Fara í efni

Hnöttótt eftir allt saman? Össur boðar róttæka endurskoðun

Samfylkingin stendur í ströngu. Innan hennar á sér stað frjó og fordómalaus málefnavinna sem á sér lítil takmörk. Allir muna eftir Evrópuumræðunni sem var til lykta leidd með fyrirfram gefinni niðurstöðu þess efnis að Íslendingar ættu að ganga í ESB - og helst ekki seinna en í gær.
Og nú er að hefjast opin og hressileg málefnavinna um einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar til þess að koma böndum á það sjúklega átvagl sem heilbrigðiskerfið er að dómi samfylkingarmanna. Hér verður að sjálfsögðu um algerar frumrannsóknir að ræða á vegum fylkingarinnar enda ekkert mark takandi á reynslu annarra þjóða í þessum efnum. Já, það er sannarlega ekki ónýtt að til sé hér á landi stjórnmálaflokkur sem stundar markvissa málefnavinnu af þessu tagi og ekki er verra þegar niðurstaðan liggur nánast í loftinu, ef svo má að orði komast.
Annað sem Samfylkingin setti á oddinn á landsfundinum var að fara nú þegar í markvissa málefnavinnu um það hvort jörðin sé flöt. Af þessu tilefni sagði formaðurinn Össur Skarphéðinsson í opnunarræðu sinni að það væri orðið löngu tímabært að taka þann “róttæka slag”. “Ég hef lengi haft ákveðnar efasemdir um að jörðin sé flöt”, sagði hann. “Ágætu félagar, ég spyr ykkur, er ekki kominn tími til að skoða málin upp á nýtt? Er ekki kominn tími til að velta því alvarlega fyrir sér, kæru félagar, hvort jörðin okkar sé jafnvel hnöttótt, svo ólíklegt sem það kann nú að virðast?” Góður rómur var gerður að máli formannsins og ætlaði lófaklappinu seint að linna.
Já, Össur Skarphéðinsson og flokkur hans á hrós skilið. Ég var, eins og reyndar þorri þjóðarinnar, orðinn hundleiður á þeirri andlegu stöðnun og lognmollu sem ríkt hefur í íslenskum stjórnmálum um árabil. Með tilkomu Samfylkingarinnar blása nú loksins ferskir vindar um íslenskt samfélag og í ranni hennar þrífst og dafnar hugmyndasmiðja á heimsmælikvarða. Þessu öllu ber að fagna af heilum hug og óska ég íslenskum jafnaðarmönnum innilega til hamingju með fræðileg vinnubrögð og ómetanlegar frumrannsóknir í málefnavinnunni á komandi misserum og árum.
Þjóðólfur