HELDUR FJÁRMÁLARÁÐHERRA AÐ VANDINN HVERFI MEÐ ÞVÍ LOKA AUGUNUM?
Í tengslum við kjarasamninga árið 2005 var gerð bókun um málefni vaktavinnufólks, sem BSRB og BHM stóðu annars vegar að og hins vegar launanefnd ríkisins, fyrir hönd fjármálaráðherra. Síðar komu sveitarfélögin einnig að vinnu sem byggði á þessari bókun. Hún gekk út að finna leiðir til að gera störf vaktavinnufólks eftirsóknarverðari. Skyldi hugað að kjörum og vinnutíma.
Í samningunum 2005 höfðu verið uppi mjög ákveðnar kröfur um kjarabætur vaktavinnufólki til handa og má segja að með þessari bókun hafi málefnum vaktavinnufólks verið skotið á frest. Í framhaldinu var ráðist í mikla vinnu, m.a. gerðar tvær ítarlegar rannsóknarskýrslur um vaktavinnu, efnt til ráðstefnu og funda sem kostuðu ærið fé en samningsaðilar deildu með sér kostnaði. Nú gerist það í morgun að fulltrúar fjármálaráðherra og launanefndar sveitarfélaga slíta viðræðum fyrirvaralaust því þeir geti því miður ekki orðið við kröfum um kjarabætur til vaktavinnufólks!
Heldur Árni Mathiesen að málið sé þar með út af borðinu? Að sjálfsögðu ekki. Vandinn sem við blasti á vaktavinnustöðum árið 2005 hefur vaxið en ekki minnkað.Hann er sá að sífellt erfiðara reynist að ráða fólk til starfa þar sem fólk þarf að vinna á öllum tímu sólarhrings, svo sem innan löggæslu, í heilbrigðisstofnunum, á dvalarheimilum aldraðra og í stofnunum sem sinna fötluðum. Bókunin í kjarasamningunum 2005 var gerð til þess að reyna að finna lausn á raunverulegu vandamáli. Verkefnið hverfur ekki þótt fjármálaráðherra og hans lið gefist upp. Kröfurnar verða á samningaborðum aðildarfélaga BSRB og BHM þegar samningar losna með vorinu. Fjármálaráðherra er hins vegar að glutra niður tækifæri til að taka á vandanum á heildstæðan hátt og búa jafnframt í haginn fyrir komandi kjarasamninga. Þetta kalla ég að fljóta sofandi að feigðarósi.