Fara í efni

Herþotur í lágflugi

Síðdegis í gærdag renndu Bandarísku herþoturnar þrjár, sem átök hafa staðið um hvort ættu að vera eða fara, sér lágt yfir miðborg Reykjavíkur. Þetta telst til mikilla tíðinda, því að öðru jöfnu er rík áhersla lögð á að þotur þessar fljúgi fjarri þéttbýli, hvað þá að þær fljúgi í lágflugi, líkt og til lendingar inn yfir Reykjavík. En vera kann að skýring sé til á þessu mjög svo sérstaka fluglagi herflugvélanna. Rétt um það leyti sem þoturnar geystust yfir í u.þ.b. 200 metra hæð, rétt vestan við stjórnarráðið, var Davíð að leggja lokahönd á að taka til í skrifborðinu sínu við Lækjartorg og búa sig undir að láta flytja sig og sitt hafurtask “upp í sveit”, líkt og nítjándu aldar menn nefndu gjarnan ferðalag inn að Rauðará. Vera kann að Bandarískum ráðamönnum hafi þótt rétt, þegar þeir fréttu að flytja ætti hann hreppaflutning út í dreifbýlið fyrir það eitt að lækka niður í stöðu utanríkisráðherra, að veita honum móralskan stuðning eða “honor” að hermannasið í kveðjuskyni með flugi herþotnanna þriggja lágt yfir stjórnarráðinu. Var Davíð ekki að minnast á viðtal sitt við “Colin” í fréttum í gær?  Hvað fór þeim á milli? Skildu þeir fyllilega hvor annan? Kann ekki að vera að einhverjir tungumálaörðuleikar hafi orðið til þess, að Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi virkilega trúað því að Davíð væri á hrakhólum og þyrfti á mórölskum stuðningi að halda?
Ísmann