HÚSNÆÐI Á VILDARKJÖRUM EÐA VEGI SEM ENGINN EKUR Á?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25/26.04.20.
Stundum hafa menn staðnæmst við þá staðreynd að gamla lífeyriskerfi opinberra starfsmanna kalli á ríkisframlög áður en yfir lýkur. Að því kemur einmitt að “yfir lýkur” því gamla kerfinu var lokað skömmu fyrir síðustu aldamót og nýtt kerfi búið til, ætlað var að vera sjálfbært, safna í sjóð og hann síðan “ávaxtaður”, rekinn eins og fyrirtæki samkvæmt ýtrustu útþenslukröfu kapítalismans.
Hallinn á gamla kerfinu var ekki með öllu illur – reyndar fjarri því. Það var vegna þess að kerfinu var ætlað að vera í senn sjóðsmyndunarkerfi og gegnumstreymiskerfi. Stjórnvöld hvers tíma leituðu óspart inn í sjóðinn til að fjármagna uppbyggingu samfélagsins og mikilvæg verkefni sem kæmu okkur sameiginlega að gagni á borð við félagslega húsnæðiskerfið – verkamannabústaði.
Það var að mörgu leyti gott kerfi. Á fjörutíu árum gat fólk úr lágtekjuhópum eignast húsnæði með lánum sem báru einnar prósentu vexti ofan á vístölu að vísu. Þetta voru kallaðir niðurgreiddir vextir sem er í sjálfu sér fráleitt hugtak í þessu samhengi. Þetta voru einfaldlega lágir vextir, framlag samfélagsins til að tryggja öllum aðgang að eignarhúsnæði. En eftir því sem markaðshyggjan ruddi sér til rúms í sálarlífi þjóðarinnar hlaut allt frávik frá því sem markaðurinn ákvað að taka mið af því. Ef fjármagnseigendum tókst að kreista upp vextina hlaut allt þar fyrir neðan að heita niðurgreitt. Framlag til húsnæðismála hlaut þá að fá þennan merkimiða.
Svo komu aðrar félagslegar lausnir í húnæðismálum, kaupleiga, leiguíbúðakerfi í samvinnuformi, sem hafði það að markmiði að tryggja fólki öruggt húsnæði á góðum kjörum en þeim skyldi meðal annars náð með því að losna við brask-álagið sem væri fylgifiskur viðskipta á húsnæðismarkaði. Þetta var Búseti og síðan Búmenn og Búfesti sem sóttu fyrirmyndir til Norðurlanda og hafa gefið góða raun.
Í sveitarfélögunum voru síðan rekin félagsleg leiguíbúðakerfi og voru þar, og eru enn, öflugastir Félagsbústaðir í Reykjavik. Á síðustu árum hefur viljað brenna við að þetta kerfi væri vanrækt, greinilega með þá von í brjósti að sveitarfélagið yrði þar með leyst undan fjárhagslegri ábyrgðarskyldu sinni. Svo má ekki verða.
Ég hef fært fyrir því rök að lífeyrissjóðir sem krefjast hámarksávöxtunar geti orðið óþægilega auðsveipir þjónar kapítalismans og jafnvel hans áköfustu stríðsmenn, stöðugt leitandi eftir hámarkshagnaði. Launafólkið sem leggur sparnað sinn í þeirra hendur er jafnframt að fóðra úlf sem vill á markað með starfsemi sem er í þágu þessa sama launafólks að sé í samfélagsrekstri og alls ekki hagnaðarknúin.
Þegar ég sat í ríkisstjórn fyrir fáeinum árum kom til tals að skattleggja lífeyrissjóðsframlag einstaklingsins á leiðinni inn í sjóðinn en ekki út úr honum. Þá var viðkvæðið í ríkisstjórn og hjá mörgum alþingismönnum – illu heilli – að þar með yrðu lífeyrissjóðirnir af peningum til að ávaxta. Þeir væru betur geymdir hjá þeim en ríkinu. Þetta er að mínu mati meira en lítið vafasöm kenning.
Gengi lífeyrissjóðanna er fallvalt eins og efnahagsumgjörð okkar öll og þar með samfélagið. Það er kominn tími til þess að setja alvarleg spurningarmerki við ýmis áður viðtekin viðhorf til útþenslukerfis kapítalismans. Það hljóta þau alla vega að gera sem segjast hafa áhyggjur af ágengni mannskepnunnar í viðkvæmt lífríki Móður jarðar.
Þá er komið að þeirri spurningu sem ég vildi spyrja. Er ekki ráð að dusta rykið af gömlum húsnæðislausnum, láta eitthvað af þessum hundruðum milljarða, sem ríkisvaldið segist ætla að pumpa út í efnahagslífið, renna til húsnæðismála? Endurræsa mætti með myndarlegum hætti Íbúðalánasjóð sem byði upp á lága vexti til almennra húsnæðskaupa, enn lægri vexti til félagslegra úrræða og síðan er þörf á myndarlegu framlagi til Félagsíbúða og systurstofnana hjá sveitarfélögunum. Þar ætti að koma mesta innspýtingin. Þetta mætti fjármagna með fé frá lífeyrissjóðunum sem þá fengju úr ríkissjóði mismuninn á því lánsfjármagni sem þannig rynni úr þeim og því sem ætla mætti að þeir fengju með fé sitt í grösugra beitilandi. Þetta væri millilending yfir í lífeyriskerfi sem væri blanda af sjóðsmyndunarkerfi og gegnumstreymi.
Þetta er varla vitlausari hugmynd en sú að pumpa nú, sem bráðalausn í efnahagskreppu vel að merkja, milljörðum í vegi sem fyrirsjáanlegt er að fáir koma til með að vinna við og verða auk þess túristalausir í nánustu framtíð – alla vega.