HUNDRAÐ ÁRA ÖLDUNGUR FYRIR ÖLDUNGA
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 05/06.11.22.
Um síðustu mánaðamót hélt elliheimilið Grund, eins og það áður hét, upp á aldarafmæli sitt. Nú er ekki lengur talað um elliheimili heldur heitir það dvalar- og hjúkrunarheimili og er nú svo komið að undir regnhlíf Grundar eru rekin þrjú slík heimili í Reykjavik og Hveragerði auk þjónustuíbúða. Umfangið er orðið mikið og starfsmenn samtals um sjö hundruð.
Stórafmæli gefa tilefni til að staldra við og horfa yfir farinn veg. Þegar spegli er brugðið á hundrað ára sögu Grundar er margt fróðlegt og umhugsunarvert að sjá.
Í fyrsta lagi er vert að hugleiða þjóðfélagsaðstæður fyrir eitt hundrað árum. Aldrað og heilsulaust fólk var að öllu leyti hjálparvana væri það eitt á báti. Og þótt ekki væri um einstæðinga að ræða þá var stórfjölskyldan að sundrast á þessum tíma samhliða þéttbýlismyndun og því ekki alltaf hægt að reiða sig á aðstandendur þegar á þurfti að halda. Enn voru margir áratugir í þá heimahjúkrun sem síðar varð.
Í öðru lagi er saga Grundar vitnisburður um hverju hugsjónastarf getur fengið áorkað. Guðfræðingur, trésmíðameistari, skrifstofumaður, verslunarmaður og kaupmaður taka höndum saman um að safna peningum og hefja framkvæmdir til að leysa vanda þurfandi aldraðs fólks. Sumrin 1921 og 1922 var efnt til skemmtana þar sem 541 króna safnaðist. Þótti það gott. En mönnum lá á og var kallað eftir meiri framlögum. Jón Jónsson beykir svaraði ákalli Sigurbjörns Á Gíslasonar, guðfræðings, síðar framkvæmdastjóra Grundar, um fjárframlög á þessa leið: Ef stofnað verður elliheimili í haust skal ég gefa 1500 kr. í stofnsjóðinn og safna fé hér í bænum. Bæjarbúar létu ekki á sér standa og á skömmum tíma söfnuðust á áttunda þúsund krónur, nóg til að um haustið var Grundarheimilið vígt. Þarna hafði samtakamáttur hugsjónafólks látið að sér kveða svo um munaði.
Í þriðja lagi er samstarf Grundarheimilanna og hins opinbera ágætt dæmi um hvernig halda má á málum þannig að vel sé. Stundum hefur verið vísað til reksturs Grundar og síðan Dvalarheimilis aldraðara sjómanna svo og Reykjalundar, sem samtök berklasjúklinga stóðu að, sem vitnisburð um ágæti einkareksturs. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar fram í sótti urðu þessar stofnanir sem sprottnar voru úr jarðvegi hugsjóna og samtaka þeirra sem á þurftu að halda, svo nátengdar annarri almannaþjónustu að varla mátti greina þar skil á milli enda markmið stjórnenda óbreytt frá því sem lagt var upp með, að veita góða þjónustu. Gróðasjónarmið komu þar hvergi nærri. Öll starfskjör starfsmanna, laun og réttindi voru nákvæmlega hin sömu og hjá stofnunum sem alfarið voru á hendi hins opinbera.
En svo verður á þessu breyting því um og upp úr síðustu aldamótum fór þess að gæta að ríkið færi að ganga erinda fjárfesta og þröngva hjúkrunarheimilunum inn í farveg gróðahyggju. Helst skyldi allt boðið út svo draga mætti úr framlögum hins opinbera. Hugmyndin var sú að þeir sem byðu í yrðu að skera niður innandyra til að verða gjaldgengir á uppboðsmarkaði og því harðdrægari við niðurskurðinn þeim mun meira yrði í þeirra hlut.
Hyggilegt? Varla fyrir þann sem verður fyrir niðurskurðarhnífnum.
Sjálfur hafði ég mig talsvert í frammi til að andæfa þessari stefnubreytingu eins og fram kom í ræðu og riti, á meðal annars í þessu blaði í maí árið 2003 þegar ég spurði hvort ekki væri rétt að staldra við þegar fjárfestar segðu án þess að blikna að af “öldruðum væri gífurlegan fjárhagsávinning að hafa”. Og er ég óskaði eftir áliti Ríkisendurskoðunar á því hvort réttmætt væri að hlunnfara stofnanir á borð við Grund þegar einkaaðilar í höndum fjárfesta fengju mun hærra framlag var svarið á þá lund að vissulega ættu öldrunarstofnanir “að jafnaði ekki að sýna hagnað af starfsemi sinni, en að sjálfsögðu á slíkt ekki við um hlutafélög og aðra sambærilega einkaaðila á borð við Öldung hf. Forsvarsmenn félagsins hljóta að gera eðlilegar kröfur um hagnað af starfsemi félagsins.”
Hvers vegna rifja þetta upp? Það er vegna þess að nú er enn á ný stefnt hraðbyri í átt markaðshyggjunnar með sínar “eðlilegu” hagnaðarkröfur.
Aðferðin er alltaf sú sama, skorið er niður við þær stofnanir sem fyrir eru og síðan boðið út. Allir skulu keyrðir inn í þennan farveg. Þess vegna var öldrunarþjónustan á Akureyri boðin út fyrir nokkrum misserum. Og nú nýlega Vífilsstaðir þar sem auglýst var eftir einhverjum til að reka skammtímadeild svo og almenna liknardeild.
Og nú er öld liðin frá stofnun Grundarheimilanna. Óskandi væri að sú öld hefði öll verið fram á við. Það var hún lengi vel og afturhaldið ekki forsvarsfólki Grundar að kenna.
Nú þarf að berjast á ný fyrir bjartri framtíð eins og hugsjónafólkið gerði fyrir hundrað árum.
Grundarfólki sendi ég hamingjuóskir á stórafmælinu og þakkir fyrir mikilvægt framlag til samfélagsins í hundrað ár.