Fara í efni

HEFÐIR ÞÚ BIRT HRAKYRÐIN?

Í grein þinni í helgarblaði Morgunblaðsins, sem þú birtir einnig hér á síðunni, Hve lengi á ég orðin mín?,  tekur þú dæmi af norrænum ráðherra sem segir eitt í fréttaviðtali um flóttamenn en annað í tali eftir að formlegu viðtali lauk. Þú segir að “hrakyrðin” sem þú kallar svo, hafi verið birt. En hvað fannst/finnst þér rétt? Áttum/eigum við ekki rétt á að vita nákvæmlega hvað ráðherranum fannst/finnst um málefnið?

Jóhannes Gr. Jónsson

Mér finnst þetta ekki liggja í augum uppi. Það sem skiptir raunverulega máli er hvað þessi tiltekni ráðamaður ætlar að gera varðandi flóttamenn og síðan hvað hann aðhefst. Það er markmið fréttaviðtalsins að fá þetta fram því að fréttaviðtalið fjallar ekki um tiltekinn ráðamann heldur hlutskipti flóttamanna. Viðtalið er varla hugsað sem sálkönnun. Hvort tiltekinn ráðamaður er prívat og persónulega pirraður á vandamáli sem hann hugsanlega ræður illa við, skiptir mig/okkur ekki endilega máli. Nema hann aðhafist ekki neitt, þykist hins vegar vera velviljaður en sé það ekki. Þá tekur þessi geymdi viðtalsbútur á sig aðra mynd.
Þetta eru þær hliðar málsins sem ég hefði/myndi hugsa út í.
Það er ekki gefið að pirringsorð séu illa meint eða endurspegli illt innræti eins og í tísku er þessa dagana að fella dóma um.
Það sem ég vildi sagt hafa er að línurnar eru ekki svart hvítar heldur þarfnast það yfirvegunar og umræðu hvernig á skluli haldið.
Kv.,
Ögmundur