HERNAÐARÁRÓÐUR FRAMLEIDDUR Í KRÝSUVÍK
Segðu mér Ögmundur, eiga einhverjir stór-jarðröskunarmenn úr bandarískum kvikmyndaiðnaði að komast upp með að hóta íslenskum fréttamönnum? Hver leyfir þetta eiginlega, eru það núverandi stjórnvöld, ofan á allt? Vonandi fara íslenskir kjósendur að átta sig á hvers konar endemis liðleskjur stýra landinu. Ég held að þjóðráð væri að íslensku dátarnir sem voru sendir í óleyfi til Afganistan, væru frekar sendir suður í Krýsuvík til að vernda land og þjóð fyrir þessum ágangi. Það er gott og blessað að hingað komi erlendir kvikmyndatökumenn en ég er sammála þér og séra Gunnþóri Ingasyni í Mogga-greininni sem þú vekur athygli á hér á síðunni, að þetta flokkast frekar undir hernaðaráróður en kvikmyndalist. Sigurður Á. Friðþjófsson skrifar skemmtilega grein í Frjálsa penna hér á síðunni en ekki get ég tekið undir með honum hvað boðskapinn varðar. Ég sendi fréttina af Stöð 2 hér með.
Kveðja,
Hafsteinn
http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=50596
Það stórsér á svæðinu í Krísuvík sem notað er við gerð myndarinnar Flags of Our Fathers. Jörð hefur verið sviðin og skotgrafir grafnar. Aðstandendur myndarinnar hótuðu kvikmyndatökumanni Stöðvar tvö lögsókn í dag fyrir að taka myndir af svæðinu.
Þegar fréttastöfa Stöðvar 2 náði myndum af tökusvæði myndarinnar Flags of Our Fathers kom í ljós að vegsummerki eftir tökuliðið fara ekki á milli mála. Eldvörpur voru notaðar til að brenna gróður á ströndinni, skotgrafir voru grafnar og rústir hafa verið byggðar á um kílómetra kafla með fram ströndinni. Æfingar hafa staðið yfir á svæðinu í dag og verið var að prófa skriðdreka og ýmiss konar byssur þegar tökumann bar að garði.
Menn frá framleiðendum myndarinnar hótuðu tökumanni lögfræðingum yrðu myndirnar birtar í fréttum Stöðvar 2 í kvöld en þar sem Sandvíkursvæðið er opið hverjum sem er á fólk rétt á að sjá hvernig farið er með svæðið og enginn getur bannað myndatökur á því.
Clint Eastwood, leikstjóri myndarinnar, er kominn til landsins og skoðaði tökustaðinn í nótt. Aðspurður hvernig honum litist á tökustaðinn sagði hann aðstæður góðar. Allt liti mjög vel út það sem af væri. Spurður hvort hann hefði áður komið til Íslands sagði Eastwood að þetta væri fyrsta ferð hans hingað.