Hræddir og hrokafullir ráðamenn
Sæll Ögmundur.
Stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, skýtur nú föstum skotum á alla þá sem eru á móti Kárahnjúkavirkjun og raðar inn sjálfsmörkum í beinni útsendingu. Hann ber vísindamenn þungum sökum, segir þá hafa fórnað starfsheiðri sínum, af því að þeir segja ekki já og amen við öllu sem frá Landsvirkjun kemur. Þá segir hann að náttúruverndarsamtök gangi gegn lýðræðinu með því að berjast gegn því sem þegar hefur verið samþykkt á Alþingi. Mér finnst framkoma Jóhannesar með endemum og minna einna helst á taugaveiklaðan og hrokafullan einræðisherra. Eða hvað sýnist þér um málflutning stjórnarformannsins og skilning hans á lýðræðishugtakinu?
Reynir Ragnarsson
Sæll Reynir.
Verst við málflutning Jóhannesar Geirs stjórnarformanns Landsvirkjunar er hve ómálefnalegur hann er. Hann beitir gamalkunnri aðferð óprúttinna manna sem hafa vafasaman málstað að verja. Þeir treysta sér ekki í málefnalega umræðu en reyna að sverta andstæðing sinn með dylgjum og svívirðingum. Jóhannes Geir hefur valið þann kost að reyna að ófrægja nokkra valinkunna og heiðarlega vísindamenn. Í umræðu á Alþingi í gær bætti utanríkisráðherra um betur.
Í málflutningi sínum jafnaði hann mótmælum gegn náttúruspjöllum á hálendinu við skemmdarverk! Ráðherrann sagði á þá leið að búið væri að ákveða að virkja. Nú ætti fólk að hætta öllu andófi. Þetta er að vísu rangt hjá Halldóri Ásgrímssyni. Það er komin heimild fyrir framkvæmdum við Kárahnjúka en því hefur margítrekað verið lofað að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir fyrr en allir samningar væru endanlega frágengnir um orkuverð og alla verkþætti.
Í öðru lagi var á ráðherranum að skilja að mótmælin væru óþjóðholl Íslendingum; á meðal þeirra samtaka sem mótmæltu Kárahnjúkavirkjun væru náttúruverndarsinnar sem hefðu mótmælt þorskveiðum í Norður-Atlantshafi! Þyrftu menn frekari vitnanna við? Þannig hljóta allir þeir sem eru á móti þorski að vera á móti Íslendingum.
Þannig er reynt er að spyrða allt andóf hér innanlands gegn stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar við samtök sem margir Íslendingar eru líklegir til að tengja við öfgar. En ég spyr, er óleyfilegt að gagnrýna þorskveiðar? Vilja menn ef til vill koma í veg fyrir alla gagnrýni? Inn á hvaða braut er verið að halda? Verður næst farið að skilgreina alla þá sem leyfa sér að hafa í frammi gagnrýni við stjórnvöld óþjóðholla og óvini ríkisins? Þetta eru aðferðir sem tíðkast í ríkjum sem eiga ekkert skylt við lýðræði. Slíku stjórnarfari hafna Íslendingar.
Ofstækið í ráðamönnum þjóðarinnar ber ekki vott um styrk heldur mikinn veikleika. Nú skulum við bara vona að þessir hræddu og hrokafullu einstaklingar nái það mikilli sálarró að þeir treysti sér til þess að rökræða við andstæðinga og hætti að vega að þeim úr fjarlægð eins og þeir hafa gert. Hitt er svo annað mál að upphlaupin hjá þeim enda iðulega með sjálfsmarki. En einnig þau koma okkur í koll. Þetta eru jú okkar eignir og okkar land sem þeim hefur verið treyst fyrir.
Kveðja, Ögmundur