Fara í efni

HÁVAMÁL EÐA EYSTEINN?

Birtist í Morgunblaðinu 06.08.24.
Þegar Alþingi samþykkti fjárstuðning vegna stríðsreksturs í Úkraínu til næstu ára þótti ekki ástæða til að senda þingmálið til umsagnar út í þjóðfélagið. Sagt var að um þetta ríkti einhugur á þingi og með þjóðinni. Svo er þó ekki leyfi ég mér að fullyrða.

Einhugur um Grindavík og Landspítala

Í árslok munu Íslendingar hafa veitt 10 milljörðum til aðstoðar Úkraínu, meðal annars til vopnakaupa, og gert er ráð fyrir að lágmarki 4 milljarða árlegu framlagi vegna stríðsins þar næstu ár. Kostnaður vegna Grindavíkurhamfara hleypur á milljörðum og þykir ærinn. Um þann stuðning hygg ég þó að einhugur hafi ríkt. Sama hefði gilt um fjögurra milljarða viðbótarframlag til heilbrigðiskerfisins á Íslandi sem er við það að hrynja. Það vita þeir sem þar vinna og til kerfisins þurfa að leita.
Stuðningur við stríðshrjáð fólk á vissulega rétt á sér en ekki við þá vígvæðingu sem íslenska ríkisstjórnin og Alþingi hafa skuldbundið okkur til að veita.

Vígvæðing grefur undan friði

Ekki er aðeins dapurlegt heldur mjög ámælisvert hve þjóðir Evrópu láta vopnaiðnaðinn teyma sig gagnrýnislaust í fjáraustri til hernaðar og taka sér stöðu á landamærum Rússlands og Vesturlanda; og nú er krafan sú að fá þangað kjarnorkuvopn.
Friðarbaráttan á níunda áratug síðustu aldar snerist um að fjarlægja slík vopn og færa allan vopnabúnað fjær en ekki nær landamærum. Vitað var að skammdræg og meðaldræg kjarnorkuvopn nærri landamærum «óvinaríkja» væru enn hættulegri en langdrægar kjarnorkuflaugar sem skjóta mætti niður með gagnflaugakerfi. Beiting skammdrægra flauga gæfi ekkert slíkt ráðrúm og kallaði því á fyrirvaralaus viðbrögð. Því var fagnað mjög þegar Reagan og Gorbatsjov undirrituðu INF samninginn árið 1987 í kjölfar hins sögulega fundar í Höfða árið áður. Hann bannaði þessar flaugar. Bandaríkjamenn sögðu sig hins vegar frá samningnum 2019 og nú tæpum fjörutíu árum frá undirritun hans eru nánast andstöðulaust samþykktar fyrirætlanir um slíkan vopnabúnað á svipuðum slóðum og friðarsinnum tókst á sínum tíma að afstýra.

Vildu fjarlægja vopnin

þetta vildu þeir forðast fulltrúar austurs og vesturs við kaflaskilin sem urðu þegar Sovétríkin voru leyst upp í byrjun tíunda áratugar tuttugustu aldar; fjarlægja bæri vopnin úr návígi. Því verður ekki neitað að Vesturlönd stóðu ekki við þau fyrirheit sem þá voru gefin.
Nú er öldin önnur. NATÓ vill enn auka framlög til vígbúnaðar, Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þegar hann hvatti NATÓ-ríkin til dáða í mars síðastliðnum að „koma verði efnahagskerfum Evrópu í stríðsham“; hlakkað er yfir því að nú þurfi Rússar að bæta í við vígvæðingu sín megin og þannig verði áform um að veikja Rússland, eins og Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna orðaði það, að veruleika.

Aukin samskipti í friðarþágu

Þeir sem lengst hafa gengið í því að mæra ágæti Evrópusambandsins hafa jafnan sagt að með nánu efnahagssamstarfi og auknum tengslum hafi tekist að tryggja frið í Evrópu. Margir hefðu talið að þetta ætti einnig við um samskipti lengra austur á bóginn enda gældu rússneskir valdamenn, þar á meðal Pútín núverandi forseti, við þá hugmynd að Rússland ætti heima innan sama bandalags og Vesturheimur. Í Þýskalandi var haft á orði að olíu- og gasleiðslur frá Rússlandi styrktu friðarbönd. Það vissu líka þeir sem engin slík bönd vildu sjá enda fór sem fór.

Líta beri á Rússa sem óvini

Athyglisverður er vitnisburður Jeffrey Sachs, prófessors við Columbia háskólann í New York sem var sérstakur ráðgjafi um markaðsvæðingu Póllands og framan af við slíka ráðgjöf í Rússlandi. Hann varð frá að hverfa enda skilaboðin frá Washington þau að á Rússland skyldi litið sem óvin og engan stuðning mætti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða Alþjóðabankinn veita þangað eins og þessar stofnanir höfðu gert í Póllandi og víðar í Austur-Evrópu. Þetta var áður en rússneskir olígarkar höfðu komist yfir margar verðmætar eignir Rússlands en um svipað leyti og yfirvöld reyndu að setja skorður við gripdeildum vestrænna auðþjófa sem strax eftir fall Sovétríkjanna tóku að ágirnast almannaeignir þar í landi.

Nú er staðan þessi

Kjarnorkuvopn eru á leið nær landamærum Rússlands, evrópsk hagkerfi eru að koma sér í stríðsham og undir allt þetta tekur Ísland. Nær daglega heyrum við forsvarsmenn Alþingis og ríkisstjórnarinnar tala fyrir hærri útgjöldum til samstarfs í NATÓ.
Þetta hafa ráðherrar og alþingismenn óspart tíðkað þessa dagana þegar þeir hver um annan þveran mæra NATÓ á 75 ára afmæli hernaðarbandalagsins.
Ekki hefur farið fram hjá neinum að íslenskir ráðherrar hafa tekið þátt í hátíðahöldum vestan hafs og austan og í hátíðasal Háskóla Íslands var efnt til eins konar helgistundar sem Natóvinafélagið Varðberg átti þátt í að skipuleggja og fékk til þess vel útilátinn stuðning skattgreiðenda með milligöngu Alþingis og ríkisstjórnar.

Spakmæli og hið sögulega samhengi

Í yfirlýsingum sínum hafa menn hvergi dregið af sér. Varaformaður Framsóknarflokksins Lilja Dögg Alfreðsdóttir skrifar til dæmis grein í Morgunblaðið 13. júlí sem ber heitið Atlantshafsbandalagið í 75 ár og varnarmálastefna fyrir Ísland. Í lok greinarinnar vitnar hún í Hávamál þar sem segir:

Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin.
En óvinar síns
skyli engi maður
vinar vinur vera.

Við eigum með öðrum orðum að vera vinir vina okkar og vingast ekki við óvini þeirra. Eflaust voru þetta hyggileg spakmæli á öld blóðhefnda og fóstbræðralaga þar sem menn áttu enga tryggingu í einhverju sem við köllum nú réttarríki.
En er þetta þá virkilega svona: Í NATÓ eru vinir okkar. Verum vinir þeirra en vingumst alls ekki við óvini þeirra.
En þá spyr ég hvort við þurfum ekki að grafast fyrir um hversu réttlátir þessir meintu vinir okkar hafi verið gagnvart veikburða og fátækum þjóðum og þá einnig hvort allir óvinir þeirra og jafnvel vinir óvina þeirra séu óverðugir vináttu okkar?
Ég leyfi mér að beina því til varaformanns Framsóknarflokksins og reyndar allra manna að íhuga orð Eysteins Jónssonar talsmanns þess sama stjórnmálaflokks við lýðveldishátíðina á Þingvöllum árið 1944. Hann varpaði fram þessari spurningu:
« Fáum vér starfsfrið og tækifæri til þess að sýna, hverju lítil, frjáls þjóð fær áorkað? Getur 125 þúsund manna þjóð stofnað lýðveldi á þessum tímum, þegar margfalt stærri þjóðir hafa verið lagðar undir okið og er haldið í áþján?»
Og Eysteinn svarar eigin spurningu:
« Vér Íslendingar munum kappkosta að koma þannig fram við aðrar þjóðir, að vér öðlumst vináttu þeirra og traust. Vér munum unna öðrum réttar og sannmælis, en halda á rétti vorum. Slíkar verða landvarnir þjóðarinnar og aðrar eigi.»

------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.