HEMSMET Í SKATTAHÆKKUNUM : GOTT EF SATT ER
Allt er á sínum stað í gamalkunnri tilveru. Viðskiptaráð býsnast yfir skattahækkunum í tíð síðustu ríkisstjórnar og Staksteinar Morgunblaðsins taka undir og kalla þetta heimsmet í skattahækkunum.
Það er vissulega rétt að umtalsverðar breytingar voru gerðar á skattkerfinu í tíð síðustu ríkisstjórnar og eru þær á meðal verka þeirrar stjórnar sem við getum verið einna stoltust af.
Markmiðið var þetta: Grípa til ráðstafana sem hlutfallslega léttu skattabyrðum af lágtekjufólki en þyngdu þær á hinum aflögufæru. Auðlegðarskatturinn var dæmi þar um.
Núverandi ríkisstjórn hefur gagnstæð markmið og enda hefur hún sett í forgang að létta sköttum af hátekjufólki. Afnám auðlegðarskatts er dæmi þar um.
Margoft hefur komið fram að Viðskiptaráði og Staksteinum þykir núverandi ríkisstjórnin hafa sett sér góð markmið en vera of sein til verka.
En væri ef til vill ráð að spyrja hvers vegna skattar voru hækkaðir á síðasta kjörtímabili í þeim mæli sem gert var?
Það var gert vegna efnahagshrunsins sem olli jafnframt hruni í tekjum ríkis og sveitarfélaga. Vegna hrunsins stóð ríkisstjórnin frammi fyrir fjórum valkostum:
1) Hlaða upp skuldum
2) Skera niður útgjöldin
3) Hækka skatta í gegnum skattkerfið
4) Afla tekna með notendagjöldum (þ.e. sjúklingagjöldum, vegagjöldum, skólagjöldum o.s.frv.)
Í tíð síðustu ríkisstjórnar var farin blanda af liðum 2) og 3). Reynt var að forðast valkosti 1) og 4).
Útgjöld voru skorin ótæpilega niður og mest í fjárfestingum á borð við vegakerfið en leitast við að hlífa velferðarmillifærslum, það er greiðslum frá tryggingastofnun, barnabótum, húsnæðisstuðningi o.fl. Á sama tíma voru skattar hækkaðir á fyrrgreindum forsendum.
Aðgerðir síðustu ríkisstjórnar voru afgerandi. Þótt í skattahækkununm á síðasta kjörtímabili þykist Staksteinar eygja heimsmet sem ég skal látið algerlega ósagt um hvort yfirleitt er rétt staðhæfing, þá er þar með ekki sagt að skattar séu hærri á Íslandi en í örðum löndum. Borið saman við Norðurlöndin fer því fjarri. Við erum eftirbátar þeirra um sameiginlega fjármögnum velferðaþjónustunnar. Í Danmörku borga menn ekki krónu fyrir læknisþjónustu. Á Íslandi fjármagna sjúklingar fimmtunginn (20%) af kostnaði heilbrigðiskerfisins.
Í kjölfar hrunsins hafa íslensk stjórnvöld hlotið verðskuldað lof fyrir að einhenda sér ekki í niðurskurðinn einan heldur reynt blöndu niðurskuðar og skattahækkana. Allt var þetta af þeirri stærðargráðu að heimsmetatal kann að eiga við.
En sé hemsmetið okkar fólgið í því að fara ekki þá leið sem Viðskiptaráð hefur talað fyrir, að afla tekna með niðurbroti velferðarstofnana, einkavæðingar, sölu auðlinda og orkufyrirtækja og síðast en ekki síst, notendagjöldum í velferðarþjónustu og vegakerfi, þá er ég bærilega sáttur. Meira að segja stoltur fyrir hönd fyrrverandi ríkisstjórnar af meintu heimsmeti.
Ég vona að við eigum metið.