Fara í efni

HOLDGERVINGUR STJÓRNARSTEFNUNNAR Í BÆTTUM LÍFSKJÖRUM OG STÓRBÆTTRI DREIFINGU LANDSINS GÆÐA

Undanfarnar vikur hef ég unnið hörðum höndum við að reikna út laun ríkasta manns Íslands. Ekki hefur það reynst neitt áhlaupaverk, reikningskúnstin mér enda ekki í blóð borin og núllin óteljandi mörg í peningafjalli viðkomandi einstaklings. Minnir talningin á núllunum mig einna helst á þá gömlu daga þegar ég sem ódæll drengur var rekinn í kojuna og því næst skipað að loka augunum og látinn telja ímyndaðar kindur þar til ég lognaðist út af, bugaður af þreytu.

En niðurstaðan er þessi: Verðmæti eignasafns Björgólfs Thors Björgólfssonar sem hrannast hefur upp á síðastliðnum 15 árum nemur 83 milljörðum íslenskra króna ef marka má úttekt hins virta ameríska tímarits, Forbes. Er þar væntanlega gengið út frá hreinni eign og hefur þá Björgólfur borið úr býtum að meðaltali röskar 15 milljónir króna á degi hverjum frá um 1990 og allt til 2005. Verða það að teljast dágóð verkalaun og það þótt maðurinn hafi unnið 24 klst. á sólarhring, sem ég efast ekki um.Og svo allrar sanngirni sé gætt er vert að undirstrika að frá þessum daglaunum hefur verið dregin öll almenn framfærsla og tilfallandi rekstrargjöld.

En af hvaða erfiði hefur þessi einstaklingur þénað svona vel? Nú þekki ég ekki gjörla hvað hann hefur haft fyrir stafni frá 1990 en þó er mér kunnugt um að hann hefur komist yfir nokkur ríkisfyrirtæki, bæði hérlendis og erlendis, á umliðnum árum. Getur verið að útsölur undanfarinna ára og jafnvel hreinar gjafir á eignum almennings séu svona ábatasamar? Áfergja athafnaskálda landsins í kringum sýningarbás ríkisstjórnarinnar í Þjóðmenningarhúsinu þar sem Landssíma Íslands hefur nú verið stillt upp til “sölu” gefur vísbendingar þar um. Ekkert skal þó fullyrt um þessa tengingu að sinni en hitt er víst að Björgólfur Thor Björgólfsson er skýrt dæmi um hversu vel ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur tekist til við að hrinda í framkvæmd stefnu sinni um sanngjarna dreifingu hinna efnahagslegu gæða. Allur samanburður, hvort svo sem gægst er ofan í veski öryrkjans, gömlu konunnar, atvinnuleysingjans, almenna launamannsins og jafnvel háttvirts forsætisráðherra, kemur vægast sagt þægilega á óvart. Björgólfur hefur þénað að meðaltali 5533 milljónir króna á ári í hreina eign síðustu 15 árin. Sem sagt, örlítið meira en við hin - en auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að allir sitji við sama borð. Þvílíkur barnaskapur, útópíu og sósíalistarugl og vitleysa tíðkast ekki einu sinni í himnaríki. Og þetta veit ríkisstjórnin mætavel. Þar, rétt eins og hér, eru á vappi velmetnir einstaklingar sem eru ígildi þúsunda manna þegar tekju- og eignahliðin er annars vegar.
Þjóðólfur