Fara í efni

HROSSAKAUP Á ALÞINGI

Hrossakaup 2015
Hrossakaup 2015

Augljós hrossakaup eiga sér nú stað á Alþingi. Utanríkisráðherra keyrir fram af miklu kappi umdeilt frumvarp um Þróunarsamvinnustofnun. Sjálfstæðisflokkurinn er frumvarpinu andvígur og hefur hann sterk rök fyrir andstöðu sinni, sem hann deilir með allri stjórnarandstöðunni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar ákveðið að láta utanríkisráðherrann fá sínu framgengt í skiptum fyrir stuðning við frumvarp sem Sjálfstæðisflokknum er hugleikið, en það er frumvarp um Opinber fjármál.

Frumvarp um Opinber fjármál er upphaflega runnið undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er markaðshyggjumönnum þar innanborðs mjög að skapi. Þetta frumvarp er hins vegar ekki óskabarn Framsóknarflokksins nema síður sé. Sennilega vegna þess að gömul samvinnutaug er einhvers staðar enn að verki í flokknum.

Sjálfum finnst mér skiljanlegt að stjórnmálaflokkur á borð við Sjálfstæðisflokkinn, sem vill láta reka ríkissjóð samkvæmt sömu hugsun og fyrirtæki, sé áfram um málið. Þau okkar sem vilja viðhalda hugsuninni um samfélag erum svo aftur á öndverðum meiði.

Nú hefur komið á daginn að ekki reynist meira líf í samvinnutaug Framsóknar en svo, að hún er tilbúin að hverfa inn í markaðsheim Sjálfstæðisflokksins í skiptum fyrir fyrrnefndan flokksglaðning. Hvað Sjálfstæðisflokkinn áhrærir þá hefur honum aldrei reynst erfitt að víkja góðri dómgreind til hliðar ef peningalegir eða flokkslegir hagsmunir af einhverju tagi eru annars vegar.

Sennilega er líkt á komið með stjórnarflokkunum að þessu leyti og eru hrossakaupin um Þróunarsamvinnustofnun og Opinber fjármál ágætt dæmi þar um.