HRYÐJUVERKARÍKI RÁÐA RÁÐUM SÍNUM
Miðað við aðstæður er góðs viti að stórveldin, Bandaríkin og Rússland, koma saman ásamt sérlegum sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna, að tefla sína valdaskák í Sýrlandi. Þessi ríki eiga það sameiginlegt að segjast berjast gegn hryðjuverkum en eru í reynd sjálf hryðjuverkaríki.
Fregnir frá Sýrlandi herma að árásir Rússa á andstæðinga Assads séu illvígar með afbrigðum, árásir á sjúkrahús og aðrar viðkvæmar stöðvar. Bandarikjamenn eru sagðir ekki hótinu betri í árásum sínum og hefur Bandaríkjastjórn leikið tveim skjöldum í borgarastríðinu í Sýrlandi frá því það hófst að ógleymdum drónaárásum í Jemen, Afganistan og víðar. Það veldur ónotum að heyra forsvarsmenn Bandaríkjanna og Rússlands tala um baráttu sína gegn hryðjuverkum án minnsta votts um sjálfsgagnrýni.
Vandi Sameinuðu þjóðannar er að örlög þjóða sem lenda í innbyrðis átökum eru oftar en ekki í höndum stórveldanna. Þau eru kunn af því að hirða lítið um mannréttindi og lýðræðislegan vilja fólks, en þeim mun meira um eigin efnahagslega og hernaðarlega hagsmuni.
Augljóst má heita hver niðurstaðan verður: Assad verður settur frá völdum (einsog Rússar hafa áður boðið) en hagsmunir Rússa eftir sem áður tryggðir í landinu. Sömu kröfu munu Bandaríkjamenn gera.
Þetta er ljótur veruleiki en veruleiki engu að síður og minnir á mikilvægi þess að breyta áherslum hjá Sameinuðu þjóðunum á þann vega að dregið verði úr vægi Öryggisráðsins og þar með stórveldanna og almennari sjónarmið, óháð stórveldahagsmunum, verði meira ráðandi.
Þetta er ekki auðvelt viðfangsefni. Örlög Þjóðabandalagsins á millistríðsárunum bera því vott, sbr. umfjöölun mína á ráðstefnu hjá Alþjóðadómstólnum í Haag fyrr á árinu en þar fjallaði ég um þetta efni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/mannrettindi-til-umraedu-i-althjodadomstolnum-i-haag
En nánast allt er til þess vinnandi nú að blóðbaðið og villimennskan í Sýrlandi verði stöðvuð þótt illt sé til þess að hugsa að það verði á forsendum hryðjuverkaríkja.