Fara í efni

Til vinstri við vinstri?

Röksemdafærsla stjórnarandstöðunnar gegn fjölmiðlafrumvarpinu er háalvarlegt mál. Hún heldur því fram að væntanleg lög muni skerða atvinnufrelsi manna og tilfærir einnig að lán bankanna til Norðurljósa verði í uppnámi, að hætta sé á að lífeyrissjóðir tapi tveimur milljörðum sem þeir eigi hjá Norðurljósum, ef frumvarp ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga. Auk þess bendir hún á að atvinna starfsmanna fyrirtækisins kunni að vera í hættu, sem vissulega er ekkert grín. ,,Vinstri sinnuð" stjórnarandstaða hefur með öðrum orðum meiri áhyggjur af að bankar og stóreignamenn tapi á lánum og fjárfestingum heldur en vörnum almennings gegn því að einn eða örfáir aðilar ráði ljósvakafjölmiðlun í landinu (annarri en Ríkisútvarpsins). Sé það rétt að tveir milljarðar af peningum lífeyrissjóða séu í hættu hlýtur það að vera vegna þess að einhverjir sjóðir hafi lánað Norðurljósum þessa upphæð, því lífeyrissjóðsiðgjöld eru varin af ábyrgðarsjóði launa við gjaldþrot. Hvergi hefur orðið vart við að stjórnarandstaðan hafi spurt hvort þetta hafi verið skynsamleg ráðstöfun, hvort réttlætanlegt hafi verið að lána Jóni Ólafssyni og félögum slíka upphæð.

Stjórarandstaðan hefur gert öll rök auðmanna gegn frumvarpinu að sínum en gerir lítið eða ekkert með rök þeirra sem segja: Það er nauðsynlegt að setja samþjöppun á eignarhaldi á fjölmiðlum skorður með lögum. Steingrímur J. Sigfússon hefur auk þess undanfarna daga sagt að málsmeðferðin sé forkastanleg og þess vegna verði VG á móti. Með öðrum orðum: aðferðin skiptir meira máli en afleiðingarnar – geðvonskan í Davíð Oddssyni gerir málið ónýtt samkvæmt þessu.

Nýlega var haft eftir Einari Karli Haraldssyni í Tímariti Morgunblaðsins Ólafur Ragnar hafi, þegar hann var í pólitík, alltaf verið sannfærur um að hans eign verk skiptu mestu máli á hverjum tíma – þar sem hann var, þar voru hlutirnir að gerast. Auk þess gat Einar þess að honum hafi þótt sérstaklega spennandi að vinna með ÓRG í pólitík vegna þess að hann hafi vaknað ,,á hverjum degi með nýjar kenningar í höfðinu”. Nú vill svo til að undirritaður þekkir líka til pólitískra starfa Ólafs Ragnars, en er auðvitað ósammála Einari Karli um að það sé kostur á stjórnmálaforingja að geta ekki haldið lengur út með kenningar sínar en 24 tíma. ,,Kenningar" Ólafs á Alþýðubandalagsárunum var á hinn bóginn fullkomlega fyrirsjáanlegar vegna þess að þær fjölluðu alltaf um hann sjálfan, eins og Einar Karl í rauninni víkur að.

Ég tók að mér að ritsýra Þjóðviljanum á síðustu misserum hans, en Ólafur Ragnar var formaður Alþýðubandalagsins þegar ég hóf störf. Enda þótt við hefðum það fyrirkomulag á útgáfunni að sjálfstæð félög gæfu blaðið út fór ekkert á milli mála hver var hinn raunverulegi eigandi. Þjóðviljinn var blað Alþýðubandalagsins og í mínum huga var aldrei neinn vafi á að blaðið væri í sama liði og flokkurinn. Ég hafði því mikið samband við flokksforystuna, þingmenn, sveitastjórnarmenn og áhrifamenn í verkalýðshreyfingunni. Yfirleitt gekk þetta samstarf prýðilega og allir klárir á því að blaðið væri ein af sjálfstæðum stoðum hreyfingarinnar enda er ég alinn upp í þeirri kenningu, sem dugði ágætlega áratugum saman, að starf vinstri hreyfingarinnar stæði á þremur megin stoðum: flokknum, starfinu í verkalýðshreyfingunni og blaðinu.

Ég hafði að sjálfsögðu oft samband við Ólaf Ragnar, eins og mér bar, tók m.a. sjálfur við hann viðtöl sem fjármálaráðherra. Morgun einn brá svo við að formaðurinn vaknaði upp með kenningu um blaðið og sjálfan sig í kollinum. Hann setti sig í samband við ritsjóra flokksblaðsins og las honum rækilega pistilinn fyrir meðhöndlun blaðsins á einhverju deilumáli sem þá var uppi í flokknum – í þeim efnum tók yfirleitt eitt við af öðru. Flokkurinn hafði að mig minnir haldið einn af sínum mörgu fundum. Á honum kom í ljós ágreiningur milli formanns flokksins, Ólafs Ragnars Grímssonar og formanns miðstjórnar, Steingríms J. Sigfússonar (kannski var hann bara varaformaður AB). Á forsíðu Þjóðviljans var tekið svo til orða að formennirnir væru ósammála. Þessi framsetning passaði ekki við nýjustu morgunkenningu formannsins. Hann tilkynnti ritstjórnaum, og var mikið niðri fyrir, að í Alþýðubandalaginu væri bara einn formaður og fór ekki milli mála hvað hann héti. Ég maldaði eitthvað í móinn, það er jú ekkert grín að lenda í bálreiðum flokksformanni eins og allir geta skilið, og þá kom þessi eðlilega spurning: Ætlar þú að reka sjálfstæða ritstjórnarstefnu? hverju ég svaraði víst játandi, en mun hafa látið þess getið að blaðið væri þó í sama liði og Alþýðubandalagið.

Ástæðan fyrir því að ég rifja nú þetta upp er sú að Ólafur Ragnar hefur um stundarsakir stigið út úr forsetaembættinu og inn í pólitík, á þann hátt sem ekki verður misskilið. Hann taldi sig ekki geta heiðrað danskan prins í einn dag vegna ,,mikilvægra" óafgreiddra mála í þinginu – les: fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddsonar. Stjórnarandstöðunni fannst þetta gott hjá honum og að sjálfsögðu fjölmiðlum í eigu Baugs, sem beinlínis báðu hann um að drífa sig heim. Ólafur Ragnar veit með öðrum orðum nákvæmlega hvaða valdi er verið að setja skorður með því að takmarka samþjöppun á fjölmiðlamarkaði – því valdi að einn eða alltof fáir geti í krafti eignarréttar síns sagt við stjórnendur fjölmiðla: Ætlar þú að reka sjálfstæða  ritstjórnarstefnu? Að sjálfsögðu hefur eigandi fjölmiðils fullan rétt til að spyrja svona og það er alls ekki hægt að lögþvinga hann til að hafa fólk í vinnu sem heldur úti öðru vísi fjölmiðli en hann vill – má reyndar mikið vera ef Sigurður G. Guðjónsson notaði ekki einmitt orðalagið að vera ekki í liðinu þegar hann vék fréttamanni Stöðvar 2 úr starfi fyrir nokkrum mánuðum.

Röksemdafærsla stjórnarandstöðunnar er alvarleg vegna þess að hún er yfirlýsing um að ef ,,vinstri" flokkar komast í stjórn muni þeir ekki setja nein lög sem takmarka samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Þegar af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að setja lög um það efni í þessari lotu. Sé fallist á röksemdir stjórnarandstöðuflokkanna leiðir það til þess að hinir sterku og ríku eiga sífellt auðveldara með að ráðskast með alla skapaða hluti í samfélaginu. Réttur almennings til varnar gegn valdi þeirra á fjölmiðlasviði virðist í því samhengi vera aukaatriði hjá ,,vinstri” mönnum en skipta máli hjá þeim sem eru til ,,hægri”. Forseti lýðveldisins hefur á táknrænan hátt gengið í lið með stjórnarandstöðunni og vinum sínum og stuðningsmönnum hjá Norðurljósum. Synji hann lögunum staðfestingar, sem hann hefur áreiðanlega rétt til, vaknar eðlilega sú spurning hvort hann sé ekki af hagsmunasökum siðferðilega vanhæfur, hvað sem lögunum líður.

Er nú tímabært að spyrja: Hvað er eiginlega um að vera í pólitíkinni? Hefur ,,vinstrið" ruglast gersamlega í rímunu? Er hægri og miðja komin til vinstri við vinstri?

hágé.