Fara í efni

FRJÁLST FLÆÐI FÁTÆKTARINNAR

Fyrir nokkrum dögum birtist frétt í sjónvarpinu sem sýndi sænska byggingamenn vakta vinnustað vegna þess að þar voru að störfum kollegar þeirra frá löndunum handan Eystrasaltsins – löndum sem nýlega gengu í Evrópusambandið. Hinir sænsku vaktmenn vissu að félagar þeirra, sem bjuggu greinilega í hjólhýsi á byggingastað, voru á miklu lægra kaupi en heimamenn.

Þessi litla frétt kemur eins og mósaikbrot inní þá mynd sem undanfarin misseri hefur verið að birtast okkur Íslendingum. Útum allar trissur starfar nú erlent verkafólk í byggingariðnaði, á miklu lakari kjörum en verkalýðshreyfingin hefur samið um. Meðal annars hafa fréttir borist af því að kona nokkur frá Litháen reki umfangsmikla „þjónustu” þar sem hún „miðlar” verkamönnum frá Eystrasaltslöndunum til íslenskra verktakafyrirtækja. Og undir hvaða formerkjum? Jú, þeim að samkvæmt EES samningi um frjálst flæði vöru, vinnuafls, fjármagns og þjónustu sé þetta bæði sjálfsagt og eðlilegt, enda innri markaður Evrópu öllum opinn.

Í þessu skjóli hafa kaupahéðnar tekið sér það sérkennilega hlutverk að útdeila fátækt fátækustu landanna yfir til hinna betur settu. Öll íslensk fyrirtæki, sem vilja teljast fyrirtæki með fyrirtækjum, flytja starfsemi sína þangað sem vinnuaflið er ódýrast ef þess er nokkur kostur. Ef reksturinn er aftur á móti þannig að ekki er hægt að flytja hann þá sækja fyrirtækin verkamenn láglaunalandanna til að vinna á því hundlága kaupi sem þar tíðkast, mitt á meðal þeirra sem samið hafi um miklu hærri laun og og betri kjör.

Þetta er frjálst flæði fátæktarinnar í hnotskurn. Hins vegar er flæði velferðarinnar gersamlega ófrjálst. Ekki virðist nokkur leið að flytja hana milli landa á hinum „frjálsa markaði”. Þegar íslenskir atvinnurekendur flytja starfsemi sína til Eystrasaltslandanna flytja þeir ekki með sér íslensk velferðarkjör. Nei, þeir hafa einfaldlega miklu meira upp úr því að flytja störfin út úr velferð og inní fátækt. Það heitir á fínu máli góðir fjárfestingakostir – að geta ávaxtað sitt pund án þess að þurfa að bera nokkra ábyrgð á framtíðarvelferð þeirra sem skapa þeim auðinn. Þetta reikningsdæmi skilur reyndar hver barnaskólakrakki: vinnan kostar þriðjung af því sem annars væri, verð vörunnar eða þjónustunnar sem búin er til lækkar þó ekki, sama hvort launin við framleiðsluna eru há eða lág. Krakkarnir sjá með það sama hvað kemur útúr svona dæmi.

Um  þessar mundir er til að mynda mikið talað um hátt verð á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, allar nýbyggingar seljast eins og heitar lummur og verðið rýkur upp sem aldrei fyrr. Jafnframt er upplýst að aldrei hafi fleiri erlendir verkamenn verið í byggingavinnu á Suð-Vesturhorninu. Og ef það væri ekki dálítið eins og út úr hagfræðilegri kú lægi beinast við að álykta: því fleiri ódýrir erlendir verkamenn sem vinna við að byggja íbúðir þeim mun dýrari verða þær!

Nú á dögum er mikið talað um mannauð – auðinn sem felst í mannfólkinu. Eins og margir íslenskir atvinnurekendur haga sér um þessar mundir líta þeir greinilega svo á að mannauðurinn felist í því atvinnulausa verkafólki sem mælir göturnar í Austur-Evrópu. Þangað má sækja mikinn „mannauð”. Honum fylgir að vísu talsverð „starfsmannavelta” því stöðugt þarf að skipta um verkamenn, annaðhvort til þess að sniðganga reglur, eða vegna þess að starfsmennirnir una ekki þessum bágu kjörum. Já, vel á minnst:

Ætli vinnuseljandinn sé jafn „frjáls” og vinnukaupandinn í þessu dæmi?

hágé.