef oft þakkað guði fyrir þá gæfu og gjöf sem Salmann var fyrir okkar ágætu en oft misþroska þjóð.
Þá er ég ekki einungs að tala um manninn sem slíkan, þennan undurljúfa og skilningsríka einstakling sem okkur bættist. Heldur og ekki síður að á þessum misjöfnu og oft vondu tímum haturs og hnjóðs, þá eignaðist Ísland talsmann Íslams sem öllum var ljóst innan lands sem utan, að var maður umburðarlyndis, víðsýni, elskusemi og skilnings á ólíkum stefnum.
Aldrei heyrðist Salmann fara með hnjóðsyrði í garð annarra trúarbragða, enda hefði það verið á skjön við uppruna hans í Jerúsalem, þar sem fólk af ólíkum trúarbrögðum hefur svo lengi átt samleið ... “
Þorleifur Gunnlaugsson: “ … Hann bjó hér á landi í tæp 50 ár, var svo sannarlega Íslendingur en taugar hans til fæðingarlandsins, Palestínu, voru sterkar og hann tók mjög nærri sér þær hörmungar sem þjóð hans hefur orðið að þola.
Þó var Salmann óvenju jákvæður maður. Alltaf brosandi og stöðugt með gamanyrði á vörum og hann var sérlega umburðarlyndur. Hann var stofnandi og leiðtogi trúarsafnaðar, umbar mig, guðleysingjann og gerði mig að vini sínum og þó að ég fyndi stundum fyrir áhyggjum hans af velferð minni, eftir dauðann, þá vissi ég að þær áhyggjur stöfuðu af væntumþykju.
Þó þekki ég engan sem hefur orðið fyrir jafn svæsnum árásum og svívirðilegum hótunum og þær beindust ekki aðeins að honum. Ég veit að hans nánustu upplifðu á stundum raunverulegan ótta um líf sitt og velferð og fótatak fyrir utan íbúðina í Seljahverfinu gat skapað andvökunótt.
Annars kom umburðarlyndi Salmanns mér oft á óvart. Þegar ég vildi henda landsþekktum rasistum út, mönnum sem héldu uppi svæsnum hatursáróðri gegn því sem Salmann stóð fyrir, þegar ég vildi útiloka þessa menn þá bauð Salmann þá velkomna og ég áttaði mig á því að það var vegna þess að hann trúði á það góða í fólki og að það yrði eingöngu laðað fram með samræðum og gagnkvæmri virðingu ..."
Ég votta fjölskyldu Salmanns Tamimi samúð mína.