Fara í efni

HOLKLAKI Í HAGFRÆÐINNI

Hagfræðin er stundum skiljanlegri fyrir leikmenn en hagfræðingarnir. Þannig skrifa tveir af kunnustu hagfræðingum þjóðarinnar í marga áratugi, Jónas H. Harals og Tryggvi Þór Herbertsson, grein í Morgunblaðið laugardaginn 11. mars og hvetja landsmenn til að ganga hægt um gleðinnar dyr. Þeir telja Íslendinga lifa góséntíð í upphafi 21. aldar  en á þeim er að skilja að margir kunni sér ekki hóf, þar á meðal hið opinbera, ríki og sveitarfélög. Nú sé þó svo komið að bankar skuldi of mikið erlendis, hinir erlendu lánveitendur hafi áhyggjur af sínum hag. Viðbrögðin við þessum vanda er að ganga hægt um gleðinnar dyr – kunna sér hóf – annars fari illa. Meðal heilræða hagfræðinganna er þetta:  „Á næstu árum verða ríki og sveitarfélög og hverskonar opinberar stofnanir að halda að sér höndum um opinberar framkvæmdir, jafnframt því sem fylgt er fullri ráðdeild í rekstri.”

Þessi orð eru eins og gatslitinn texti á 78 snúninga hlómplötu. Samhengið á milli þess að útlendir bankar láni íslenskum einkabönkum og óttist um sinn hag og þess að sveitarstjórnarmenn dragi úr framkvæmdum og haldi þjónustu í lágmarki útskýra þeir hins vegar ekki. Ef hinir útlendu bankamenn hafa lánað ógætilega verða þeir þá ekki að taka ábyrgð á sínum gerðum? Ef innlendir bankamenn taka of há lán í útlöndum verða þeir þá ekki að bera byrðarnar? Hvaða gagn gerir það í þessu sambandi að sveitarfélög sinni ekki hlutverki sínu af fyllsta myndarskap? Eiga bæjarsjóðir að borga bankana út úr vandræðunum?

Reyndar er tuggan um að sveitarfélögin taki ekki nægilega ábyrgð á opinberum aðhaldsaðgerðum, nýrri af nálinni en 78 snúninga plöturnar. Hagfræðingar sem halda því fram að það leysi einhvern vanda fyrir bankakerfið að sveitarfélög dragi nauðsynleg verkefni á langinn eða skeri þjónustu sína við nögl, virka dálítið eins og kýr á svelli – þeir fóti sig ekki á veruleikanum. Nú á dögum sjá þó fleiri og fleiri að öflug sveitarfélög sem geta skapað aðstæður fyrir fjölskrúðugt mannlíf skiptir ekki minna máli fyrir arðbæran atvinnurekstur en öflugir bankar. Að veikja sveitarfélögin, draga úr getu þeirra til nauðsynlegra framkvæmda og þjónustu, myndi því fremur dýpka þann vanda sem hagfræðingarnir óttast, eða er arðbær atvinnurekstur ekki lykillinn að þróttmiklu mannlífi?

„Þá er það brýnt verkefni að binda enda á óvissuna um Íbúðalánasjóð. Sá sjóður gegndi mikilvægu hlutverki á sínum tíma, en hans er ekki lengur þörf.”

Þetta ráð hagfræðinganna sýnist stangast heldur harkalega á við þann veruleika bankaheimsins sem margir tala um nú um stundir og er í grófum dráttum svona: Íslenskir bankar fá lakari lánskjör erlendis sem óhjákvæmilega mun koma fram í hækkun vaxta hér innan lands. Reyndar spáir frönsk verðbréfastofa (hvað svo sem er að marka hana) einskonar hringekju vaxtahækkana. Íbúðalánasjóður nýtur hinsvegar betri kjara en bankarnir erlendis og getur því veitt lán með lágum vöxtum. Yrði hann lagður niður og settur inní bankakerfið þá kæmi vandi bankanna fram í hækkandi vöxtum sjóðsins. Íbúðalánasjóður, og þar með íbúðaeigendur, tækju þannig ábyrgð á vafasömum atgangi bankanna á erlendum lánamörkuðum.

Það vekur hins vegar athygli að hagfræðingarnir minnast ekki á það sem blasir við og myndi hafa gríðarleg áhrif: að hætta við lækkun skatta og hækka skatta á hærri tekjur. Slík aðgerð myndi draga peninga út úr einkaneyslunni, og draga þannig úr viðskiptahallanum, styrkja ríkissjóð og sveitarfélögin og væntanlega hægja á göngunni „um gleðinnar dyr”. Þeir nefna heldur ekki hlut verslunarinnar, spyrja ekki hvers vegna vöruverð lækkaði ekki í samræmi við styrkingu krónunnar – getur verið að í hagfræði þeirra tvímenninga leynist varasamur holklaki?

hágé.