Fara í efni

HUGLEIÐING Í KRÝSUVÍKURKIRKJU

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 19/20.10.24.
«Þetta er einn magnaðasti staður á jörðu» sagði mexíkóskur vinur minn sem kom hingað í heimsókn fyrir rúmu ári. Hann var að lýsa Krýsuvíkurkirkju, litlu svart-tjöru-bornu kirkjunni sem stendur örsmá, ein og yfirgefin, skammt frá Grænavatni sem Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur sýndi öllum erlendum gestum sínum því það væri eitt af náttúruundrum veraldar. Þarna er líka dulúðuga hverasvæðið við Seltún. Og vel að merkja rukkarar hafa ekki enn eyðilagt stemninguna þar með posavélum sínum.

Frá litlu kirkjunni að sjá eru fá mannanna verk sýnileg en nálægur er þó gamli skólinn sem nú hýsir Krýsuvíkursamtökin sem vinna að því að byggja upp á ný fólk sem hefur orðið eiturlyfjum að bráð og þarna er líka Sveinshús, bláa húsið sem var vinnustofa Sveins Björnssonar listmálara og geymir list hans sem rímar vel við magnaða náttúruna. Skammt þar undan er líka stóra fjósið sem aldrei varð fullbúið fyrir stórhuga landbúnað sem hafnfirsku kratarnir vildu koma þar á fót í tíð Emils Jónssonar og félaga. Þetta var á þeim dögum sem bæjarútgerðir blómstruðu í þágu samfélaganna en ekki örfárra auðmanna.

Í þessari magnþrungnu náttúru og miklu sögu stendur hún þarna litla kirkjan. Hún var upphaflega reist árið 1857 og endurreist eftir að hún brann til kaldra kola í byrjun árs 2010. Vinir kirkjunnar ákváðu þá að endurreisa hana og var nýja kirkjan vígð á Hvítasunnudag 2022. Það voru nemendur og kennarar við Iðnskólann í Hafnarfirði sem smíðuðu nýju kirkjuna og hef ég grun um að samhugurinn og velviljinn sem fylgdu þessari völundarsmíð þeirra skili sér á einhvern hátt í lífi allra þeirra sem að verkinu komu.

Það var til happs að í brunanum árið 2010 var altaristaflan sem Sveinn Björnsson málaði - og er öllum eftirminnileg sem hana hafa séð - ekki í kirkjunni þegar hún brann en því miður fuðraði þar upp dýrgripur sem lét lítið yfir sér. Það var gestabók kirkjunnar.

Á árum áður var kirkjan jafnan höfð opin og kom ég þangað nokkrum sinnum. Blaðaði ég þá alltaf í gestabókinni og er mér minnisstætt margt sem þar stóð. Sérstaklega man ég eftir frásögn manns sem mig minnir að hafi verið frá Bandaríkjunum. Hann skrifaði á þá leið að sú stund sem hann hefði átt í þessari litlu kirkju, sem stóð þarna svo lítil og ein en öllum opin, hefði verið sér sem opinberun. Aldrei hefði hann komist nær almættinu en þar. Í huga þessa manns stóð kirkjan vissulega ein en yfirgefin var hún ekki.

Þá er komið að minni hugleiðingu þegar ég heimsótti Krýsuvíkurkirkju. Hún laut að sögunni sem ég hef hér vísað til, stórhuga fólki, miklum listamönnum, hjálp til handa þeim sem hafa orðið eiturlyfjum að bráð, magnþrunginni náttúru, samstilltu átaki til að reisa kirkju upp úr brunarústum.

Nú þegar Íslendingar henda sér út í hinn pólitíska slag með öllu því sem honum tilheyrir, og vissulega vil ég að alvöru barátta verði háð um innviði samfélagsins, um auðlindirnar, um aðkomu að stríði og friði, um misskiptinguna í þjóðfélaginu og heiminum öllum og hvað sé þar til ráða, þá er engu að síður rétt að hugleiða jafnframt það sem við eigum saman, stórfenglega náttúru, magnaða sögu, listaverk sem bera sköpunarkraftinum vitni, og sögu sem kennir hverju samvinna og samstaða getur skilað.

Ekki svo að skilja að ég telji mig hafa náð sérstakri tengingu við almættið í þessari heimsókn minni í Krýsuvíkurkirkju í vikunni.
En ég náði þó að hugleiða þar hve margt gott við eigum saman í íslensku samfélagi.

---------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.