HEILBRIGÐISRÁÐHERRA VILL ÚT ÚR BRÁÐAMÓTTÖKUNNI
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 22/23.06.19.
Afstaða lækna til boðaðrar heilbrigðisstefnu virðist nokkuð ráðast af því hvar þeir eru starfandi. Afstsaða samtaka lækna er svo aftur varfærin, þeir vilja greinilega sem fæsta styggja og minna á veðurfræðinginn sem sagður var hafa spáð fyrir verslunarmannahelgi: “Gert er ráð fyrir breytilegu veðri - um allt land.“
Það sannleikskorn er í þessari aulafyndni að spá um slæmt veður um verslunarmannahelgi getur valdið mótshöldurum sem fjárfest hafa í skemmtanahaldi tjóni. Spáin getur svo reynst röng eins og dæmin sanna en þá er skaðinn skeður, örfáar hræður á sólríku mótssvæði, allt illum verðurfræðingunum að kenna. Réttast væri að fara í mál við þá!
Nálægð við peningahagsmuni getur gert lífið flókið. Og þannig er því tvímælalaust háttað í sambúð ríkisvalds og heilbrigðiskerfis. Þar er um mikla hagsmuni að tefla. Og nú finnst sjálfstætt starfandi læknum hagsmunir þeirra fyrir borð bornir í nýsamþykktri heilbrigðisstefnu. Hún taki aðeins til 70% kerfisins, segir talsmaður læknasamtaka. Hún taki ekki til þess hluta sem er einkarekinn.
Ekki ætla ég í umræðu hér um stefnuna í smáatriðum. En hitt vil ég segja: Allt of lengi hefur það verið svo að sá hluti kerfisins sem telst opinber í þeim skilningi að hann er fjármagnaður og rekinn af hinu opinbera hefur þróast í anda bráðamóttöku svo notað sé líkingamál úr heilbrigðisþjónustunni. Ákvarðanir hafa oftar en ekki verið viðbrögð við bráðavanda.
Atburðarásin hefur þá verið þessi: Skorið er niður í opinbera kerfinu. Fyrir vikið hefur það ekki ráðið við að sinna eftirspurn. Þá lengjast biðraðir og spurt er hvers vegna í ósköpunum sjúklingar séu ekki sendir til útlanda eða á Klínikina eða annað þar sem fjárfestar hafa verið tilbúinr að setja fé sitt vitandi að verði á annað borð gefið grænt ljós á að sjúklingarnir komi til þeirra með samþykki kerfisns, þá fylgja greiðslur úr ríkissjóði, gagnstætt því sem gerist þegar sjúkilngurinn er sendur á allt of smáar aðgerða- og göngudeildir opinberu sjúkrahúsanna.
Ef ekki er orðið við þessu kalli - að opna fyrir ríkisfjármagnaðar aðgerðir á Klíníkinni - þá er heilbrigðisráðherrann skammaður og þá gjarnan núið um nasir að sýna af sér mannsvonsku. Mér sýnist núverandi heilrigðisráðherra vera að bregðast við vandanum á annan hátt en þann sem líkja mætti við skyndiaðgerð á bráðamóttöku heldur með það fyrir augum að opinbera kerfið verði losað úr þeim vítahring sem hér hefur verið lýst. Það er gott.
Fram hefur nefnilega komið að til standi að stórefla göngudeildir sjúkrahúsanna og þar með gera það gerlegt til frambúðar að veita þá þjónustu þar sem ætlast er til af kerfinu.
Oft hafa skipuleggjendur innan opinberu heilbrigðisþjónustunnar unnið að því að horft verði til framtíðar með þessum hætti og þá reitt hár sitt þegar fjárveitingarvaldið hefur haft tillögur þeirra að engu. Um þetta get ég borið vitni frá minni tíð sem heilbrigðisráðherra.
Á Íslandi hefur ekki verið um það deilt að opinbert heilbrigðiskerfi og opinberlega fjármögnuð einkarekin þjónusta eigi að geta þrifist hlið við hlið. Það sem hins vegar hefur verið deilt um er tvennt. Í fyrsta lagi hvort hægt sé að ætlast til þess af skattgreiðendum að þeir fjármagni fyrirtæki á heilbrigðissviði sem greiða eigendum sínum arð eins og í hverjum öðrum bisniss. Því er ég fyrir mitt leyti algerlega andvígur og grunar mig að þorri landsmanna sé einnig á því máli. Í öðru lagi hefur verið deilt um mörkin á milli opinbers reksturs og einkareksturs, hvar landamærin eigi að liggja.
Í seinni tíð hafa landmærin verið að færast á kostnað opinberu þjónustunnar.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, er hins vegar að rétta af kúrsinn og er það vel. Þá er að vita hvað Bjarni gerir Benediktsson. Hann heldur um pyngjuna. Ef biðraðir lengjast ættu menn að spara gífuryrðin í garð heilbrigðisráðherrans en beina sjónum að Stjórnarráðinu í heild sinni og Arnarhváli sérstaklega. Þar er fjármálaráðuneytið til húsa og þar er geymt gullið sem margir vilja seilast í.
Heilbrigðisráðherrann er ekki einráður um framlögin til síns málaflokks. Ráðherrann mótar stefnuna en aðrir telja í hann krónurnar. Fjöldi þeirra krónupeninga getur skilið á milli feigs og ófeigs. Og í þessu samhengi meira að segja í óhugnanlega bókstaflegum skilningi.