HETJUDÁÐIR
08.11.2010
Stórkostlegt var að horfa á afrek Íslensku alþjóðabjögunarsveitarinnar á Haiti í sjónvarpsmynd sem sýnd var á RÚV á sunnudagskvöld.
Hvers vegna íslensk hjálaparsveit á Haiti? Jú, hinn 13. janúar síðstliðinn var eftirfarandi að finna á heimasíðu Slysavarnarfélagsins Landsbjörg: „Í kjölfar jarðskjálftans sem reið yfir Haiti í gærkvöldi hefur utanríkisráðuneytið ákveðið í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg að bjóða fram aðstoð Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar sem er sérhæfð í rústabjörgun og er sveitin nú í viðbragðsstöðu. Gríðarleg eyðilegging hefur átt sér stað á Haiti og er óttast að mannfall sé mikið. Á svæðinu þar sem jarðskjálftinn reið yfir búa yfir 2 milljónir manna. Fjöldi alþjóðlegra björgunarsveita hafa nú boðið fram aðstoð og er beðið eftir viðbrögðum stjórnvalda á Haiti. Á meðan beðið er vinnur Íslenska Alþjóðabjörgunarsveitin hörðum höndum að undirbúningi fyrir flutning sveitarinnar til Haiti. Sveitin saman stendur af 35 björgunarmönnum. Hún hefur meðferðis 10 tonn af rústabjörgunarbúnaði, 3 tonn af vatni, tjaldbúðir fyrir sveitina, fullkominn fjarskiptabúnað og vatnshreinsibúnaðar. Hægt er að halda sveitinni úti án utanaðkomandi aðstoðar í allt að 7 daga."
Skemmst er frá því að segja að Íslendingarnir voru fyrstir hjálaparsveita á vettvang. Margt var áhrifaríkt í heimildarmyndinni. Þegar stúlkunni var bjargað lifandi úr rústum og móðir hennar hné niður yfirkomin af geðshræringu, verður ógleymanlegt svo og þakkirnar sem Íslendingarnir fengu fyrir sitt óeigingjarna starf. Þetta held ég að hafi fyllt okkur öll stolti yfir hetjudáðum landa okkar.