Fara í efni

HÓPREFSING


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 07/08.05.22.
Þegar harðast var deilt um Icesave og breska stjórnin hafði í hótunum við hryðjuverkríkið Ísland minnist ég þess að hafa hitt breska ferðamenn sem komu hingað til lands. Kváðust þeir hafa óttast að verða fyrir aðkasti á Íslandi vegna þjóðernis síns.
Sér til undrunar og hugarléttis hefðu þeir aldrei fundið fyrir vott af andúð. Ég sagði að Íslendingar gerðu sér grein fyrir óábyrgu framferði landa sinna í fjármálageiranum og skömmuðust sín fyrir vikið. Í öðru lagi væri litið svo á að stjórnvöldin bresku væru eitt, breskur almenningur annað. Þess vegna væri engin ástæða til að bera kala til bresku þjóðarinnar þótt menn reiddust framferði bresku stjórnarinnar.

Icesave og innrás Rússa í Úkraínu eru að sjáflsögðu á engan hátt til samanburðar að öðru leyti en til að velta vöngum yfir sakfellingu þjóða. Þar hlýtur stjórnarfar að skipta máli, svigrúm almennings til að hafa áhrif á gjörðir valdhafa. Flestum ber saman um að það svigrúm sé ekki mikið í Rússlandi. Engu að síður verður heimurinn sem aldrei fyrr vitni að sakfellingu og í kjölfarið refsingu þjóðar, nefnilega hóprefsingu rússnesku þjóðarinnar fyrir innrás Pútínstjórnarinnar í Úkraínu.
Víðs vegar í Evrópu berast fréttir af því að rússneskum ferðamönnum sé úthýst af hótelum, listviðburðum rússneskra listamanna aflýst í Bandaríkjunum og Evrópu, jafnvel þótt listamennirnir hafi fordæmt innrásina, þeirra glæpur er þjóðernið. Ekki nóg með það, tónleikum þar sem tónverk eftir rússnesk tónskáld, löngu liðin, eru á dgskrá, er aflýst eða efnisskránni breytt. Þannig aflýsti sinfóníuhljómsveitin í Cardiff í Wales fyrirhuguðum hljómleikum þar sem tónlist eftir Tsjækovsky var á dagskrá. Skýrinign var sú að óviðeigandi þætti að halda tónleikana. Tsjækovsky fæddist árið 1840 og dó 1893. En hann var náttúrlega Rússi. Það er þjóðernið sem veldur brennimerkingu og útskúfun og gildir einu hvort það er Bolshoj ballettinn, tónlistarmenn, íþróttamenn eða aðrir. Guardian segir frá því að Rússum hafi verið meinað að taka þátt í Söngvakeppni Evrópustöðva m.a. „að kröfu Íslands, Finnlands, Noregs og Hollands.“ Evrópusamband Útvarpsstöðva hefði tekið undir og sagt að þátttaka Rússa „gæti varpað rýrð á keppnina.“

Þá vaknar spurningin hver tilgangurinn sé. Að sýna andstyggð á gjörðum rússneska ríkisins með því að niðurlægja rússneska þegna? Að vonast til að þrýstingur af þessu tagi snúi Rússum til andófs gegn  eigin stjórnvöldum? Að senda þau skilaboð að brottrekstur Rússa úr Evrópuráðinu, nefndum Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðastofnunum sé lexía til að læra af?
Í framhaldinu má spyrja hvort þetta sé ef til vill baráttuaðferð framtíðarinnar. Í stað þess að beita drápsvopnum verði beitt viðskiptaþvingunum og þrýstingi af þessu tagi, útilokun frá menningarsamskiptum, íþrþóttaviðburðum auk þess að láta hinn almenna mann finna fyrir illgjörðum eigin stjórnavalda.
Ættum við að svara Ísrael með þessum hætti vegna ofbeldis á hendur Palestínumönnum, Tyrkjum vegna mannréttindabrota á hendur Kúrdum, Bandaríkjamönnum vegna Guantanamó og sitthvers annars, Kínverjum vegna Tíbet, Saúdí Arabíu vegna Jemen og áfram mætti lengi telja. Listinn yrði langur og myndi fyrirsjáanlega fækka í alþjóðanefndum og stofnunum ef við vildum vera sjálfum okkur samkvæm.
Þetta er engu að síður sjónarmið verðugt skoðunar, ekki síst ef þetta væri valkosturinn við vopnavaldið.
En svo er ekki. Menn vilja hvort tveggja vopnin og hóprefsinguna.
Sjálfum finnst mér eitt að refsa ríki, annað að refsa þjóð, láta fólk gjalda þjóðernis síns. Þegar einræðisherrar lenda í vanda reyna þeir iðulega að styrkja öfgarnar á eigin væng, höfða til stolts og hræðslu. Það er banvænn kokteill. Það hefur verið farið illa með okkur, sagði Hitler eftir Versalasamningana og þótt hann næði ekki meirihluta Þjóðverja á sitt band náði hann að skapa bakland sem dugði.
Í annan stað má spyrja hvort hyggilegt sé að vísa ríki sem gerist alvarlega brotlegt, eins og Rússland hefur gerst, úr stofnunum á borð við Evrópuráðið sem þegar allt kemur til alls var skapað sem vettvangur almennings til að taka á málum sem þykja ámælisverð heima fyrir. Með öðrum orðum: Evrópuráðinu var ætlað að vera til fyrir Pússy Riot, ekki Pútin.
Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hafa nú slitið vinasambandi við Moskvu. En er slíkt samband ekki til að efla samskipti almennings í borgunum á sviði menningar og lista og skapa grundvöll fyrir samræðu? Má ekki ætla að samræðan sé líklegri til langtíma árangurs en vináttuslitin?

Þetta eru stórmál sem við hljótum að þurfa að ræða en láta ekki ráðamenn fara sínu fram í okkar umboði, en umboðslaust sem gerist ef engin almenn umræða á sér stað.

Það hefur djúpstæð áhrif á fólk að finna fyrir útskúfun og óvild vegna kynþáttar, trúarbragða eða þjóðernis. Slíkt gleymist seint. Rússneskt fólk hefur sagt mér hve illa því líði vegna þess hvernig komið er fram við það og það látið finna að allt rússneskt sé af hinu illa. Og allt vindur þetta upp á sig, óvildin stigmagnast, fréttir berast að búað sé á hljómleikum hafi gleymst að taka rússneskt lag af dagskránni. Og ekki sleppa ómálga dýrin. Alþjóðakattsambandið hefur bannað að rússneskir kettir taki þátt í keppnum á vegum þess. Og Garðyrkjufélag Íslands tekur sérstaklega fram að rússneska yrkið af kartöflum til sölu sé ræktað á Íslandi. Alls ekki í Rússlandi. 

Það sem síðan er umhugsunarvert er að réttlæting þeirra sem taka þátt í útskúfunarbaráttunni er að berjast þurfi gegn þjóðernishyggju í Kreml.
En hvað skal þá segja um framangreind viðbrögð, þegar allt skal fordæmt og útskúfað á grundvelli þjóðernis, allt sem rússneskt er?