HUGBÚNAÐUR OG HEILABÚNAÐUR
Mér þóttu það góðar fréttir þegar menntamálaráðherra kynnti verkáætlun um máltækni fyrir íslensku á komandi árum. Fram kom að áætlunin hefði verið í smíðum frá haustinu 2016 og hefur því notið stuðnings tveggja menntamálaráðherra, en vinna hins vegar hvílt á herðum færustu íslenskumanna og kunnáttufólks í tækni og samskiptaferlum. Hugsunin er sú að nota megi íslensku í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims.
Þarna sýna íslensk stjórnvöld framsýni og vilja til að taka á vanda sem er mjög raunverulegur. Nýlega heyrði ég tvo íslenska drengi tala saman - á ensku. Það var þeim fullkomlega áreynslulaust enda aldir upp í enskumælandi tölvuheimi. En um leið og enskan var drengjunum ungu áreynslulaus þá heyrðist mér þeim vefjast tunga um tönn þegar þeir ætluðu að bregða sér yfir á íslenskuna.
Er þessi þróun ef til vill í góðu lagi? Það finnst mér ekki og hef ég stundum tínt til röksemdirnar á þessum vettvangi. Og sem betur fer er ég ekki einn um þá afstöðu. Nú sýna stjórnvöldin vilja sinn í verki, og áður gáfu Samtök atvinnulífsins fyrirheit um átak til varnar og sóknar fyrir íslenska tungu. Útvarps- og sjónvarpsfjölmiðlar sýna sumir lofsvert framtak hvað þetta varðar og á RÚV sérstaklega lof skilið.
En eitt vantar og það er að stimpla þessi viðhorf inn í heilaforrit atvinnulífsins. Þrátt fyrir góðan ásetning SA og hins galvaska framkvæmdastjóra þar á bæ, þá eru liðsmennirnir staddir einhvers staðar úti í móa eða mýri. Það var einmitt í Vatnsmýrinni í Reykjavík sem Flugfélag Íslands hélt til. Það er nú liðin tíð. Í stað þess er komið eitthvað sem heitir Iceland connect. Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu að þetta væri nauðsynleg nafnbreyting og auk þess bráðsnjöll. Connect væri enska orðið fyrir að tengja og farþegar færu í undirmeðvitundinni að tengja við allt mögulegt, náttúruna og valkosti í ferðaþjónustu. Ég held þeir hafi ekki nefnt íslenska menningu. Enda náttúrlega óþarfi ef við kunnum að connecta á ensku.
Sú var tíðin að kappkostað var að útlendingar sem hingað kæmu til starfa og langdvalar lærðu íslensku. Það tók þá mislangan tíma enda aðstæður mismunandi. En yfirleitt skorti ekki viljann fremur en hjá okkur þegar við leitum út fyrir landsteinana. Þá reynum við að ganga inn í það málumhverfi sem þar er ríkjandi. Og enn er það nú svo þrátt fyrir alla túristana að við viljum flest geta talað íslensku í verslunum og veitingastöðum hér á landi. Við höfum skilning á því að nýaðkominn einstaklingur geti ekki talað málið frá fyrstu stundu. En hann getur fljótlega lært að segja gjörið svo vel og takk. Í Bónus er búið að kenna öllum að segja „poka?" með spurnartón, þegar viðskiptavinurinn gerir upp innkaupin.
Á vönduðum veitingastað í fögru umhverfi við þjóðveginn komst ég að raun um að enginn á staðnum talaði íslensku. Það var afsakanlegt. Verra var að enginn sýndi minnstu tilburði til þess eða löngun.
Niðurstaðan er þessi: þrjú hundruð þúsund manna þjóð ver ekki tungu sína áreynslulaust hversu litrík, skemmtileg, ylhýr og ástkær sem hún kann að vera. Þetta skildu fyrri kynslóðir og var verkefni þeirra þó auðveldara en nú. Sérstaklega vegna þess að margir þeirra sem þá stóðu í fararbroddi eru komnir á heybrókina og óttast að vera kenndir við þjóðlegan útúrboruhátt ef þeir grípa til varna fyrir íslenska tungu og menningu.
En nú á semsagt að taka til hendinni í vélbúnaðinum og ber að fagna því. En eftir stendur að breyta hugarfarinu hjá ýmsum lykilaðilum í atvinnurekstrinum. Þetta gæti þó reynst þrautin þyngri því sennilega er erfiðara að breyta heilabúi í manni en hugbúnaði í vél.