Fara í efni

HEILSUGÆSLAN Á BRÁÐADEILD?

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 18.03.14.
Í vikunni sem leið tók ég málefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins upp á Alþingi til þess að vekja athygli á neyðarkalli sem borist hefur frá þeim sem gerst þekkja til á þessu grunnsviði heilbrigðiskerfisins. Kallið sagði ég koma úr fjórum áttum.

Neyðarkall úr fjórum áttum

Í fyrsta lagi hafa forsvarsmenn Heilsugæslunnar, forstjóri og fjármálastjóri, komið fram í fjölmiðlum með uggvænlegar upplýsingar um stöðu mála. Enda þótt hluti af skuldahala Heilsugæslunnar hafi verið skorinn af samkvæmt gömlu samkomulagi, þá nemur hann enn hundrað milljónum króna og eftir áralangan niðurskurð og svelti þar sem Heilsugæslan hefur sýnt mikla ráðdeild, er ljóst að samkvæmt upplýsingum stjórnenda getur hún ekki meir. Engu að síður er henni gert að skera niður um hundrað milljónir á þessu ári.
Þrjátíu og tveggja milljón króna fjárveiting, sem heilbrigðisráðherra hamrar á í fjölmiðlum í samhengi þessarar umræðu, er framlag á síðasta ári eyrnamerkt sálfélagslegri meðferð barna. Það fjármagn hvorki útrýmir biðlistum á þessu tiltekna sviði né gerir Heilsugæslunni kleift að veita fullnægjandi þjónustu í starfsemi sinni almennt.
Jónas Guðmundsson, fjármálastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur bent á það í fjölmiðlum að þótt komugjöld í heilsugæslunni hafi verið hækkuð á þessu ári, þá hafi sértekjuáætlun stofnunarinnar einnig verið hækkuð með þeim afleiðingum að hækkunin kemur henni ekki til góða. Jónas bendir á að fé til Heilsugæslu höfuðborgarinnar hafi verið skorið niður um 500 milljónir króna undanfarin ár og segir hann að nú sé svo komið að ekki sé hægt að hagræða án þess að það bitni á almenningi.

Á að ganga að Heilsugæslunni dauðri?

Undir þetta neyðarkall hafa síðan tekið talsmenn heilsugæslulækna en þeir hafa stigið fram í fjölmiðlum og gert þar grein fyrir því mati sínu að ástandið innan Heilsugæslunnar sé orðið grafalvarlegt.
Og þótt Már Egilsson, ungur læknir tali ekki fyrir aðra en sjálfan sig þá fannst mér hann tala fyrir okkur öll í opnu bréfi sem hann birti í fjölmiðlum fyrir fáeinum dögum. Þar spyr hann hvort það geti verið ætlan fjárveitingarvaldsins að gera út af við Heilsugæsluna. Í samræmi við þetta skrifaði hann einnig þingmönnum þar sem hann sagði að fyrirhugaður niðurskurður gæti gengið að „heilsugæslunni dauðri líkt og tókst næstum því að gera með Landspítalann. Þetta mun þar að auki stórauka kostnað við rekstur heilbrigðiskerfisins."
Fjórði aðilinn sem kveðið hefur sér hljóðs í þessari umræðu eru talsmenn Landspítalans og þá sérstaklega bráðamóttökunnar, en þeir hafa sagt álagið á hana vaxa í réttu hlutfalli við niðurskurðinn í heilsugæslunni. Alltaf birtist okkur sami veruleikinn, niðurskurður á einum stað getur hæglega snúist upp í aukinn kostnað á öðrum og á endanum getur sveltistefna aukið útgjöld okkar í stað þess að draga úr þeim þrátt fyrir gagnstæðan ásetning.
Á þessi varnaðarorð verður að hlusta. Enginn deilir lengur um það að of hart var gengið að Landspítalanum í niðurskurði í kjölfar hrunsins. Heilsugæslan er þegar orðin illa löskuð þótt henni hafi tekist ótrúlega vel að halda sjó.  Þrátt fyrir þrengingar hefur hún ekki kvartað hátt hingað til. En nú gerir hún það og á hana ber okkur að hlusta.

Blekkingartal

Heyrst hefur frá einhverjum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að ráðið við vanda Heilsugæslunnar sé að einkavæða hana. Það væri hið mesta óráð. Bandaríkin með sinni einkavæddu þjónustu reka dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi en ekki það besta nema fyrir þá sem hafa fé milli handa.
Því er haldið að okkur að hægt sé að borga öllum hærri laun, bæta þjónustuna, stytta biðlista, allt þetta með minna fjármagni. Einkavæðingin er sögð góð því hún kosti minna, svo fái líka allir hærri laun!  Það á semsagt að gera öllum til góða fyrir minna fé.  Þetta er barnaskapur af verstu sort. Það sem verra er, þetta er blekkingartal og til þess eins að drepa á dreif því sem að er: Fjárskorti. Úr honum verður að bæta í snatri. Annars endar  Heilsugæslan þar sem hún alls ekki á heima, á bráðadeildinni. Og lifi hún ekki þrautir sínar þar af mun það leiða yfir okkur rándýrar einkalausnir. Það má ekki gerast.

Skoðum málin óhlutdrægt

Nú þarf að setjast yfir þessi mál af sanngirni og alvöru. Meta þarf óhlutdrægt hverju væri fórnað í heilsuvernd, sóttvörnum, sérfræðimenntun heilbrigðisstarfsmanna, samtengingu sjúkraskrár og rafrænum samskiptum ef kerfið yrði brotið upp í einkastofur-sem kannski ganga kaupum og sölum. Og gleymum því ekki að á markaði vilja fjárfestar sinn skerf. Innkoma þeirra í kerfið yrði varla til að draga úr kostnaði notenda og skattgreiðenda.