HÍ, SAMTÖK VERSLUNAR OG ÞJÓNUSTU OG LANDSBANKI FJALLA UM “HÆFILEIKAFÓLK”
Það er gott til þess að vita að þeir sem verða fyrir ofsóknum og einelti skuli eiga hauk í horni í kennurum í hagfræði við Háskóla Íslands. Í fréttatilkynningu frá háskólanum segir að „Hagfræðistofnun og Viðskiptafræðistofnun mun(i) að venju standa fyrir málstofum á miðvikudögum í vetur. Fyrsta málstofa vetrarins verður haldin 7. september en þá mun Gylfi Zoëga prófessor halda erindi sem hann nefnir „Tekjujöfnun innan fyrirtækja: Er gengið á hag hæfustu starfsmannanna? ...Í fyrirlestrinum verða leidd rök að því að tekjujöfnun innan fyrirtækja hafi það í för með sér að fyrirtæki kjósi fremur að segja upp starfsmönnum en lækka laun þegar að kreppir.“
Því miður kemst ég ekki á þennan fyrirlestur, til að fá botn í hvað raunverulega er átt við með þeim orðum sem vitnað er til. Gaman væri að fá að heyra umræðuna á kennarastofunni í Viðskiptadeild HÍ um hvernig menn fari að því á þeim bænum að greina hæfileikamennina frá hinum hæfileikasnauðu.
Þetta sjónarmið innan úr HÍ virðist mér vera í takt við það sem við nú heyrum víða að. Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka kom fram í morgunútvarpi og var vongóður um að „vinnulöggjöf og starfsumhverfi fyrirtækja“ í Evrópu muni taka breytingum og verða “sveigjanlegra” á næstu misserum. Við slíkar aðstæður gætu fyrirtæki í Evrópu vaxið og farið að skila gróða...Til þessa litu þeir bankamenn nú í spekúlasjónum sínum. Nefndi Halldór komandi kosningar í Evrópu og átti þar greinilega við kosningarnar í Þýskalandi, Svíþjóð og víðar þar sem peningamenn hugsa gott til glóðarinnar komist þarlent Íhald að. Í mínum huga vöknuðu margar spurningar við hugleiðingar bankastjóra Landsbanka sem þess vegna hefði getað verið úr hvaða banka sem var. Sjónarmiðin eru hin sömu.
Skyldi þessum mönnum ekki þykja bankarnir græða nóg? Eða er það virkilega sjónarmið bankanna að forsenda þess að tryggja áframhaldandi ofsagróða fjármagnseigenda sé að brjóta niður alla þá sem vinna að jöfnuði í samfélaginu? Þess vegna fagni þeir að óvildarmenn verkalýðshreyfingarinnar komist á valdastóla í Evrópu? Skyldu Halldór J Kristjánsson og félagar ekki gera sér grein fyrir því að svona tal og árásir á jafnaðarsamfélagið kallar á viðbrögð? Auðvitað kemur að því að fólk gerir uppreisn gegn boðberum arðráns og braskvæðingar samfélagsins. Því fyrr sem það gerist, því betra.
Samtök Verslunar og þjónustu sendu frá sér fréttabréf í dag. Þar segir m.a.:„Launahækkanir sem orðið hafa í verslun og þjónustu að undanförnu felast fyrst og fremst í hærri greiðslum til þeirra starfsmanna sem þykja hæfastir og vinnuveitendur vilja halda í til langframa. Þetta á jafnt við um þá sem sinna sérfræðistörfum og aðra starfsmenn. SVÞ könnuðu launamál og atvinnuástand meðal aðildarfyrirtækja sinna og komust að því að þó almennt séu umsóknir um hvert starf færri en áður er hlutfall mjög hæfra umsækjenda hærra en áður hefur verið.“
Þetta eru slæm tíðindi. Nú þurfa allir þeir sem sjá í gegnum samtryggingartal hátekjufólksins, sem súrrar sig saman í að skilgreina sig sjálft sem “hæfileikafólk” að sýna fram á hve innantómt þetta tal er. Fólk sem höndlar með peninga er komið með fráleitar hugmyndir um eigið gildi. Hvers á sjúkraliðinn að gjalda, sjómaðurinn, lögreglumaðurinn, smiðurinn, hafnsögumaðurinn...? Hvar væru þeir staddir spekingarnir við Viðskiptadeild HÍ eða í Landsbankanum ef þessa fólks nyti ekki við? Og skyldi það almennt vera hæfileikasnautt?