Fara í efni

HERNAÐARHYGGJA SÆKIR Á UM ALLAN HEIM

Laugardaginn 31. ágúst og sunnudaginn 1. september sótti ég fróðlega og vekjandi ráðstefnu í Berlín á vegum European Forum for Freedom and Peace.

Mér var boðið að halda erindi á ráðstefnunni en í því fjallaði ég um mína sýn á pólitískar fangelsanir í Tyrklandi, kúgun Kúrda, aðkomu NATÓ og hvaða leiðir mætti fara til að draga úr ofbeldi á þessum slóðum. Um tvö hundruð manns sóttu ráðstefnuna, flestir útlagar frá Tyrklandi, bæði Kúrdar og Tyrkir, margir þeirra blaðamenn og fræðimenn sem hraktir hafa verið í útlegð.

Á ráðstefnunni var fólk komið víða að einkum frá svæðum þar sem óöld ríkir, kúgun og ofríki. Sérstaklega var horft til þeirra landa þar sem tekist hafði að leysa illvígar langvarandi deilur með friðarsamningum svo sem í Norður-Írlandi og Suður Afríku.

Á meðal þeirra sem töluðu á ráðstefnunni voru fulltrúar frá Palestínu, Filippseyjum, Suður-Afriku, Írlandi og síðan að sjálfsögðu Tyrklandi. Svo var ég þarna sem áður segir, þannig að Ísland var á blaði.

Fulltrúarnir erlendis frá sögðu frá reynslu heiman frá sér af friðarviðræðum við erfiðar aðstæður en þetta er einmitt það verkefni sem Kúrdar standa frammi fyrir. Þeir vilja friðinn en valdhafarnir ekki. Hvað skal þá til bragðs taka. Þetta var rætt fram og til baka.

Annað sem var sláandi og það var hve víða í heiminum menn sjá hervæðingu og uppgang hernaðarhyggju. Þar eru Bandaríkjamenn í fararbroddi. Á Filippseyjum svo dæmi sé tekið, eru þeir í óða önn að fjölga herstöðvum sínum og er vopnum þaðan beint að Kína.

(Á myndinni hér að ofan má sjá einn fyrirlesarahópinn á ráðstefnunni. Í miðju situr umræðustjórinn Hisyar Özoy, fyrrverndi þingmaður HDP flokksins í Tyrklandi og talsmaður í þess flokks í utanríkismálum en honum til hægri handar eru Dr. Nora J. Ragab talskona palestínsrka femínista í Berlín og Marylen Serna Salinas frá Bólívíu. Hisyar á vinstri hönd eru Connie Ledesma frá Filippseyjum og Paul Gavan, þingmaður Sinn Fein flokksins á Írlandi.) 

Í tengslum við þessa ráðstefnu í Berlín var efnt til útifundar í samvinnu við friðarsamtök og var ég á meðal þeirra sem ávörpuðu hann. Mikill uggur er greinilega í fólki vegna þessarar þróunar og minnti ég á það í ræðu minni hvernig friðarhreyfingu níunda áratugarins hefði tekist að hnekkja áformum Bandaríkjanna og NATÓ um að setja upp skammdrægar og meðaldrægar flaugar í Evrópu. Þrýstingur frá almenningi hafi leitt til samnings um bann við slíkum vopnum árið 1987. Bandaríkjamenn hefðu hins vegar nú sagt sig frá þessum samningi og þrýstu á fylgiríki sín í Evrópu að setja upp árásarvopn að nýju. Allt er þetta svo kallað varnir eins og fyrri daginn. Fjöldafundirnir sem snúið hefðu dæminu við byrjuðu smáir í sniðum en hefðu síðan vaxið þar til milljónir mótmæltu.

Ný þyrftum við í slíkum þrýstingi að halda á nýjan leik.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögð