Heimilið á að vera helgur reitur
Enginn mælir því í mót að auðhyggja setur sívaxandi svipmót á samfélag okkar. Bæði er það náttúrulega svo að nokkrir auðmenn ráða orðið lögum og lofum í þjóðfélaginu og einnig hitt að peningar og bókhald eru að verða nánast einhliða mælikvarði á frammistöðu okkar í samfélaginu. Ef menn ekki gjalda keisaranum það sem hans er, þykir réttmætt að nánast útskúfa viðkomandi. Menn geta jafnvel talað sig upp í talsverðan hita af slíku tilefni.
Ég hef leyft mér að vara við þessum þankagangi. Okkur sem erum á félagshyggjuvæng stjórnmálanna er hollt að líta í eigin barm af og til hvað þetta snertir. Það er ekki nóg að gagnrýna fjármálabraskarana sem sölsað hafa undir sig nánast allt samfélagið, heldur þurfum við einnig að spyrja hvernig við komum sjálf fram.
Að undanförnu hefur átt sér stað talsverð umræða um félagslegt leiguhúsnæði og þá ekki síst um þá grundvallarspurningu hvort það geti verið ásættanlegt að bera fólk út af heimili sínu. Mín skoðun er sú að slíkt sé ekki ásættanlegt og aldrei réttlætanlegt ef ekki er boðið upp á annan valkost. Það á enginn að vera á götunni. Það á að vera ófrávíkjanleg regla.
Braskararnir í samfélaginu búa allir vel, endasendast heimshornanna á milli og lifa praktuglega. Ekki byggir auður þeirra og velgengni alltaf á mjög vönduðu bókhaldi. Það er frekar að efnaminni hluti þjóðarinnar sé grandvar að þessu leyti. Þeir sem allra minnst hafa efnin eru iðulega þeir sem mest leggja á sig að standa í skilum. Það er aðdáunarvert.
Þetta er þó stundum hægara sagt en gert. Til mín komu hjón í vikunni sem leið, kona sem var mér samtíða í barnaskóla á sínum tíma og eiginmaður hennar. Hún er öryrki, hann er láglaunamaður. Þau búa í félagslegu leiguhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Hjónin voru miður sín enda héldu þau á yfirlýsingu frá Lögheimtunni um "riftun á leigusamningi". Mér virtist þau með nánast allt bókhald sitt með sér. Fjögurra mánaða leiga var komin í vanskil. Aðrir reikningar sýndust mér vera greiddir. Bréfið frá Lögheimtunni var ekki langt en þar var skýrt kveðið að orði. Þar sagði, "Er yður hér með gert að rýma íbúðina innan 7 daga. Ef þér hafið ekki rýmt íbúðina fyrir þann tíma verður leitað atbeina dómstóla um útburð."
Ég skal játa að á lífsleiðinni hef ég stundum skuldað hærri upphæðir en þessi hjón. En aldrei hef ég staðið frammi fyrir því að vera hótað að verða sviptur heimili mínu með aðstoð dómsvalds. Ég held að maður þurfi að upplifa þetta sjálfur til að skilja tilfinninguna til fulls. En er þetta ekki farið að minna óþægilega mikið á þá gömlu daga er Bogesen réð lögum og lofum og ómagar og fátækt fólk var með öllu réttlaust?
Ég er staðráðinn í því að fylgjast með málalyktum hjá þessum hjónum. Ég veit að þau veittu sér í sumar þann munað að fara í sumarfrí upp í sveit; í orlofsbústað verkalýðsfélags eiginmannsins. Þetta var nóg til að raska viðkvæmu bókhaldi á heimilinu. Tímabundið gekk þar allt úr skorðum. Í haust hefur verið reynt að rétta fjárhaginn með öllum tiltækum ráðum. Flöskur og dósir á almannafæri hafa verið eina mögulega viðbótar tekjulindin. Hún hefur hins vegar ekki dugað, og til marks um það er refsivöndur Lögheimtunnar nú kominn á loft.
Auðvitað eigum við öll að kappkosta að hafa bókhaldið í lagi og greiða til samfélagsins sem okkur ber. En samfélaginu ber líka að virða mismunandi aðstæður fólks og vera reiðubúið að leggja aðra mælikvarða á frammistöðu manna en bókhaldið eitt. Síðan er einnig að hyggja að þeim grundvallarreglum sem hafa ber í heiðri vilji samfélag láta líta á sig sem velferðarsamfélag. Slíkt samfélag ber fjölskyldur og einstaklinga ekki út á götu. Aðrar og ásættanlegar vistarverur þurfa að vera fyrir hendi til að slíkt geti með nokkru móti talist réttlætanlegt.
Mín skoðun er sú að opinberir aðilar eigi að setja hömlur á þau lögfræðifyrirtæki, sem fá það verkefni að innheimta skuldir. Það á að segja þeim að aldrei megi hafa í hótunum við fátækt fólk um að svipta það þakinu sem það hefur yfir höfuðið. Heimilið á að vera helgur reitur.