Fara í efni

HLAUPUM DRENGIR, HLAUPUM

Tveir gegndu starfi sendiherra í Kaupmannahöfn fyrir, í og eftir mikla útrás íslenskra viðskiptamanna til Danmerkur frá 2002 til 2008. Þetta eru þeir Þorsteinn Pálsson, pistlahöfundur Fréttablaðins, sem lét af störfum árið 2005, þegar eftirmaðurinn mætti á Norður-Atlantshafsbryggju. Sá er Svavar Gestsson, fyrrum aðalsamningamaður Íslands í Ice-save deilunni. Hann lét svo af störfum í desember síðast liðnum. Svavar þurfti sem sé að taka á móti Viðskiptaráði Íslands, forstjórum bankanna, fulltrúm fjármálaráðuneytis og setja upp fyrir þessa aðila fundi, þegar þessi kransakökutoppur íslenska kaptalísmans tók að sér að ljúga Dani fulla um íslenska efnahagsundrið.

Ég heyrði þessa sendiherra krúnka saman eins og turtildúfur í útsetningu Sigurjóns Egilssonar á Sprengisandi á Bylgjunni. Þættinum lauk á massífri gagnrýni á forsetann í ætt við það sem Svavar Gestsson hefur skrifað og sagt undanfarið. Á Þorsteini Pálssyni var að heyra að Ólafur hefði eyðilagt forsetaembættið að dómi hans. Ólafur er allt, allt öðru vísi forseti en Kristján og Vigdís, sagði Svavar. Saman möluðu sendiherrarnir fyrrverandi eins og kettir yfir rjómaskál í gagnrýni sinni á Ólaf. Undirliggjandi var gagnrýni á þjónkun hans við þá sem tæmdu bankana.

Þetta er flóknara "de herrer ambassadörer". Og það var ekki bara Ólafur Ragnar sem spilaði með þótt nú séu menn á harðahlaupum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið undan þætti sínum í lyginni. Það ættu þeir að vita sem skipulögðu fundi útrásarvíkinganna í Kaupmannahöf. Þeir sem tóku símann til að halda fram hagsmunum útrásarvíkinga gagnvart fjölmiðlum í Kaupmannahöfn og í Árósum.

Ég man eftir því af því þá bjó ég ytra þegar Svavar sendiherra opnaði ERRÓ sýningu um það leyti að íslenska bankakerfið var byrjað vakla hið fyrra sinni. Hann notaði tækifærið til að segja frá því að Íslendingar væru einstaklega duglegir, fólk sem var að fjárfesta sparnaðinn að heiman, menn væru að ávaxta lífeyrissparnaðinn úr sterkasta lífeyriskerfi í heimi. Sendiherrann nýtti sér athyglina sem ERRÓ skóp til að fjalla um gagnrýni á íslenska kaupahéðna í dönskum blöðum, í Viðskiptablaðinu danska og Gamla Mogga."... áður en langt um líður verður íslenskum fjármunum eins vel tekið í Danmörku og altaristöflunni úr Múlakirkju eða silfurkaleiknum úr Svalbarða eða drykkjarhornunum forkunnarfögru en allt þetta hefur um áratugi og aldir verið í danska þjóðminjasafninu. Aldrei hef ég séð Berlingske kvarta undan því." Það vantaði bara Thorvaldsen til að undirstrika yfirburði íslenska kynstofnsins. Hér talaði ekki forseti Íslands heldur sendiherra lýðveldisins, Svavar, sem nú gengur harðast fram í gagnrýni sinni á forseta. Og sendiherra skýrði efasemdir Dana með því að þeir væru öfundsjúkir út í Íslendinga: "Svo má kannski bæta því við, eins og til skýringar, að fjárfesting íslenskra aðila er alltaf til orðin í góðri samvinnu við Dani; dönsk fyrirtæki og banka. Gagnrýni á umsvif Íslendinga hér er því í raun gagnrýni á danska samstarfsaðila, banka og sölufyrirtæki. Þegar Íslendingar hófu umsvif í Svíþjóð fyrir átta árum eða svo bar fyrst á ónotum í garð Kaupþings, það breyttist fljótlega enda kom í ljós að ónotin stöfuðu frá þeim sem höfðu orðið undir í samkeppninni við Íslendingana. Þannig gerast kaupin oft á eyri öfundarinnar." (Undirstrikun mín ÓML) Hér talar ekki forseti Íslands heldur sendiherra íslenska lýðveldisins, Svavar Gestsson. í janúar 2006.

Og hvernig var svo Ísland presenterað á sendiráðsvef Svavars? Samnefnarinn er ekki langt frá ÍSLAND, BEST Í HEIMI. "Island mindst korrupte land i verden" var ein fyrirsögnin hjá sendiráðinu. Síðar sama ár er sagt frá því á vefsíðu sendiráðhsins að Straumur-Burðarás hafi opnað starfsstöð í Kaupmannahöfn. Og svo segir sendiráðið hróðugt: "Islands tidligere præsident, fru Vigdís Finnbogadóttir, kastede glans over begivenheden med sin tilstedeværelse og ses her sammen med Bjorgolfur Thor Bjorgolfsson, som har kontrollerende aktieposter i Straumur-Burdaras og Fridrik Johannsson, CEO af Straumur Burdaras." Já, Ólafur er allt, allt öðru vísi en Vigdís sögðu þeir í morgun sendiherrarnir sammála. Mikið hefði verið gaman ef Sigurjón Egilsson hefði haldið de herrer við þeirra þátt í goðsagnaframleiðslu íslenska góðærisins í stað þess að gefa þeim kost á að hella úr skálum reiði sinnar yfir Ólaf Ragnar Grímsson, forseta.

Þegar Yngvi Örn Kristinsson, Baugur og fleiri menn sem selja vildu Dönum allt um ágæti "Den islandske forretningsmodell" rúnnaði sendiherrann Svavar "upplýsingafundinn" af með þessum orðum: ""Det var et særdeles vellykket arrangement ...Det er meget vigtigt for os at være i dialog med de mennesker som arbejder i den danske finansverden. Det giver os mulighed til at kommunikere direkte med dem og oplyse dem om hvordan tingene for alvor hænger sammen. Det er især vigtigt set i lyset af den journalistik som praktiseres af enkelte aviser i Danmark".

Hlaupum drengir, hlaupum, frá fortíð okkar.
Ólína