Hissa á fjölmiðlum
Sannast sagna er ég hissa á íslenskum fjölmiðlum að standa ekki betur vaktina en raun ber vitni gagnvart fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun. Ráðherrar eru ítrekað látnir komast upp með hrein ósannindi í yfirlýsingum sínum, að ekki sé minnst á hróplegar mótsagnir í málflutningi. Það sem kemur mest á óvart í augnablikinu er að enginn fjölmiðill skuli á gagnrýninn hátt gera að umtalsefni tilboð Impregilo í Kárahnjúka-mannvirkin. Þar gerist sá fáheyrði atburður að verkkaupandi (þ.e. Landsvirkjun) skýrir opinberlega frá kostnaðaráætlunum sínum áður en útboð eru opnuð. Var það ef til vill gert til þess að fá pantaða niðurstöðu? Menn vita sem er að hækki kostnaður við virkjunina umtalsvert þá hrynur öll arðsemisspilaborg Landsvirkjunar. Þetta er staðfest í arðsemisskýrslunni sem birt var í gær þótt höfundar hennar veki ekki á því athygli í niðurstöðum sínum fyrir einhverra hluta sakir (að skýrslunni stóðu iðnaðarráðuneyti, Reykjavíkurborg og Akureyri).
Allir þeir aðilar sem þekkja til framkvæmda af þessu tagi vita að útboð er eitt, endanlegar niðurstöður annað. Athygli er vakin á nýlegu dæmi frá gangagerð í Kaupmannahöfn í grein neðar hér á heimasíðunni ( hún ber heitið: Engin óvissa um kostnað við Kárahnjúkagöng?). Þar er gefin upp vefslóð hjá dönskum verkfræðingum þar sem upplýsingum um algera kostnaðarsprengingu er komið á framfæri; um framkvæmd sem upphaflega átti að kosta 5,3 milljarða danskra króna en er nú komin upp í 11 milljarða, eða um 130 milljarða íslenskra króna. Er ekki vert að spyrja forsvarsmenn Landsvirkjunar eða iðnaðarráðherra hver yrði ábyrgur ef kostnaður við mannvirkjagerð við Kárahnjúka færi úr böndum? Og þarf ekki að spyrja arðsemisskýrsluhöfundana að því hvernig þeir skýri hróplegt misræmi annars vegar í töflum sem þeir birta og sýna hvernig ýmsar breytur í forsendum, svo sem breytingar í tilkostnaði, leiða til umtalsverðs taps á verkefninu og hins vegar í niðurstöðunum sem boða eilíft sólskin? Og vakna engar spurningar þegar slegið er upp á vefslóðnni impregilo scandals, (impregilo hneyksli) að þá skuli tölvuskjárinn umsvifalaust fyllast? Höfum við bara ákveðið að allt sé slétt og strokið, að allt sé í fínasta lagi? Ætlum við ekki að vera metnaðarfyllri en svo að trúa bara í blindni á Landsvirkjun og iðnaðarráðherra? Ef svo er þá er ástæða til að biðja almættið að hjálpa sér.