HELGI H. JÓNSSON KVADDUR
Helgi H. Jónsson, fyrrum fréttamaður er látinn. Við vorum þremennigar að frændsemi þar sem afi minn og amma hans voru systkini, ættuð norðan frá Torfalæk í Húnavatnssýslu. Það voru þó ekki ættartengslin sem leiddu til kynna okkar heldur Ríkisútvarpið, sem um árabil var sameiginlegur samstarfsvettvangur okkar. Á síðustu árum höfum við haft nokkur samskipti þar sem ég kynntist vel hjálpseminni og velviljanum sem bjó með þessum frænda mínum. Eftirfarandi minningarorð birtust í Morgunblaðinu í dag:
"Þegar ég kom til starfa sem sumarafleysingamaður á fréttastofu Útvarps vorið 1978 var þar starfandi litríkur hópur manna. Þeirra á meðal var frændi minn í þriðja lið og, eftir því sem fram liðu tímar, góður vinur, Helgi H. Jónsson. Helgi var fimm árum eldri en ég og mér talsvert reynslumeiri þegar leiðir okkar lágu fyrst saman.
Vel fór á með okkur frændum frá upphafi okkar kynna og þótti mér jafnan gaman að eiga tal við Helga því bæði var hann vel að sér og fróður um margt, ekki síst um það sem sneri að íslenskri sögu og menningu. Þá þótti mér gott, blautum á bak við eyrun í fréttamennskunni, að geta leitað til hans um ýmis efni sem sneru að framsetningu og málfari því fáir stóðu honum þar á sporði. Á Ríkisútvarpinu var á þessum tíma lögð mikil áhersla á vandað málfar og var sá talinn lítt hæfur til starfa sem varð þar á í messunni. Ætíð reyndist Helgi mér bóngóður.
Á þessum tíma hafði hann þegar öðlast talsverða reynslu sem fréttamaður og blaðamaður, bæði á Ríkisútvarpinu og dagblaðinu Tímanum þar sem hann hafði einnig verið í starfi og þá væntanlega undir verkstjórn föður síns, Jóns Helgasonar ritstjóra, hins mikla sagnabrunns og íslenskumanns.
Í seinni tíð áttum við Helgi stundum tal saman. Skoðanir okkar voru svipaðar um margt þótt ekki hafi hann skrifað upp á allt í mínum málflutningi á hinum pólitíska vettvangi. Nógu margt þó til að veita mér margvíslegan stuðning þegar hann taldi mig þurfa á að halda.
Fyrir vináttu hans og samverustundir í gegnum tíðina kann ég Helga H. Jónssyni þakkir. Samferðamenn hans munu minnast mannkosta þessa greinda fróðleiksmanns og sjálfur kveð ég nú góðan vin. Ég sendi fjölskyldu Helga H. Jónssonar hugheilar samúðarkveðjur."