HÉR ER FÓLK MEÐVITAÐ UM ÁBYRGÐ
Ávarp á ársfundi Landspítalans í dag
Ágætu samstarfsmenn - góðir gestir.
Við sem hér erum í dag og þeir fjölmörgu sem starfa á Landspítalanum bera mikla ábyrgð. Sennilega hefur ábyrgð okkar aldrei verið meiri og brýnna en nokkru sinni að undir henni verði risið. Á lýðveldistímanum hefur staða Íslands ekki verið eins erfið og einmitt nú og því miður á það við eins langt og séð verður inn í framtíðina. Að sumu leyti má jafna aðstæðunum á Íslandi við styrjaldarástand. Þetta eru stór orð. En það er mikilvægt að greina stöðuna rétt og af raunsæi, það er forsenda þess að við sigrumst á vandanum.
Öll vill þjóðin verja velferðina. Það er dýrmæt vitneskja. Verkefnið er þá að virkja þann góða vilja sem býr með okkur öllum. Þjóðir sem byggja á traustum menningararfi og búa við ríka samkennd hefur tekist að sigrast á mótlæti og erfiðleikum, jafnvel þegar erfiðleikarnir hafa virst óyfirstíganlegir. Ég segi að ábyrgð okkar sé brýn. Hér á þessum bæ, stærstu heilbrigðisstofnun Íslands, hefur fólk sýnt í verki að það er meðvitað um ábyrgð sína. Fólk gerir sér grein fyrir því að hér liggur sjálf lífæð velferðarþjónustunnar - í þeim störfum sem hér eru unnin.
Auðvitað hefði verið æskilegra og eftirsóknarverðara, að geta staðið hér sem heilbrigðisráðherra í blómlegum efnahag og uppsveiflu í efnahagslífinu, getað sleppt öllum varnaðarorðum, aðeins hvatt ykkur sem hér starfið til að bjóða upp á nýjungar og vöxt. En ískaldar staðreyndir óreiðunnar í fjármála-og efnahagslífi þjóðarinnar undanfarin mörg ár verða til þess að myndin sem við blasir er því miður dregin í dekkri og drungalegri litum.
Það er ekki hægt að horfa framhjá því að við erum að koma út úr góðærinu - eða eigum við að kalla það þensluskeiðinu - með heilbrigðisþjónustu sem er tveimur komma tveimur milljörðum króna í mínus. Tvö þúsund og tvö hundruð milljónir króna. Og þessi er niðurstaðan á sama tíma og sparnaður og aðhald hefur einkennt starf stjórnenda Landspítalans á umliðnum árum. Ég endurtek að við erum að koma út úr uppgangstíma og hverfa inn í samdráttarskeið með milljarða skuldahala á eftir okkur. Að auki er okkur gert að glíma við niðurskurðarkröfur.
Krafa hefur verið reist á heilbrigðisþjónustuna í heild að skera niður um 6,7 milljarða á þessu ári. Á þessa stofnun, Landspítala háskólasjúkrahús, er reist krafa um að skera niður um 2,6 milljarða - tvö þúsund og sex hundruð milljónir. Þar er um að ræða gamlan vanda og nýjan.
Nú er sem betur fer kappsamlega unnið að því að koma skuldastöðu þjóðarinnar í ásættanlegri farveg en mótaður var í haust leið. Í þeirri vinnu finnum við fyrir klónum á lánadrottnum, sem fengið hafa sérfræðingana frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sér til halds og trausts en sem kunnugt er hafa þeir mikla reynslu í að færa skrúfurnar upp á þumalinn á skuldugum þjóðum, einkum suður í álfum, stundum með skelfilegum afleiðingum. Þeir segjast vilja vinna í anda vináttu og bróðernis.
En eins og Grímur Thomsen kvað um Goðmund á Glæsivöllum þá var bróðernið flátt þótt með ýtum væri á yfirborðinu kátt og dátt. Það verður aldrei ofsagt hve mjög liggur við að Íslendingar standi þétt saman og ræði af einurð en jafnan af yfirvegun við varðstöðumenn alþjóðafjármagnsins. Sem þjóð þurfum við að hafa á okkur andvara svo lengi sem við hvílum í þeirra vinarklóm.
Ég sagði að ástandinu á Íslandi mætti einna helst líkja við styrjaldarástand, eða afleiðingar styrjaldar. Það eru fjölmargir hér í okkar samfélagi sem eru svartsýnir á framtíðina, óttast um eigin hag og sumir sjá ekki út úr skuldunum sem þeir steyptu sér í.
Þetta er allt skiljanlegt.
En þótt við viljum og eigum að skilja og skilgreina veikleika okkar af raunsæi þá eigum við aldrei að ganga svartsýni og bölmóði á hönd. Í öllum erfiðleikum eru fólgin tækifæri og í hruninu nú felast einmitt tækifæri til að breyta, endurskoða og byggja upp að nýju þá inniviði sem samfélagið hvílir á. Þetta gildir um heilbrigðisþjónustuna.
Á sama tíma og skorið er niður á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum landsins æðir kostnaður annars staðar upp - í sumum tilvikum vegna þess að útgjöldin og aukning þeirra eru ekki innan seilingar fjármálastjórnar stjórnsýslunnar. Þetta er óásættanlegt. Við sem greiðum fyrir heilbrigðisþjónustu landsmanna með skattfé okkar viljum líka hafa hönd í bagga um ráðstöfun fjárins. Þar á allt að vera í stöðugu endurmati, stöðugri endurskoðun. Þetta á við um öll kerfi. Ekkert kerfi er svo gott að það geti ekki orðið ennþá betra. Öll kerfi þarf að þróa og þeim þarf að breyta eftir aðstæðum. Þar dugir engin sjálfstýring.
Ég lít á það sem skyldu okkar að nýta hrunið til að aftengja sjálfstýringu í heilbrigðisþjónustunni, að öðrum kosti náum við ekki landi. Þetta þýðir að við þurfum öll að búa okkur undir breytingar - starfsmenn, stjórnendur og heilbrigðisyfirvöld.
Sjálfstýring þýðir að við hækkum ekki bara þjónustugjöld á sjúka þegar vantar klink í kassann, sjálfstýring þýðir líka að við gerum ekki lengur út á aukafjárveitingar að hausti vegna fjármuna sem búið er að nota, að aftengja sjálfstýringuna er að finna óhefðbundnar lausnir og hugsa út fyrir þann ramma sem við eigum öll stundum erfitt með að gera.
Mín pólitíska lína í þessu sambandi rúmast í einu orði: Jöfnuður.
Og þessi lína er alls ekki sprottin úr höfði mínu. Þetta var niðurstaða kosninganna þann 25. apríl. Þetta er ósk og löngun þjóðarinnar.
Sumir vildu ESB-aðild, aðrir vilja kasta krónunni, enn aðrir eru harðir andstæðingar ESB-aðildar, en ég held að enginn véfengi að umræðan í þjóðfélaginu í aðdraganda kosninganna einkenndist af áherslum um félagsleg gildi. Hin félagslegu viðhorf fengu nú meiri byr í seglin en verið hefur um langa hríð.
Í mínum huga gengur krafa þjóðarinnar út á eitt: Almenningur í þessu landi vill fara leið jöfnuðar og réttlætis út úr kreppunni. Hann hafnar niðursoðnum skyndilausnum, auglýsingamennsku og skrumi. Fólk vill efla lýðræðið, sameiginlega ákvarðanatöku og síðast en ekki síst: Burt með allt boðvald.
Þegar ég tala um jöfnuð í heilbrigðisþjónustunni þá vísa ég til jöfnuðar í tvennum skilningi.
Í fyrsta lagi geng ég út frá jöfnuði gagnvart sjúklingum. Jöfnuður gagnvart þeim þýðir að það má aldrei verða svo í okkar fámenna þjóðfélagi að einstaklingar, eða hópar, geti ekki, eða telji sig ekki geta, leitað læknisþjónustu af peningalegum ástæðum.
Í öðru lagi er það skoðun mín, að gagnvart starfsmönnum megi auka jöfnuð í kjörum manna.
Ég leyfi mér að nefna þetta því ég og fleiri voru vænd um það af þeim sem bera ábyrgð á fjármálahruninu, að við vildum lækka laun og hækka skatta, á meðan viðkomandi áætluðu að búa til 20 þúsund störf, án þess að hækka skatta og alls ekki að segja upp fólki.
Launasumman á Landspítalanum er rétt innan við 30 milljarðar á ári, eða um eða yfir 70% af útgjöldunum.
Til að mæta sparnaði geta stjórnendur Landspítalans dregið saman rekstrarkostnað af ýmsu tagi, en það er ekkert sem skilar jafn miklum sparnaði og kjararýrnun, eða uppsögn starfsmanna.
Ef Landspítalinn segir upp 100 manns þá lækkar heildarkostnaðurinn við rekstur spítalans kannski um 600 milljónir á ári. Ef Landspítalinn segir upp 400 manns þá svarar það til sparnaðarins sem stjórnendum er gert að skila á árinu.
Ein ástæðan fyrir því að ég ber mikið traust til stjórnenda Landspítalans er sú, að þeir kusu að fara ekki þessa leið. Þeir vita sem er að álagið á starfsfólk verður ekki aukið án þess að það bitni á þjónustunni sem veitt er. Þeir vita sem er að markmiðið er ekki að hlaða meiri byrðum á starfsfólkið með mannfækkun heldur finna leiðir til að létta á byrðunum með útsjónarsemi í skipulagi vinnunnar. Þeir hafa reynt að fara þessa leið - leið sem að mínum dómi er samfélagslega ábyrg og felur það í sér að leita allra leiða til sparnaðar. Þessi leið þýðir það líka að þeir sem hafa meira afsali sér til þeirra sem hafa minna.
Hagræðingarkrafan stendur nefnilega á okkur öll.
Okkur líkar það ekki, en hér riðu menn um héruð, skildu eftir sig sviðna jörð og reikning sem almenningur í þessu landi þarf að greiða. Eina leið okkar út úr vandræðunum er sparnaður, ráðdeild en umfram allt jöfnuður. Hann - jöfnuðurinn - er nefnilega forsenda samkenndarinnar, sem við þurfum svo mjög á að halda.
Ég vorkenni engum manni, sem hefur bærilega afkomu að gefa tímabundið eftir - en hin sem ekkert eiga aflögu, hafa lág laun, eða það sem er ennþá verra, hafa misst atvinnuna, þau eiga samúð mína - alla.
Það hefði kannski hljómað vel á árinu 2007, að mæta sparnaðarkröfunni á Landspítalann með fjöldauppsögnum, en slík aðgerð er ekki í kortunum nú.
Hún er samfélagslega óábyrg og hún er hreint út sagt ósiðleg.
Við þurfum að vinna okkur út úr vandanum saman. Jöfnuður, samráð og samvinna eru lykilorðin. Við þurfum að vinna saman að lausnum. Heilbrigðisyfirvöld verða að hlusta og síðan framkvæma.
Á þessum grundvelli kalla ég eftir samstarfi heilbrigðisyfirvalda, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra heilbrigðisstétta um það hvernig við getum unnið okkur út úr kreppunni þannig að sparnaður náist án þess að skaða sjúklinginn og hlífa störfunum.
Ég er sjálfur búinn að fara um allt land til að hitta heilbrigðisstarfsmenn, stjórnendur heilbrigðisstofnana og bæjarstjórnarmenn á viðkomandi stöðum. Alls staðar gera menn sér grein fyrir alvarlegri stöðu efnahagsmála, en hvarvetna stendur upp úr mönnum það sem við vitum að skiptir öllu máli í okkar viðkvæma ástandi, að forðast aðgerðir sem leiða til atvinnumissis fólks.
Baráttan fyrir eflingu heilbrigðiskerfisins þarf að byggja á frjórri umræðu, ekki bara hér innandyra heldur líka úti í þjóðfélaginu. Við megum ekki hætta að vera stolt af heilbrigðiskerfinu. Þjóðin þekkir af eigin raun þá natni, þá samviskusemi og þann kærleika sem hún mætir þegar hún þarf að sækja umönnun til heilbrigðisstéttanna. Ég er sannfærður um að þjóðin vill tryggja þeim stéttum sem hér vinna bestu aðstæður og góð kjör.
Til frambúðar má það ekki gerast að sparnaður verði sóttur í vasa starfsfólks á heilbrigðisstofnunum. Heilbrigðiskerfið á ekki að fjármagna með því að leggja skatta á sjúklinga eða gjöld á veikindi. Við eigum hins vegar að freista þess að bæta skipulag, nýtingu og ná fram aukinni hagkvæmni í innkaupum og öllu skipulagi. Allt þetta á að vera hægt að gera í sátt og samvinnu.
Góðir samstarfsmenn - ágætu gestir.
Stefnumótunarvinna er eitt af þessum hugtökum sem hafa öðlast sjálfstætt líf á síðustu árum. Hugtakið kemur í stað spurningarinnar: Hvert ætlum við og hvernig komumst við þangað?
Ætlan mín sem heilbrigðisráðherra, það er að segja ef ég verð það áfram, er að beita mér fyrir breytingum í heilbrigðisþjónustunni, heildrænum breytingum og endurskoðun. Markmiðið er að draga úr kostnaði, nýta fé skynsamlega og aftengja sjálfvirkni í útgjaldaþróun kerfisins. Þetta eru mín pólitísku markmið.
Um þau vil ég efna til víðtæks og raunverulegs samráðs um útfærslur, þar sem við leiðum saman heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingasamtök og sérfræðinga til að gera tillögur um breytingar og skipulag heilbrigðisþjónustunnar í bráð og lengd. Þannig vil ég gera hlutina og vonast til að aðrir kjósi að vera með.
En yfir í aðra sálma.
Þegar kynntar voru endurskoðaðar hugmyndir um byggingu nýs Landspítala sagði forstjórinn: Við höfum ekki efni á, að gera ekki neitt.
Ég er sammála, en ég get engu lofað á þessu stigi, enda maðurinn í reynd nánast umboðslaus eins og sakir standa, þótt ég hafi hótað því að vera í embætti í tólf ár.
En gamanlaust. Þær hugmyndir sem nú liggja fyrir eru að mínu mati skynsamlegar, það er hægt að færa gild rök fyrir réttmæti þess að ráðast í framkvæmdir í ljósi hagræðingar til langs tíma og það má líka finna atvinnupólitísk rök fyrir framkvæmdinni. Verði ég áfram í embætti mun ég tryggja að málið verði fært upp á vinnuborðið en ekki sett til hliðar. Það er nefnilega hárrétt hjá Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítala Háskólasjúkrahúss að það dýrt og óskynsamlegt að leggja árar í bát.
Ef ég fæ um þetta ráðið, þá siglum við.
Góðir samstarfsmenn.
Þegar ég tók við sem heilbrigðisráðherra hélt ég tvo fundi á Landspítalanum. Þá fór ég með nokkrar staðreyndir um rekstur Landspítalans á undanförnum árum. Niðurstaða mín var að starfsmennirnir hér hver og einn einstakur hefðu unnið afrek. Það er enn skoðun mín.
Heilbrigðisþjónustan og í rauninni öll íslenska þjóðin stendur á krossgötum. Alvarlegir hlutir hafa gerst, uppgjörið er vart hafið og það eru erfiðir tímar framundan. Sem þjóð stöndum við frammi fyrir að leysa gríðarlega erfið mál á öllum sviðum þjóðlífsins - í störfum okkar og í einkalífi.
En ég segi jafnframt: Sú staða sem nú er uppi á að verða okkur tilefni til að kasta á haugana gervilausnum fortíðarinnar og óheiðarleikanum sem við höfum fyrir augunum í öllum mannanna kerfum.
Við eigum að víkja frá okkur allri uppgjafarhugsun og einsetja okkur, hér og nú, að fara fram af skynsemi og yfirvegun.
Endurskipulagning sem við verðum að fara í, á heilbrigðissviði, þarf að verða sá grundvöllur, sem gerir okkur fær um að byggja upp heilbrigðisþjónustu í anda jöfnuðar - til langrar framtíðar.
Það er til mikils að vinna.
Umfjöllun, m.a. hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/05/06/sjalfstyring_verdi_aftengd/
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/05/06/thumalskrufur_og_vinarklaer_ags/
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/05/06/vill_af_stad_med_nyjan_spitala/