HIN GULLNA MJÓLKURKÝR
Undanfarna mánuði hafa blossað upp umræður um hæpna viðskiptahætti „lágvöruverðsverslana”. Út úr því hefur ekkert komið nema það sem allir vissu að Bónus er oftast með lægsta verðið og Krónan krónu hærri – fyrir undarlega tilviljun. Forsvarsmenn þessara verslana hafa bæði skrifað í fjölmiðla og komið fram í sjónvarpi og sagt ítrekað að allt væri í fínasta lagi hjá þeim, þeir hefðu ekkert að fela. Fyrir skömmu gerðist það svo, forsvarsmönnum fyrirtækjanna til mikillar gleði, að Samkeppniseftirlitið heimsótti þau, tók afrit af tölupósti og sitthvað fleira, að sögn til að komast að því hvort fyrirtækin hefðu óhreint mjöl í pokahorninu – ólöglegt samráð um verð.
Það var og.
Gestirnir komu eftir að miklar umræður höfðu farið fram í þjóðfélaginu um hið meinta samráð – ævinlega gott að vita með örlitlum fyrirvara ef von er á góðum gestum, enda var þeim tekið fagnandi.
Ekki ætla ég að taka undir sönginn um samráð, fjarri því. Aftur á móti ætla ég að velta fyrir mér hve gullin mjólkurkýr Íslendingar eru, eins og ég gerði í öðru samhengi á dögunum http://blog.central.is/hage .
Þeir feðgar, Jóhannes í Bónus og Jón Ásgeir sonur hans, stofnuðu Bónus fyrir 17 eða 18 árum og byrjðu smátt, með einni búð. Vöxturinn varð svo ævintýralega hraður að nú skipta búðirnar sem fyrirtæki þeirra eiga ekki aðeins tugum hér á landi, heldur einnig hundruðum erlendis. Þar á ofan koma fasteignir, flugfélag, banki, sjónvarp, útvarp og blöð. Fleira kann ég ekki að nefna, en eignirnar eru sagðar skipta fleiri milljörðum en með sæmilegu móti verður tölu á komið.
Ég hef lengi furðað mig á því af hverju nútíma „rannsóknarblaðamenn” hafa ekki skoðað á hverju þetta mikla veldi stendur, hvert er raunverulegt upphaf þess og hvernig þetta er hægt. Ég ætla að setja hér upp dálítið reikningsdæmi:
Segjum til einföldunar að Íslendingar hafi verið 300.000 frá því að Bónus var stofnað og að fyrirtæki hafi byggt á því hafi haft um 50% matvörumarkaðarins allan tímann. Þá hafa 150.000 manns keypt nauðsynjar sínar í verslunum þeirra feðga og Bónus alltaf selt eftir mottóinu að vera með lægsta verðið. Andstæðingar þeirra hafa á hinn bóginn haldið því fram að þeir héldu verðinu uppi. Er einhver vitglóra í þessari ásökun?
Ég hef spurt kunnáttumenn í verslun hvernig það megi vera að verslunarkeðja sem er oftast með lægsta verðið haldi verðinu uppi. Ég hef fengið tvennskonar svör: Hið fyrra er svona: Verslanir í Bónuskompaníinu kaupa inn hjá heildsala fyrir 150.000 manns og vilja skiljanlega fá afslátt og hann mikinn. Hvað gerir heildsali sem undir eðlilegum kringumstæðum þyrfti að selja vörueininguna á 100 krónur. Hann hækkar verðið nógu mikið til þess að hann fái sínar 100 krónur eftir að hann hefur veitt umbeðinn afslátt. Selur hann þá ekki öðrum viðskiptavinum á lægra verði en 100 kr.? Nei það getur hann ekki, vegna þess að hinn stóri viðskiptavinur segir einfaldlega: Ef þú selur einhverjum á lægra verði en þú hefur selt okkur þá kaupum við ekki af þér, nema að fá enn meiri afslátt. Þar með hefur hinum stóra verslunareiganda tekist að halda verðinu uppi, þótt hann geti með réttu sagt að hann sé alltaf með lægsta útsöluverðið.
Hin útgáfan er svona: Heildsalinn veitir svo mikinn afslátt að hann fær sáralítið fyrir sinn snúð. Afkomu sína byggir hann hinsvegar á því að selja minni aðilunum á „réttu” verði eða jafnvel hærra. Lágvöruverslunin Bónus getur því óhrædd lagt á vöruna í skjóli þess að enginn fær sama „lága” innkaupsverðið hjá heildsalanum.
Hvaða leið svo sem farin er þá blasir við að hagnaðurinn af verslunum Bónusfeðga hefur á örfáum árum orðið slíkur að á þeim grunni hefur verið byggður alþjóðlegur verslanahringur með þúsundir manna í vinnu í mörgum löndum. Auk þess hafa verið keyptar frægar fasteignir og veit nú enginn lengur hversu víða rætur þessa veldis hafa teygt sig.
Með öðrum orðum: 150.000 Íslendingar hafa verið gullin mjólkurkýr. Með því að selja þeim grauta og skyr hafa á örfáum árum orðið til margra milljarða eignir. Erlendir bankar og fjármálastofnanir, fyrir utan þá „innlendu” hafa séð að grunnurinn er traustur og ekki hikað við að lána eigendunum fé til að færa út kvíarnar. Það skyldi þó aldrei vera að neytendur fái aldrei að njóta hins „hagstæða” innkaupsverðs – eða hvar verður hinn grunnmúraði hagnaður til?
hágé.