Fara í efni

Heildarsamtök að baki trúnaðarmönnum á Landspítala háskólasjúkrahúsi


Fulltrúar stærstu heildarsamtaka launafólks í landinu komu á fund trúnaðarmanna á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í dag til að mótmæla stórfelldum niðurskurði á sjúkrahúsinu, sem mun verða þess valdandi að hátt í 300 einstaklingar munu missa vinnuna. Niðurskurðurinn mun skerða þjónustu verulega. Einar Oddsson, formaður Starfsmannaráðs LSH stýrði fundinum en Ingibjörg R Guðmundsdóttir varafoesti ASÍ, Halldóra Friðjónsdóttir formaður BHM, Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og Jón Snædal, varaformaður Læknafélagsins ávörpuðu fundinn. Að þessu loknu var borin upp ályktun þar sem áformum rúikisstjórnarinnar var mótmælt og þeirri áskorun beint til hennar að draga ákvörðun sína til baka.
Eftiirfarandi er ávarp ÖJ á fundinum en í lok þess er slóð á vef BSRB þar sem nánari frásögn af fundinum er að finna auk þess sem ályktun fundarins er birt.

Góðir fundarmenn.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um tilefni þessa fundar. Allir þeir sem hér starfa vita hvað bíður þessa vinnustaðar og ég held að úti í samfélaginu sé fólk almennt farið að gera sér grein fyrir því hvað bíður þeirra sem þurfa að sækja hingað hjálp og aðstoð, aðhlynningu, hjúkrun og lækningu. Þegar er farið að segja fólki upp störfum og framundan eru fjöldauppsagnir og samdráttur í starfsemi.

Hvað þýðir það? Það þýðir annað tveggja, að sjúku fólki verður ekki sinnt eins og gert hefur verið hingað til eða að aðhlynningin verður veitt annars staðar m.ö.o. reikningurinn borgaður utan veggja þessa sjúkrahúss.

Vilja menn það? Já sumir vilja það og berjast meira að segja fyrir því af alefli. Við skulum horfa alveg ískalt á þá staðreynd. En það er líka staðreynd að markaðsrekin heilbrigðisþjónusta er margfalt dýrari en félagslega rekin þjónusta auk þess sem hún leiðir til misréttis og mismununar sem samtök launafólks munu aldrei sætta sig við.

Ég hef velt því fyrir mér hvað skýri þessa hrottafengnu aðför að Landspítala háskólasjúkrahúsi, hvort hér geti verið um að ræða mistök. Eða hvort það geti verið að ríkisstjórn og fjárveitingavald hafi haldið að allt muni bjargast einhvern veginn eins og gerst hefur undanfarinn áratug þrátt fyrir erfiðan hallarekstur á þessu stærsta sjúkrahúsi landsins. Það sem mælir gegn þeirri kenningu er hins vegar stærðargráðan – hve hátt niðurskurðarsveðjan er nú reidd til höggs.

En ef þetta eru ekki mistök – þá er þetta gert af yfirvegun. En til hvers? Til að þröngva sjúkrahúsinu til að losa sig við ýmsa starfsemi og færa hana út fyrir veggi sína og þaðan út á markaðstorgið. Með öðrum orðum, þetta er handstýrð kreppa, svo vitnað sé í orð formanns Sjúkraliðafélags Íslands í DV i morgun; handstýrð kreppa til að knýja fram kerfisbreytingu. Umræðan í sumar og haust  hefur stundum verið engu líkari en undirbúningur undir þessa aðför. Ríkisendirskoðun réðst í samanburðarrannsókn sem átti að sýna að á breskum sjúkrahúsum væri sitthvað framkvæmt fyrir minni pening en hér er gert. Það kann vel að vera eftir áratuga niðurskurð og sveltistefnu þar í landi. En ég spyr hvers vegna ekki leita samanburðar við þá sem framkvæma hlutina  best? Og ef við á einhverjum sviðum stöndum framarlega – þá eigum við að fagna því og reyna að gera enn betur. Það er staðreynd að gæði þjónustunnar eru meiri hér en á sambærilegum sjúkrahúsum í Bretlandi og við erum að ná meiri árangri. Það er hins vegar eins og ráðamenn geti ekki á heilum sér tekið ef sýnt er fram á að hér sé einhvers staðar vel gert. Þá hljóti verkefnið að vera að rífa niður.

Er ekki annars kominn tími til að skoða þennan niðurskurð með hliðsjón af því sem er að gerast í þessu þjóðfélagi og meta þær upphæðir sem ríkisstjórnin neitar heilbrigðiskerfinu um í samhengi við þær milljarða fúlgur sem eru á sveimi í alls kyns braski.

Og þarf ekki líka að spyrja hver sé vilji þjóðarinnar? Hjá BSRB vitum við mætavel hverju okkar félagsmenn svara og fyrir nokkru síðan leituðum við eftir svörum þjóðarinnar í heild sinni. Í yfirgripsmikilli könnum sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir BSRB kom í ljós að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill góða og vandaða heilbrigðisþjónustu og það sem meira er – fólk reyndist reiðubúið, ef þess gerðist þörf, að borga hærri skatta til þess að viðhalda henni og bæta hana.

Menn vita sem er að þegar heilsan brestur þá brestur allt, þá verður nánast allt annað í lífinu hégómi einn. Og nú segi ég í nafni félaga í BSRB – í krafti samþykkta og yfirlýsinga frá BSRB fyrr og síðar – við munum ekki í andvara- og aðgerðaleysi horfa uppá þá aðför sem nú er gerð að þessu sjúkrahúsi og þar með öllu því fólki sem hingað leitar til að fá aðhlynningu og bót meina sinna.Við erum reiðubúin að taka þátt í öllu starfi sem snýr að skynsamlegri ráðstöfun fjármuna, við viljum svo sannarlega að ráðdeild sé sýnd. En stjórnendur þurfa jafnframt að sýna sanngirni og framkvæma af yfirvegun. Það er staðreynd að á mörgum sviðum er starfsemin hér verulega undirmönnuð með þeim afleiðingum að fólk býr við of mikið vinnuálag sem síðan kemur niður á starfseminni. Og nú á að herða enn að; eru menn með öllum mjalla? Ég skora á ríkisstjórnina að sýna þann manndóm að endurskoða ákvarðanir sínar, nú þegar fram kemur hve alvarlegar afleiðingar þær hafa í för með sér.
Sjá nánar