HEILSUGÆSLAN VERÐI KJÖLFESTAN
Birtist í Fjarðarpóstinum
Eitt fyrsta verk mitt sem heilbrigðisráðherra var að vinda ofan af ákvörðunum forvera míns varðandi St. Jósefsspítala með það að leiðarljósi að spítalinn yrði áfram hafnfirskt sjúkrahús sem þjónaði sínu samfélagi eins og þrettán þúsund Hafnfirðingar höfðu krafist með undirskrift sinni. Á laggirnar var settur starfshópur, þar sem fulltrúi hollvina St. Jósefsspítala átti sæti ásamt stjórnendum í heilbrigðiskerfinu.
Hópurinn skilaði af sér í marsbyrjun einsog fyrir hann var lagt og var almenn ánægja með þá niðurstöðu að tryggja áframhaldandi rekstur sjúkrahússins. Verktakasamningum var sagt upp og ráðist í að hrinda sparnaðaráformum í framkvæmd eins og öllum heilbrigðisstofnunum landfsins er gert samkvæmt fjárlögum þessa árs. Þar verður því miður ekkert undan vikist. Enn er unnið að því að samhæfa rekstur skurðstofanna á St. Jósefsspítala við skurðstofur Landspítalans og annarra sjúkrahúsa á þéttbýliðssvæðinu á suðvesturhorni landsins. Þetta er vinna sem þarf að vanda en munurinn á fyrri áformum og því sem nú er gert er sá að hagsmunir samfélagsins eru hafðir að leiðarljósi en ekki fjármálamanna sem ólmir hafa viljað komast inn eftir spítalagöngunum og ofan í pyngju almennings. Öllum ber hins vegar saman um að með markvissrri verkaskiptingu og samlegðaráhrifum má ná árangri sem er skattborgurum og þeim sem þurfa á sjúkrahússþjónustu að halda til hagsbóta.
Í Fjarðarpóstinum hafa komið fram áhyggjur um framtíð heislugæslunnar og áhrif efnahagsþrenginganna á hana. Ég deili þeim áhyggjum og mun gera allt sem ég get til þess að efla hana eftir því sem nokkur kostur er. Ég er nefnilega þeirra skoðunar að heilsugæslan eigi að vera kjölfestan í heilbrigðiskerfinu sem aðrir þættir þess hvíli á. Það kallar á aðra forgangsröðun en fylgt hefur verið til þessa. En framar öllu þarf að standa þá vakt sem þjóðin ætlast til af stjórnvöldum: Að verja heilbrigðiskerfið afleiðingum fjármálahrunsins sem framast má vera og tryggja að grunnurinn verði til staðar til að byggja á nýja framfarasókn.
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra