HEILBRIGÐISÞJÓNUSTU KOLLVARPAÐ?
Birtst í DV 04.06.08.
Síðastliðinn laugardag splæstu íslenskir skattborgarar í stóra auglýsingu í Morgunblaðinu. Þar auglýsti ríkisstjórnin eftir forstjóra í svokallaðri „Sjúkratryggingastofnun". Þetta er stofnun sem fáir þekkja enda er hún ekki til.
Þannig er mál með vexti að rétt áður en alþingismenn fóru í jólafrí mætti Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra í þingsal með harla óvenjulegt þingmál. Það fól í sér heimild til að ráða formann í stjórn „Sjúkratryggingastofnunar". Ekki voru allir tilbúnir að samþykkja að veita ráðherranum þessa heimild möglunarlaust. Bent var á að rétt væri að fá fyrst samþykkt lög um þessa nýju stofnun, síðan kæmi að því að ráða áhöfnina.
Ráðherra á hlaupum
Heilbrigiðsráherra sagði að von væri á slíku frumvarpi með vorinu og gæfist þingheimi góður tími til að ræða lagaumgjörð nýrrar stofnunar áður en frekar yrði að gert. Að sinni nægði sér að ráða stjórnarformanninn og skipa stjórn yfir hina ófæddu stofnun. Svo fór að ráðherrann fékk sínu framgengt. Hitt veit ég að innan stjórnarliðsins ekki síður en í stjórnarandstöðu mislíkaði mönnum þessi vinnubrögð.
En nú leið og beið og hvergi bólaði á hinu boðaða frumvarpi. Fáeinum dögum fyrir þinglok nú birtist svo ráðherra loks með frumvarpið og vildi að þingið samþykkti málið í snarhasti. Frumvarpið var sent út til umsagnar áður en það var komið til nefndar, nokkuð sem er í engu samræmi við þingsköp og þingvenjur.
Hófst nú mikið tog í þinginu við ráðherrann og fór svo að lokum að ákveðið var að láta málið bíða til haustsins. Þetta skýrir Moggaauglýsinguna en þar er umsóknarfrestur fyrir forstjórastarfið framlengdur til 15. september nk. Þing kemur aftur saman í septemberbyrjun og gengur heilbrigðisráherrann greinilega út frá því sem vísu að fá sínu fljótlega framgengt.
Slæm reynsla Breta
En mun það gerast? Sífellt fleiri hafa nefnilega uppi efasemdir um að heilbrigðisráðherrann sé á réttri braut.
Hér á landi var nýverið stödd prófessor við háskólann í Edinborg, Allyson Pollock, sem hefur sérhæft sig í skipulagsbreytingum innan breska heilbrigðiskerfisins. Það var sláandi að heyra hana lýsa reynslu Breta, hvernig umfangsmiklar kerfisbreytingar hafa verið framkvæmdar skref fyrir skref, alltaf á þeirri forsendu að einungis væri um tæknilegar breytingar að ræða. Á endanum stefnir hins vegar í að Bretar sitji uppi með markaðsvætt kerfi, dýrara og óhagkvæmara á alla lund.
Pollock sagði örlagaríkasta skrefið hafa verið stigið í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar þegar aðgreint var „kaupendahlutverk" ríkisins frá „seljanda" þjónustunnar. Þetta hafi öðru fremur greitt götu markaðsvæðingarinnar, að mestu án opinberrar umræðu og án vitundar eða umboðs almennings.
Að endurtaka mistök annarra
Nákvæmlega þetta er verið að gera hérlendis með tilkomu hinnar nýju stofnunar sem á að verða eins konar verslunarmiðstöð í heilbrigðiskerfinu.
Allt er þetta látið hljóma afar vel á yfirborðinu, en hví er ekki meiri og ítarlegri umræða um málið? Getur verið að Guðlaugur Þór óttist gagnrýna umræðu og það skýri hvers vegna lagafrumvörpin birtast þinginu alltaf á síðustu metrum þinghalds þegar enginn tími gefst til umræðu?
Spyr sá sem ekki veit. Hitt veit ég að í sumar þarf þjóðin að taka ítarlega og vandaða umræðu um hvert hún vill að haldið verði með heilbrigðiskerfið og þá hvort saman fari hugmyndir þjóðarinnar og hugmyndir heilbrigðisráðherra.
Ætlum við að endurtaka sömu mistök og Bretar standa nú frammi fyrir, eða ætlum við að læra af reynslunni?