Fara í efni

HINN ÍSLENSKI ÞRÆLL

Hinn auðmjúki, íslenski þræll
er ötull og víst er hann dæll
þótt kvalin hann störfin sín stundi
og stæri sig mest af því
að biðja um betri laun,
hann brosir að sinni raun
og líkist þá hógværum hundi
sem húsbóndinn sparkar í.

 Er þrællinn í þrengingum rís
svo þægur hann hollustu kýs
í dallinn hann þakklátur þiggur
þunnan og beiskan graut.
Það yljar á örlagastund
að eiga svo kúgaðan hund
sem trúfastur er og tryggur
og traustur í hverri þraut.

Af hörku er handbragðið þétt
sem hittir hans veikasta blett.
Í fletinu fer um hann hrollur
er fátæktin tekur öll völd
og þrællinn hann þarf að fá lán
og þiggur í leiðinni smán
því bljúgur og húsbóndahollur
og hnípinn hann greiðir sín gjöld.

Með ól um sinn aðumýkta háls
þess ósk er að verði hann frjáls,
hér stöðugt hann fórnirnar færir
svo fær hann sín lúsarlaun.
Og þybbnasti þrjóturinn sér
að þrællinn svo greiðvikinn er
því auðmýktur aldrei hann lærir
að eflast við hverja raun.

Þótt hljóti hann byltu og böl
barsmíðar, ágang og kvöl
við hásæti húsbóndans fallinn,
í hógværð hann rekur upp vein.
Hýddur og hnugginn hann er
og herrann það glaðbeittur sér
hvar þrællinn má dansa við dallinn
og dæmdur hann nagar sitt bein.

Hinn auðmjúki, íslenski þræll
er ötull og víst er hann dæll
þótt kvalin hann störfin sín stundi
og stæri sig mest af því
að biðja um betri laun,
hann brosir að sinni raun
og líkist þá hógværum hundi
sem húsbóndinn sparkar í.

Kristján Hreinsson, skáld