SPURT AÐ GEFNU TILEFNI UM RÚV
Fyrir fáeinum dögum var haft eftir menntamálaráðherra í Morgunblaðinu að til stæði að breyta afnotagjöldum Ríkisútvarpsins „í þá veru” að leggja þau niður og verður ekki sagt að ráðherrann hafi verið mjög skýrmælt. Fróðlegt verður að fylgjast með hvað þetta merkir, en á mannamáli sýnist ætlunin að fella afnotagjöld alveg niður en hvað á að koma í staðinn, er aftur á móti ekki ljóst. Eftir því sem næst verður komist er ekki stefnt að því að gera RÚV að hlutafélagi. Um það má aftur á móti segja að Framsókn er óútreiknanleg þar sem hún hefur yfirleitt að lokum látið undan Sjálfstæðisflokknum en virðist ekki ætla að gera það í þessu máli – rétt er þó að undirstrika að kurlin eru ekki komin til grafar.
Því er haldið fram að afnotagjöldin séu svo óvinsæl að ekki sé um annað að gera en fella þau niður. Þó verður ekki séð að almenn mótmælaalda hafi risið gegn innheimtu gjaldanna. Vissulega eru frjálshyggjumennirnir nokkuð háværir og vilja ekki aðeins fella niður gjöldin heldur losna við RÚV fyrir fullt og allt.
Ríkisútvarpið nýtur mikillar velvildar í landinu og engum fréttamiðlum er jafn vel treyst og fréttastofum RÚV. Stofnunin gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki og er, þrátt fyrir að útvarpsráð sé kosið af Alþingi, (eða kannski vegna þess) eini frjálsi og óháði fjölmiðill landsins, eini fjölmiðillinn sem hefur þá samfélagsskyldu að veita sem réttastar upplýsingar og á að vera opinn fyrir gagnrýninni umræðu. Aðrir fjölmiðlar eru í fyrsta lagi háðir eigendum sínum sem vilja skiljanlega hafa hagnað af rekstrinum og í öðru lagi auglýsendum sem þurfa að auka veltuna. Þar að auki er nú svo komið að stærsti auglýsandi landsins, Baugur, ræður stórum hluta hinns einkarekna fjölmiðlamarkaðar.
Vissulega ber að fagna því ef pólitískt samkomulag er um að Ríkisútvarpið verði áfram í samfélagseigu. Til þess að það geti gegnt hlutverki sínu þarf það tekjur og þá virðist augljóst að bein framlög á fjárlögum sé langversti kosturinn. Þar með yrði RÚV endanlega ofurselt þingmeirihluta á hverjum tíma þegar krafa tímans ætti að vera sú, að losað yrði um bein tengsl við þingmeirihlutann. Æðsta stjórn stofnunarinnar ætti ekki að fylgja kosningaúrslitum, að minnsta kosti ekki einum saman. Finna ætti aðferð til að útvarpsráð ætti rætur í þjóðinni án þess að stjórnmálaflokkarnir væru einu milliliðirnir.
Ríkisútvarp, frjáls og óháður fjölmiðill, er mannréttindamál og jafn sjálfsagt í hverju einasta húsi eins og rafmagn, vatn og frárennsli. Hvert mannsbarn á að hafa rétt til aðgangs að efni útvarpsins, það er ekki einasta nauðsynlegt vegna öryggis á hamfarastundum, hver maður á að eiga kost á aðgangi að upplýsingum og fréttum sem hægt er að treysta skilyrðislaust – það er sjálfur kjarninn í því að eðlileg skoðanamyndun geti farið fram í lýðræðissamfélagi. Frétta- upplýsinga- og menningarveita, sem traust Ríkisútvarp á að vera, er jafn sjálfsögð í hverju húsi og veita fyrir vatn, rafmagn og frárennsli.
Þess vegna er eðlilegast að tengja tekjur útvarpsins fasteignum þannig að af öllum fasteignum séu ekki einungis innheimtir skattar, og gjöld fyrir núverandi veitur, heldur ætti líka að innheimta skatt fyrir veituna sem tryggir traustan aðgang að vönduðum fréttum og menningarefni. Í stað afnotagjaldsins ættu að koma útvarpsgjald innheimt af öllum fasteignum í landinu (sennilega er rétt að finna gjaldinu annað heiti). Að innheimta slíkt gjald er einföld aðgerð, gagnagrunnar sem þarf til þess eru þegar til. Vilji menn fella niður gjöldin hjá þeim sem hafa lágar tekjur er það hægt í gegnum skattakerfið. Tæknileg útfærsla gjaldsins gæti verið með ýmsum hætti, til dæmis gjald á rúmmetra í byggingu, eitt gjald á íbúðir annað á atvinnuhúsnæði og svo framvegis. Taka þarf afstöðu til þess að allir greiddu nokkurn veginn sama gjald fyrir upplýsinga- og menningarveituna eða hvort það yrði tekju- og eignatengt.
En hvað ætti gjaldið vera hátt? Ætti til dæmis að hafa það nógu hátt til að RÚV gæti horfið af auglýsingamarkaði? Ætti það að vera hærra en svarar þörfum RÚV þannig að nota mætti hluta af því til að styrkja innlenda dagskrárgerð o. sv. frv.? Er hægt að ná einhverri sátt um að efla RÚV með þessum hætti án þess að leggja stein í götu annarra fjölmiðla? Má til dæmis ekki hugsa sér að eigendur annarra miðla myndu fagna því að RÚV færi af auglýsingamarkaði þannig að þeir sætu einir að auglýsingakökunni? Eða þurfa eigendur annarra miðla, sem eru margir hverjir stórir auglýsendur sjálfir, á auglýsingatíma í RÚV að halda?
Þannig vekja orð ráðherrans margar spurningar sem nauðsynlegt er að svara á næstunni.
hágé.