Fara í efni

Hugmyndafræðina á haugana

Guðmundur Andri Thorsson, prýðilegur penni, fjallar af velvilja um hlutverk jafnaðarmannaflokks í dagblaði í dag. Jafn lipurlega og að mörgu leyti skynsamlega sem GAT kemur hugsun sinni til skila í DV er hann gleyminn á , eða óupplýstur, um hugmyndafræði jafnaðarmannaflokksins sem hann vildi svo gjarnan að kæmist hér til valda. Rétt er það að breytinga er þörf í stjórnarráðinu. Mikilla breytinga. Þar þarf ekki aðeins að skipta um mannskap heldur líka kúrs. Karlinn í brúnni er lúinn orðinn og farinn að láta á sjá og afleiðingar stjórnarstefnunnar fara illa með "þegnana hans". En úr því minnst er á karlinn í brúnni er ekki úr vegi að rifja upp fernt úr safni pólitískrar arfleifðar jafnaðarmannaflokks Jóns Baldvins Hannibalssonar. Jóhanna Sigurðardóttir var knúin til þess af valdakjarna Alþýðuflokksins að markaðsvæða húsnæðislánakerfið árið 1989. Hún réttlætti það fyrir sér með vaxtabótakerfi sem þá átti að vera forsenda markaðsvæðingarinnar. Þegar markaðsvæðingin varð að veruleika voru samherjar Jóhönnu í fjármálaráðuneytinu þegar farnir að skerða vaxtabæturnar sem þeim þótti, sneyddir hugmyndum eða útsjónarsemi, einfaldasta leiðin til að halda aftur af útgjöldum ríkisins. Þrátt fyrir andóf Jóhönnu höfðu haukarnir Jón&Jón sitt fram. Það sem átti að vera forsenda markaðsvæðingar húsnæðislánanna var að engu gert. Samfélagsgerðinni var breytt að eðli til á kostnað almennings. Ábyrgðarmenn jafnaðarmenn. Tveimur árum síðar var mynduð ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kennd við Viðey. Fyrir almenning og velferðarkerfið urðu afleiðingar stjórnarstefnunnar 1991 til 1995, sem brugguð var út í eyjum, ekki ólíkar afleiðingum valdatíma Diðriks frá Minden í Viðey 450 árum fyrr. Þetta var frjálshyggjustjórn og fremstir í flokki gengu jafnaðmenn Jóns&Jóns. Alveg eins og þeir sviku húsnæðislántakendur með breytingum á vaxtabótakerfinu, þá sviku þeir námsmenn. Voru það ekki forystumenn jafnaðarmanna, sem í nafni réttlætis og með skírskotun til þess að þeir hefðu sjálfir engin námslán fengið, sem beittu sér fyrir þeim breytingum á námslánakerfinu sem nú er að sliga þá sem eiga að borga og hefur þess utan hrundið frá námi börnum fátæks fólks? Ef ég man rétt var þetta svo lítið mál í huga formanns jafnaðarmanna, að hann nennti ekki út úr ráðherrabílnum til að ræða þetta við einhvern fréttamanninn, sem talaði við hann um málið gegnum bílglugga. Samfélagsgerðinni var breytt að eðli til á kostnað almennings. Ábyrgðarmenn jafnaðarmenn. Ríkisstjórnin, sem kenna hefði átt við Diðrik frá Minden fremur en Viðey, hófst svo handa við að leggja grunninn að hinni nýju velferð með stórkostlegum niðurskurði ellilífeyris, örorkubóta, barnabóta, barnabótaauka og með mikilli hækkun þjónustugjalda í heilbrigðisþjónustunni. Núvirtur "sparnaður" af þeim ákvörðunum skiptir milljörðum í dag. Það voru heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar Alþýðuflokksins, sem báru hina formlegu ábyrgð, en raunveruleg ábyrgð lá hjá fulltrúum jafnaðarmanna í ríkisfjármálanefnd ríkisstjórnarinnar þeim Jóni&Jóni. Þeir forystumenn jafnaðarmanna, sem gengu í björg íhaldsins í Viðey, bera ábyrgð á fátæktinni sem nú er að koma fram. Afleiðingarnar hafa verið að birtast okkur smám saman síðustu misserin enda tekur það áratug áður en fátæktin vegna samfélagsbreytinga af því tagi sem hér er talað um kemur að fullu fram. Afleiðingarnar fyrir börn fátæks fólks, afleiðingarnar fyrir þá sem hafa orðið fyrir barðinu á ákvörðunum sem teknar voru í ríkisfjármálanefnd fyrir margt löngu eru óafturkræfar. Börnin sem ekki komust í framhalds- eða háskóla, börnin sem ekki komust í tónlist eða ballett sakir fátæktar eru vaxin úr grasi. Einhvers staðar djúpt í hugskoti þeirra leynist óafturkræf tilfinning þess sem settur var til hliðar vegna stefnu Viðeyjarstjórnarinnar. Samfélagsgerðinni var breytt að eðli til á kostnað almennings. Ábyrgðarmenn jafnaðarmennirnir. Það var ekki deilt um þessar eðlisbreytingar í þingflokki sjálfstæðismanna. Þar er drottnað. Það var hins vegar hart deilt um þessar samfélagslegu breytingar í Alþýðuflokknum. Þeir sem ekki vildu breyta þjóðfélaginu sem síðan hefur leitt til fátæktar vegna eðlisbreytinganna sem gerðar voru á því urðu undir. Jóhanna Sigurðardóttir var hrakin úr flokknum og Guðmundur Árni Stefánsson neyddur til að segja af sér. Það er rétt. Langt er um liðið síðan þessir atburðir gerðust. Það sem gerst hefur í velferðarmálum frá 1995 er aðeins tæknileg útfærsla á þeim grundvallarbreytingum á velferðarkerfinu sem sjálfstæðis- og jafnaðarmenn sammæltust um 450 árum eftir að Diðrik frá Minden gerði út bófaflokka sína hérlendis. Það er svo annað mál að framsóknarmenn hafa múrað fólk inn í fátæktina sem hinir sáu um að kalla fram. Þessi hugmyndafræði þarf að fara á haugana. Jafnaðarmenn ættu að hafa áhyggjur af þessari arfleifð sinni - kjósendur gætu farið að rifja upp atburði liðinna tíma, ef þeir sjá fram á að jafnaðarmenn af gerðinni Jón&Jón ættu kost á ráðherrastól.

Ólína