HUGLEIÐINGAR Á FLUGVELLI AÐ LOKINNI TYRKLANDSFERÐ
Nú, þegar ég sit á flugvellinum í Istanbúl í morgunsárið sunnudaginn 16. febrúar og bíð eftir flugi áleiðis heim til Íslands, eru tilfinningar blendnar. Annars vegar er Tyrkland túristans, iðandi mannlíf, fögur nattúra, rík saga og menning – allt sem best má vera. Ég þykist vita að svo sé.
Sá heimur sem ég hef stigið inn í á undanförnum dögum er hins vegar ekki þessi heimur heldur allt annar heimur. Það er heimur fangelsana, skoðanakúgunar, brottreksturs úr starfi, þvingaðra búferlaflutninga og ofbeldis – af hálfu hverra?
Af hálfu “löggæslunnar”!
Ekki svo að sklija að ég hafi heimsótt fangelsi eða farið á stríðshrjáð svæði. Ég hitti hins vegar fórnarlömbin. Ég hefði þurft að komast austur til Diyarbakir, þangað sem förinni var upphaflega heitið – og þangað sem ég áður hef komið í svipuðum erindagjörðum og ég var nú, það er að afla upplýsinga um mannréttindabrot og styðja réttindabaráttu Kúrda – til þess að komast í snertingu við sjálft ofbeldið og skynja ógnina á eigin skinni. Vegna ofsaveðurs austur þar vorum við nauðbeygð til að breyta öllum ferðaáformum.
Fyrri sendinefndir hafa verið heldur fjölmennari en þessi sem aðeins taldi fimm manns. Á endanum vorum við þrjú eftir, auk mín, Marianne Gingell, breskur mannréttindalögmaður og breski fræðimaðurinn og mannréttindakempan Felix John Padel, sem eru á myndinni hér að ofan en hún var tekin fyrir sólarupprás í morgun á Taksim torginu í Istanbúl við brottför okkar þaðan.
Í huga mínum gerast ágengar frásagnir “laugardagsmæðranna” sem sögðu okkur frá baráttu sinni fyrir endurheimt brottnuminna barna sinna, yfirleitt ungra manna, sem ekki hafði spurst til eða á endanum höfðu fundist en þá lífvana lík sem báru merki pyntinga. Mannrán væru að nýju að færast í aukana, sögðu þær, og það sem meira er, við, sem njótum stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar, sætum nú sjálfar vaxandi ofsóknum. “Kannski á að láta á það reyna á okkur hversu langt er hægt að ganga.”
Á þessar konur hefur verið ráðist þegar þær hafa komið saman til friðsamlegra mótmæla og má sjá á sumum þeirra merki ofbeldis lögreglunnar. Sú sem talaði hafði ör í andliti sem minntu á þennan grimma hluta Tyrklands.
“Mest svíður þögn heimsins, ekki bara Evrópu heldur heimsins alls”, sagði talskona mannréttindasamtaka. “Mannréttindadómstóllinn í Strassborg, sem kallar sig svo, neitaði að taka fyrir vel rökstuddar beiðnir okkar um skipulagðar og yfirgripsmiklar ofbeldisárásir og skýlaus mannréttindabrot þegar hernaðarofbeldið innan landamæra Tyrklands reis sem hæst á árunum 2015 til 2017.” Þessar alþjóðastofnanir, hvort sem það væru Sameinuðu þjóðirnar eða aðrar væru þeim gagnlausar með öllu. “Við deyjum alltaf meir og meir innra með okkur hverja þá viku sem tyrkneskt samfélag og heimurinn allur þegir. Með þögninni er ofbeldinu veitt brautargengi, það er “normalíserað”, gert eðlilegur hluti hins daglega lífs. Á þessu ber allur umheimurinn ábyrgð; hann á hlutdeild í ofbeldinu. Sum ríki, alltof mörg, styðja þetta beint með vopnasölu og öðru ámóta, en svo er það pólitíska þögnin. Hún þýðir samþykki!”
Reiðin í garð hins margrómaða “aljóðasamfélags” – stofnanahlið þess, sem keyrir um á bílum af dýrustu gerð, skálar í kampavíni kvölds og morgna og borgar engan skatt – var mikil og hún var blandin sorg og trega. Það skil ég vel.
Langt er síðan ég sjálfur hef farið að finna fyrir þessari reiði innra með mér. Stundum sleppur hún út - reiðin. Hef ég þó ekki setið í fangelsi eða verið sviptur starfi eða ferðafrelsi vegna skoðana minna eins og fleiri en færri viðmælenda okkar í þessari ferð hafa þurft að sæta.
Það minnsta sem við getum gert er að koma reiði fórnarlambanna, undrun þeirra og sorg og ákalli um hjálp á framfæri.
Ég mun reyna að láta mitt ekki eftir liggja.