Fara í efni

HLUTVERKASKIPTI

Mgginn - sunnudags
Mgginn - sunnudags

Birtist í Sunnudagsmogganum 09.06.12.
Í Sovétríkjunum gömlu nutu svokallaðir hugmyndafræðingar mikils álits. Aðalhugmyndafræðingur Kommúnistaflokksins hafði lykilstöðu í kerfinu. Hann sagði til um hvaða hugsun og hvaða stefna væri í samræmi við marxíska kenningu og því rétt. Það sama átti að sjálfsögðu við um hið gagnstæða, það sem ekki stæðist fræðilega skoðun samkvæmt kenningunni og  ætti því að banna.   Í tungumálinu eimir eftir af þessari hugsun, talað er um hugmyndafræði  í stjórnmálum - ekki sem fræðin um hugmyndir - heldur sem hina vísindalega réttu pólitísku formúlu.
Þar til fyrir þrjátíu til fjörutíu árum voru vinstri menn almennt hallir undir að hugsa samkvæmt hugmyndafræði. Og því lengra sem þeir stóðu til vinstri því meir vildu þeir hugsa málin út frá slíkri nálgun. Þeir voru jú að skapa nýtt samfélag sem lyti öðrum lögmálum en nú væru við lýði; samfélag sem færði okkur nýjar lausnir á nýjum forsendum.

Þegar hægri menn gagnrýndu sósíalismann og bentu á það sem úrskeiðis hafði farið í ríkjum sem kenndu sig við sósíalisma, svöruðu vinstri menn gjarnan að bragði: Við erum að skapa nýjan heim. Það tekur tíma. Dæmið ekki verk okkar fyrr en hin nýju lögmál hafa sýnt sig í verki.

Ég held að þetta sé nokkuð raunsönn lýsing á pólitískri umræðu frá öndverðri tuttugustu öldinni og fram undir lok áttunda áratugarins.

En þá verður líka breyting á. Til sögunnar koma Hayek og Freedman, Thatcher og Reagan og fleiri sem taka að boða nýja trú, frjálshyggjuna  - gefa línuna á hugmyndafræðilegum forsendum hennar. Merkileg breyting verður í Bretlandi þessu tengt,  þar sem löng hefð hafði skapast fyrir svokölluðum Hvítbókum - White Papers. Málsmetandi einstaklingar, sem kallaðir höfðu verið saman vegna mismunandi sjónarhorna sem þeir höfðu á tilveruna, sömdu þessar Hvítbækur, sem ætlaðar voru stjórnvöldum sem leiðarvísir við stefnumótun. Margaret Thatcher, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, féll frá þessu fyrirkomulagi. Hún setti hins vegar á fót aðgerðateymi til að koma fyrirframgefnum  lausnum  í  framkvæmd. Og það voru  ð sjálfsögðu lausnir  í anda hinnar „réttu" hugmyndafræði.

Nánast alls staðar í hinum iðnvædda heimi varð hægri vængur stjórnmálanna nú ídeólógískur. Hann trúði á lögmál hins frjálsa markaðar og hinnar Huldu handar, sem frumkvöðlinum Adam Smith hafði orðið tíðrætt um í höfuðriti sínu um Auðlegð þjóðanna. Hin Hulda hönd markaðarins myndi slétta út allar misfellur í markaðskerfinu vegna þess að markaðurinn byggi yfir innri rökvísi sem leiðrétti sérhverja kerfisvillu sjálfur. Markaðurinn væri óskeikull, blessun fyrir samfélagið og mannkynið allt.

Hinni nýju hugmyndafræði fylgdi ofurtrú á allt það sem tengdist markaði. Var nú hafist handa að framkvæma í anda þessarar kreddu. Hún var að sönnu ekki ný af nálinni. Segja má að hún hafi verið enduruppgötvuð. Friedrich Hayek benti  á það í bók sinni Leiðinni til ánauðar, sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson þýddi, að menn hefðu einfaldlega villst af leið og illu heilli hætt að trúa á lögmálið. Nú gilti að taka trúna á nýjan leik. Og það var eins og við manninn mælt, að þegar skiptbrot stefnunnar varð lýðum ljóst; að framkvæmdin var nánast hvergi  í samræmi við væntingar, þá svöruðu hinir pólitísku trúmenn: Við erum að skapa nýjan heim. Það tekur tíma, en dæmið ekki verk okkar fyrr en lögmálin hafa sannað sig í verki.
Nú voru það vinstri sinnarnir sem tekið höfðu við hlutverki hægri manna frá fyrri tíð. Þeir voru orðnir hallir undir reynsluvísindin á hinum pólitíska vettvangi; vildu sjá kosti og galla og varast hugmyndafræðilega leiðsögn sem ekki skilaði árangri og ekki  byggði á því sem Íslendingar hafa löngum kallað heilbrigða skynsemi.

Svona tekur heimurinn breytingum.