HUGSJÓNIR Í VINNUFÖTUM
Sæll Ögmundur.
Finnur Ingólfsson skóp Bjarna Ármannssyni skilyrði til að ávaxta pund sitt svo að dagblað eitt greindi frá því fyrir ekki löngu síðan að bankastjórinn sem nú er fráfarandi sé góður fyrir rúma sex milljarða króna. Dag hvern í tíu ár hefur bankastjórinn ungi aukið eign sína um tvær milljónir króna ef marka má þessar fréttir og í þessum bransa halda menn ekki hvíldardaginn heilagan. Þetta er samfélagið sem byggt hefur verið hér upp síðast liðin tólf ár. Í samfélagi sem getur gert svona vel við bestu syni sína ætti að vera hægt að gauka einhverju að almúganum. Eða vilja menn halda því fram að sá sem fékk Fiskveiðasjóðinn gamla til að braska með fyrir hönd stjórnvalda hafi verið svo eiturklár í bókhaldi að þetta hafi þurft að verða niðurstaðan? Ég heyrði Jón Sigurðsson, sem varð formaður í Framsóknarflokkun af því óbreyttir flokksmenn treystu sér ekki til að bera uppi Finn Ingólfsson lengur, segja að tillögur Framsóknarflokksins væru hugsjónir í vinnufötum. Það var skýrt með því að afraksturinn af því góða sem flokkurinn eignar sér renni til fólksins í landinu. Mér sýnist þessar hugsjónir löngu komnar úr vinnugallanum. Sennilega voru þær í vinnugallanum utan yfir og þegar honum var lagt kom í ljós að skepna var í kjól og hvítt. Hugsjónir ríkisstjórnarinnar, einkavinavæðingin, að selja gæðingum eignir ríkisins langt undir raunvirði, það verður aldrei þjóðarinnar allrar. Þetta eru hugsjónir fyrir fáa sem logið er inná allan almenning, eða eru þeir margir sem hafa þegið það sem Bjarni Ármannsson hlaut frá þeim í forgjöf sem nú vilja klæðast vinnufötum utan yfir hráa helmingaskiptahugsjónina? Svei, Ögmundur, svei. Ég skora á þig að birta myndina af því þegar Finnur Ingólfsson og Ólafur Ólafsson koma glaðhlakkalegir frá því að kaupa Búnaðarbankann fyrir slikk af eftirmanni Finns í embætti iðnaðar-og viðskiptaráðherra. Það er skylda stjórnarandstöðunnar að hengja þá mynd upp eins víða og mögulegt er. Í þeirri mynd felst óréttlætið og spillingin sem hér hefur komið á, þar eru lifandi komnar “hugsjónir á vinnufötum”.
Kveðjur,
Stefán