HVAÐ ÆTLA ÍSLENDINGAR AÐ KENNA ÚKRAÍNUMÖNNUM UM ESB?
Fyrirsögnin hér að ofan úr Morgunblaðinu er ekki grín heldur bláköld alvara. Íslendingar ætla að leggja sitt af mörkum í að kenna Úkraínumönnum hvernig eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu!
Fá mál hafa farið eins illa með íslensk stjórnmál og umsóknin um aðild að Evrópusambandinu vorið 2009. Þetta þekki ég af eigin reynslu; lét sjálfur um skeið - í aðdraganda aðildarumsóknar - stjórnast af því sem ég taldi vera stjórnkænsku sem aldrei á að gera þegar lýðræðislegir valkostir eru í boði.
Í stað þess að bera það undir þjóðina hvort hún vildi sækja um aðild að ESB; í stað þess að takast á um það í beinni atkvæðagreiðslu hvort við yfirleitt vildum ganga inn í Evrópusambandið þá var umsóknarferlinu hrundið af stað án þess að fyrir lægi þjóðarviljinn um þetta grundvallaratriði.
ESB-sinnar reyndu að slá á alla gagnrýni með blekkingum um að verið væri að semja við Brussel og að þeim samningum afloknum myndi síðan verða kosið um það sem náðst hefði við samningaborð um ívilnanir til Íslendinga. Sjálfum mér til málsbóta skal það sagt að aldrei átti ég aðild að þessum blekkingum, þvert á móti gerði ég allt sem ég gat til að afhjúpa þær. En við ramman reip var að draga, slíkur var þrýstingurinn með stöðugum mútugreiðslum frá Brussel inn í stjórnsýsluna.
Síðan var höfuðið bitið að sf skömminni þegar stjórnarflokkarnir, Samfylking og VG, samþykktu báðir sem einn í lok kjörtímabilsins að ferlinu skildi haldið lifandi á komandi kjörtímabili þótt allir mættu nú sjá að allt tal um samningaviðræður væru sjónarspil eitt – allt snerist um aðlögun að fyrirframgefinni lausn.
Nú spyr ég í fullri alvöru. Hvað ætla Íslendingar að kenna Úkraínumönnum í viðræðum við ESB; hvernig best megi hagnast á ferlinu með styrkveitingum frá Brussel? Hvernig hraðast og markvissast megi verða við kröfum um aðlögun að regluverki ESB? Eða verður Úkraínumönnum sagt að hvergi eigi að hreyfa sig áður en almenningi hafi verið gerð rækileg grein fyrir því hvað það í raun þýddi að undirgangast miðstýrt markaðsregluverk Evrópusambandsins?
Hvert verður framlag Íslands? Þarf ekki að taka umræðu um það á Alþingi?
Ég leyfi mér að spyrja hvort ekki sé rétt að láta Úkraínumenn sjálfa um hituna, almenning þar í landi og síðan þá sem sjálfir eru innvígðir í Evrópusambandið; eða ætla Íslendingar ef til vill að segja frá slæmri reynslu sinni af blekkingum og mútum sem samtvinnuðust umsóknarferlinu?
Um milljónirnar í Úkraíunu tala menn gjarnan sem einsleita hjörð með einsleitan vilja; að allt sé þar í landi einsleitt, á einn veg. Á því skyldu menn vara sig. Ég þykist vita að því fari fjarri að allir Úkraínumenn séu sáttir við hvert stefnir í eignarhaldi á landi og auðlindum og að markaðsvæðing innviða samfélagsins að hætti Evrópusambandsins kunni að verða umdeild þar eins og annars staðar.
Við lifum á öld óheilinda og skilgetins afkvæmis þeirra, siðleysisins.
Í bók minni Rauða þræðinum fjalla ég um Evrópusambandsumsókn Íslendinga á árunum 2009 til 2013. Gæti verið að af henni megi eitthvað læra?
Eftirfarandi eru síður 304 til 315 í Rauða þræðinum þar sem fjallað er um Evrópusambandsumsóknina:
ESB á dagskrá fyrir og eftir kosningar
Frá upphafi mátti ljóst vera að Evrópumálin yrðu erfið. Steingrímur hafði lýst því mjög afdráttarlaust yfir fyrir kosningarnar að ekki kæmi til greina að sækja um aðild að sambandinu, Atli Gíslason hafði gert hið sama og Jón Bjarnason einnig. Þarna voru loforð og heitstrengingar. Aðrir höfðu ekki verið eins afdráttarlausir eða jafnvel opnað á málið. Þannig hafði ég viljað skilja allar dyr eftir opnar og sagt að Evrópumálin gæti aðeins einn aðili útkljáð og það væri þjóðin. En þá var spurningin á hvaða stigi það ætti að gerast og á hvaða forsendum.
Úr vöndu var að ráða hvernig halda bæri á þessum málum. Í rauninni vorum við vægast sagt á hálum ís eftir yfirlýsingar formanns flokksins fyrir kosningar. En hér yrði hver að svara fyrir sig. Það sem máli skipti var hvað flokkurinn sem slíkur hefði sagt. Vinstrihreyfingin grænt framboð hafði jafnan hafnað aðild að Evrópusambandinu en síðasti landsfundur hafði skilið spurninguna um aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku eftir opna. Það þótti mér hyggileg afstaða og hafði ég stutt hana og talað fyrir henni, vel meðvitaður um að ekki yrði endalaust hlaupist undan ákvörðun í þessu mikla þráhyggjumáli helmings þjóðarinnar.
Með tilstyrk þjóðarinnar
Ég hafði aldrei gleymt því hve ríkur vilji hafði á sínum tíma verið innan þingflokks VG fyrir samstarfi til hægri. Það var hins vegar eitur í mínum beinum. Ég var sannfærður um að forsenda þess að ná samstarfi við Samfylkinguna til lengri tíma væri samkomulag um Evrópumálin sem væri báðum flokkum ásættanlegt; þar sem við fyrir okkar leyti í Vinstrihreyfingunni grænu framboði yrðum aldrei viðskila við þann ásetning okkar og yfirlýsta stefnu að koma Evrópusambandsaðildinni út úr heiminum, ljúka málinu. Það yrði aðeins gert með tilstyrk þjóðarinnar. Fyrr eða síðar yrði hún að koma að málinu. Það sem máli skipti fyrir okkur væri því stöðugt samtal út í þjóðfélagið.
Margir gagnrýndu þetta sjónarmið. Það gerði Atli Gíslason mjög ákveðið. Hann hélt því fram að Samfylkingin teldi sig verða að komast í stjórn, hún hefði hins vegar enga samningsstöðu í þessu máli og væri fráleitt að VG gæfi þarna spönn eftir, ekki síst í ljósi loforða sem kjósendum hefðu verið gefin fyrir kosningar. Það væru svik að sækja um aðild, hrein fásinna og í ofanálag algerlega ónauðsynlegt.
Þótt Atli hefði mikið til síns máls var það algerlega skýrt af hálfu Samfylkingarinnar að aðildarumsókn væri forgangsmál. Áður er vitnað til afdráttarlausra yfirlýsinga Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns og Össurar Skarphéðinssonar fyrrum formanns Samfylkingarinnar. Össur hafði haft ESB-aðild logandi á sinni peru óslitið frá aldamótum. Ekki væri hægt að reikna með því að slökkt yrði á þeirri peru hjá flokki sem þrátt fyrir allt var langstærsti flokkurinn á þingi.
Hvernig yrði bilið þarna á milli brúað? Það var viðfangsefnið eins og ég leit á málin.
Þótt ESB eða AGS hnerri
En hver sem yrði niðurstaðan þá þyrfti hver og einn þingmaður að horfast í augu við eigin fyrirheit gagnvart kjósendum. Og þar sem þau voru ekki á einn veg yrðu einstakir þingmenn að geta tekið afstöðu til ESB-umsóknar í þingsal á eigin forsendum. Á það lagði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingflokksformaður VG áherslu. Sjálf var hún andvíg aðildarumsókn nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún sagði þó jafnframt að hver sem aðkoman yrði, ylti allt á því að við stæðum í fæturna en gerðumst ekki leiðitöm í þessu ferli. Í umræðu á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra strax eftir að stjórnin var mynduð dró hún upp samlíkingu við landhelgisátök fyrri tíma; hvernig sumir gátu þá ekki „stutt útfærslu landhelginnar þar eð slíkt gengi gegn hagsmunum Breta og mundi hugsanlega styggja Atlantshafsbandalagið. Ég spyr: Hvar værum við nú ef við hefðum ekki haft kjark til að verja rétt smárra samfélaga og ganga gegn kröfum Atlantshafsbandalags og Efnahagsbandalags Evrópu þess tíma, eða svo við heimfærum þetta upp á nútímann: Alþjóðagjaldeyrissjóðs og Evrópusambands? Nú ríður á að sagan endurtaki sig ekki, að fólk kikni ekki í hnjánum og gefist ekki upp þótt Evrópusambandið hnerri eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fyrirskipi.“
Meirihlutinn vill kanna „hvað sé í boði“
Á ESB-málinu voru hliðar sem ekki var hægt að horfa fram hjá. Þannig sýndu skoðanakannanir að almenningur vildi láta gaumgæfa alla möguleika Íslands að reisa sig upp á fæturna við erfiðar aðstæður, þar á meðal aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Í skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í lok október 2008 kom fram að yfirgnæfandi meirihluti, 70% aðspurðra, vildi ganga í ESB og taka upp evru. Hálfu ári síðar, vorið 2009, virtist enn talsverður meirihluti, 61% samkvæmt Gallup-könnun sem gerð var fyrir Ríkisútvarpið, fylgjandi aðildarviðræðum en þjóðin virtist hins vegar skiptast til helminga þegar spurt var um aðild að sambandinu. Í allri kynningarumræðu var klifað á því að æskilegt væri að kanna hvað væri í boði. Til þessa almenna vilja hlutum við að horfa þegar við mátum stöðuna. Í mínum huga var það lykilatriði.
Við sem töldumst í hópi þeirra innan VG sem hvað eindregnast vorum andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið, vorum mörg hver þeirrar skoðunar að erfiðast yrði að glíma við þá stöðu sem uppi yrði ef meirihluti reyndist vera fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu að sótt yrði um aðild og það síðan látið fylgja með til skýringar að verið væri að kanna hvað væri í boði. Reikna mætti með yfirgnæfandi stuðningi við slíka tillögu ef hún yrði borin upp á þessum örlagaríku tímum. Þessir spádómar voru ekki út í hött. Nákvæmlega þetta gerðist eftir að viðræðurnar við Evrópusambandið fóru í ferli. Af hálfu þeirra sem vildu ganga í Evrópusambandið var hamrað á því að verið væri að kanna hvað væri í boði; hvað væri í pokanum, jafnvel þótt þeir vissu betur; að það sem væri í boði væri þegar ljóst – nákvæmlega ekkert annað stæði okkur til boða en öðrum aðildarríkjum ESB. Það breytir hins vegar ekki þeirri bláköldu staðreynd að þetta sjónarmið var ríkjandi viðhorf í þjóðfélaginu. Fram hjá því var ekki hægt að horfa. Aðildarviðræður myndu hins vegar leiða hið rétta í ljós. Þetta var sjálf forsendan fyrir því að ég samþykkti þessa vegferð. Gott og vel, látum þá á það reyna og göngum svo til atkvæða þegar veruleikinn er kominn í ljós.
Verst að láta dæma sig til þagnar
Það var mat okkar margra að færi svo að sótt yrði um aðild eftir að þjóðin hefði óskað eftir því í almennri atkvæðagreiðslu að sjá hvað væri í pokanum, þá værum við sem værum gagnrýnin á umsóknina nánast dæmd til þagnar. Betra væri því að hefja viðræðuferli með okkur innanborðs, gagnrýnin og hávær, enda þá með stöðu til þess.
Það var þó á þessu hængur. Og hann var sá að þetta var ekki sérlega siðleg afstaða. Hún var byggð á útreiknuðum klókindum og þannig á vitaskuld ekki að koma fram í stjórnmálum fremur en í lífinu almennt.
Á því áttuðum við okkur áður en gengið var frá stjórnarsáttmálanum vorið 2009 og áður en ég hvarf frá samningaborðinu við Samfylkinguna og þá sérstaklega viðræðum mínum við Össur Skarphéðinsson um Evrópumálin. Við ræddum þá þessa lýðræðislegu aðkomu. Ég sagði Össuri að reikna mætti með þeirri afstöðu VG að spyrja ætti þjóðina áður en sest yrði að samningaborði með ESB. Össur kvaðst vera sammála þessu sjálfur en síðar þegar frá málinu var gengið kom í ljós að Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingarbatteríið var á öðru máli.
Össur hygg ég að hafi séð af klókindum sínum að mun hyggilegra væri að fá samþykki þjóðarinnar fyrir umsókn og hafa VG í kjölfarið múlbundið heldur en að hafa þann háttinn á sem úr varð. Þó vil ég ekki hafa af honum það viðhorf að honum hafi einnig fundist þessi aðferð heiðarlegri og lýðræðislegri.
Síðan saman gegn ESB
Niðurstaðan varð þannig sú að ganga til viðræðna við Evrópusambandið um aðildarsamning án þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem áður segir hafði ég verið þessarar skoðunar þótt ég væri orðinn blendnari í afstöðu minni og að lokum henni fráhverfur. Þrátt fyrir það gekkst ég inn á þessa nálgun að nýju og talaði fyrir henni en hamraði jafnframt á þeim fyrirvörum sem gera þyrfti um auðlindir Íslands, landbúnað, sjávarútveg og velferðarþjónustuna.
En við mættum ekki gleyma því, áréttaði ég í pósti til þingflokks VG 7. maí 2009, að stjórnaraðkoma okkar snerist um meira en ESB. Illu heilli hefðum við undirgengist EES-samninginn með „fjórfrelsi“ hans: „Þess vegna hef ég alltaf sagt þann samning hafa verið til óþurftar. Nú reynir á okkur að verja auðlindirnar – hvort sem við erum innan eða utan ESB. Geysir Green og HS freista bandarískra fjárfesta skv. forsíðu Mogga í dag. Ísland þarf sárlega á okkur að halda. Til að verja velferðarkerfið ásælni peningamanna. Þeir eru við sama heygarðshornið … Snúumst til varnar og sóknar og síðan saman gegn ESB.“
Niðurstaðan hefði getað orðið okkur farsæl!
ESB-umsóknin varð Vinstrihreyfingunni grænu framboði gríðarlega erfið. Á meðal almennra flokksfélaga ríkti mikil reiði yfir sviknum loforðum nokkurra forystumanna flokksins þótt margir aðrir teldu þetta ferli vera skynsamlegt og í fullu samræmi við samþykktir flokksins. Sjálfur var ég í þeim hópi. Ekki verður þó um það deilt að þegar upp var staðið gerði þetta Vinstri hreyfingunni grænu framboði illt eitt. En svo hefði ekki þurft að fara. Skrifa ég ófarirnar fyrst og fremst á hve illa var haldið á málinu af hálfu VG þegar fram í sótti. Sá skilningur var skjalfestur af hálfu VG að binda mætti enda á viðræðurnar áður en ferlið væri á enda komið ef það væri mat flokksins að svo bæri að gera. Um ásetning Samfylkingarinnar var vitað frá upphafi en ekki um linkind VG, sem endaði með uppgjöf fyrir kosningarnar vorið 2013. Þá var felld tillaga sem ég talaði fyrir á landsfundi flokksins um að láta efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið fyrir lok kjörtímabilsins en samþykkt tillaga nýrrar forystu Katrínar Jakobsdóttur á þá leið að ferlið yrði ekki stöðvað heldur yrði þráðurinn tekinn upp eftir kosningar og ekki skotið til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr en samningur lægi fyrir og þá væntanlega að afloknu aðlögunarferli.
Ef flokkurinn hefði staðið í fæturna og látið fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þær niðurstöður sem fyrir lágu á árinu 2012 þá hefði þjóðin afgreitt málið út úr heiminum. Um það er ég sannfærður. Skoðanakannanir bentu til þess að þetta væri rétt mat. Viðsnúningur hafði átt sér stað frá árinu 2009 þegar afgerandi meirihluti vildi sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í öllum könnunum sem gerðar voru á árunum 2012 og 2013 var hins vegar yfirgnæfandi meirihluti landsmanna orðinn andvígur aðild og hafði þjóðin þá setið á áhorfendabekkjum síðan vorið 2009 að fylgjast með því hvað væri í boði frá Brussel.
Þetta staðfestu allar skoðanakannanir frá þessum tíma með afgerandi hætti. Eftir því sem á leið og betur upplýstist um þá stöðu sem ESB tók gegn Íslandi, einkum í Icesave-málinu, stjórn makrílveiðanna og fleiru, jókst sá meirihluti landsmanna sem ekki vildi aðild að Evrópusambandinu.
Höfuð Jóns að veði
En þótt þessar yrðu lyktir málsins er ekki öll sagan sögð um upphaf þess. Hjá VG varð mikil sprenging strax á fyrstu dögum þingsins þegar málið hlaut þar afgreiðslu því einn ráðherrann í ríkisstjórn, okkar megin, Jón Bjarnason, lýsti því yfir að hann myndi greiða atkvæði gegn umsóknarferlinu. Þetta var í fullu samræmi við það sem samþykkt hafði verið um frelsi hvers og eins í þessu máli. Þetta var nú rætt á þingflokksfundi VG í þinghléi rétt fyrir atkvæðagreiðsluna. Steingrímur sagði að þegar í stað yrði að kynna forsætisráðherranum þessa afstöðu eins ráðherra í ríkisstjórninni, svo alvarlegt væri það, og vildi hann að Jón kæmi nú með sér á fund Jóhönnu. Allir gerðu sér grein fyrir hvað hér var á ferðinni. Ef færi fram sem horfði væri Jón Bjarnason á leið út úr ríkisstjórn sem var rétt komin úr burðarliðnum. Ég sagði þá að ef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætti að fara með höfuð sitt á fati til forsætisráðherra þá færi heilbrigðisráðherra með sitt höfuð þangað líka. Við svo búið var hætt við fundinn. Jón Bjarnason hélt höfði sínu.
Átti að klárast á einu og hálfu ári!
Vilji menn öðlast skilning á afstöðu þeirra andstæðinga ESB-aðildar Íslands, sem nálguðust málin á svipuðum forsendum og ég, er nauðsynlegt að árétta fjögur atriði. Í fyrsta lagi að í þjóðfélaginu var á þessum tíma afdráttarlaus meirihlutavilji fyrir því að leita hófanna hjá ESB. Miklar líkur voru á því að fyrr eða síðar yrði látið á það reyna hvað væri í boði. Ekki væri verra að hafa VG þá nærri ákvarðanatöku. Í öðru lagi var á það að líta að vildu menn á annað borð samstarf við Samfylkinguna þá var ESB forgangsmál hennar. Í þriðja lagi leyfi ég mér að fullyrða – og þetta er algert grundvallaratriði – að ekkert okkar hafi á þessu stigi gert sér í hugarlund að umsóknarferlið myndi taka á sig þá mynd sem reyndin varð, fullkomin aðlögun að öllu laga- og regluverki ESB og samningur þess utan fullkláraður og undirritaður áður en þjóðin kæmi að málinu. Fjórða atriðið var ekki veigaminnst og það var tímaramminn. Ætlað var að aðeins hálft annað ár þyrfti til þess að fá endanlegar lyktir í málið. Þegar ég aftur og ítrekað gekk á Össur Skarphéðinsson um þetta mat í upphafi ferilsins þá staðfesti hann að hann teldi þennan tímaramma raunhæfan. Smám saman rann síðan upp fyrir mér að sú tilfinning mín að málið væri tafið í Brussel væri rétt. Þar vildu menn ekki fara sér óðslega fyrr en rofaði til í sálarlífi Íslendinga. Að sama skapi gat ég ekki skilið annað á Össuri þegar á leið en að af hálfu ýmissa í framvarðarsveit VG hefði einnig verið vilji til að draga málin á langinn. Það kom mér vægast sagt í opna skjöldu þótt smám saman væri ég að átta mig á breyttum viðhorfum innan okkar raða. Á næstu misserum skók ESB-málið Vinstrihreyfinguna grænt framboð á öllum fundum og ráðstefnum sem efnt var til.
Aðlögunarferli mótmælt
Í heilsíðuauglýsingu sem birt var í blöðum haustið 2010, undirrituð af á annað hundrað stuðningsmanna flokksins, segir að á því rúma ári sem liðið sé frá því að viðræður hófust við Evrópusambandið hafi átt sér stað grundvallarbreyting á forsendum viðræðna:
Umsóknin snýst ekki lengur um að kanna hvað í boði er af hálfu ESB eins og áður var látið í veðri vaka, heldur er nú að hefjast flókið ferli aðlögunar að regluverki og stofnanakerfi ESB með milljarða fjáraustri frá Brussel. Slíkar greiðslur frá Evrópu sambandinu gera að engu þær vonir að hér fari fram lýðræðisleg og hlutlæg umræða um kosti og galla aðildar. Í öðru lagi hefur komið skýrt fram hjá stækkunarstjóra ESB að Evrópusambandið veitir ekki varanlegar undanþágur frá meginreglum Lissabon sáttmálans, m.a. þeirri reglu að Evrópusambandið tekur sér úrslitavald til yfirráða yfir sjávarauðlindum aðildarríkjanna. Nýleg viðbrögð Evrópusambandsins við veiðum íslenskra skipa á makríl í íslenskri lögsögu sýna áþreifanlega hvers sé að vænta ef þjóðin afsalar sér samningsrétti um veiðar úr deilistofnum í hendur ESB. Í þriðja lagi hafa allar skoðanakannanir seinasta árið sýnt andstöðu yfirgnæfandi meirihluta kjósenda við aðild Íslands að ESB. Áframhaldandi aðlögunarferli er því gróf ögrun við lýðræði í landinu. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur margoft ítrekað andstöðu sína við ESB-aðild m.a. fyrir seinustu alþingiskosningar. Öll þessi atburðarás er í fullkominni andstöðu við stefnu VG og fyrirheit forystumanna flokksins. Við undirrituð gerum skýlausa kröfu um að trúnaðarmenn VG fylgi stefnu flokksins, bæði í orði og á borði.
Á þessum tíma harðnar umræðan mjög innan flokksins og er upplýsandi frásögn af framvindunni að finna í bókinni Villikettirnir og vegferð VG. Þar kemur fram að Steingrímur flokksformaður og nánustu samstarfsmenn hans neiti að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem nú sé komin fram og segi jafnframt af og frá að um aðlögunarferli sé að ræða.
Vanmat
Sitthvað hafði ég misreiknað þegar Evrópuumsóknin kom til afgreiðslu í upphafi kjörtímabilsins og það sneri ekki síst að okkur, ríkisstjórn Íslands, og þá sérstaklega að Vinstrihreyfingunni grænu framboði sem hafði gefið sig út fyrir að vera annað en á daginn kom. Þannig hafði ég ekki trúað því að Evrópusambandið yrði látið komast upp með að þröngva okkur út úr ferli viðræðna og inn í ferli lagabreytinga eða undirbúnings lagabreytinga áður en við tækjum okkar lýðræðislegu ákvörðun og það sem meira var, það yrði látið viðgangast að borið væri á okkur fé með svokölluðum IPA styrkjum. Þessir styrkir eru sérsniðnir fyrir umsóknarríki til að aðlaga lagaumhverfi sitt að regluverki Evrópusambandsins. Fyrir þessu fyrirkomulagi voru rök ef um var að ræða ríki sem voru staðráðin í að vilja aðild að Evr ópusambandinu og áttu langt í land með að breyta lagakerfum sínum til að teljast gjaldgeng. Fyrir okkur hins vegar, sem höfðum í grundvallarefnum sambærileg kerfi og Evrópusambandið en vildum fá staðfest hvort um einhverjar undanþágur gæti verið að ræða, og þá hverjar, var þetta fráleitt. Fyrst og fremst var þetta lævísleg aðferð til að stilla kompás stofnanaveldis landsins inn á Brusselveldið sem nú fóðraði fjársveltar stofnanir í því augnamiði að kaupa velvild þeirra gagnvart umsóknarferlinu. Hvorki ráðuneyti Jóns Bjarnasonar né þau ráðuneyti sem undir mig heyrðu heimiluðu móttöku slíkra styrkja. Almennt tóku forsvarsmenn stofnana sem undir ráðuneytin heyrðu þessu með jafnaðargeði – þótt tilveran hefði orðið þeim þægilegri með IPA-peningana í kassanum.
Atvinnuvegaráðuneyti í skotlínu
Það ráðuneyti sem spjótin beindust öðrum fremur að varðandi aðlögun var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þar stóð Jón Bjarnason vaktina og varðist sem hann frekast mátti. Jón vissi sem var – en aðrir höfðu ekki endilega fullan skilning á – að ef fallist væri á tilslakanir á innri lagaumgjörð sem þessum grundvallaratvinnuvegum var búin, væri það til frambúðar, að minnsta kosti hætt við því að svo yrði. Evrópusambandið heimtaði að ekki yrði tjaldað til einar nætur heldur krafðist lagabreytinga strax. Í Stjórnarráðinu var tekið undir þær kröfur og stóð Jón Bjarnason allt of oft einn í þessum slag þótt við tveir værum þar vissulega vopnabræður. Á endanum var Jón Bjarnason hrakinn úr ríkisstjórninni. Það gerðist undir árslok 2011 og kenni ég þar helst um andstöðu hans við „aðlögun“ að skipan Brussel en jafnframt hafði hann verið óþægur ljár í þúfu fyrir þá sem ekki vildu hagga kvótakerfi í fiskveiðum.
Hraða bæri viðræðum
Á þessum tíma var ég farinn að tala mjög ákaft fyrir því að við freistuðum þess að flýta viðræðum og efndum til þjóðaratkvæðagreiðslu innan kjörtímabilsins. Í umsögn sem ég skrifaði um endurminningabók Steingríms J. Sigfússonar í árslok 2013, segi ég meðal annars: „Fæ ég seint skilið hve tregir og íhaldssamir helstu forsvarsmenn VG í þessum málaflokki voru almennt í þessu efni. Þeir sem voru veikir fyrir ESB í okkar röðum fóru smám saman að tala fyrir því að ná „góðum samningi“ og þyrftum við að gefa rúman tíma til þess, en harðir ESB andstæðingar voru á hinn bóginn, margir hverjir, orðnir slíkir nauðhyggjumenn að þeir virtust trúa því að engu væri hægt að hnika í viðræðuferlinu! Sjálfur er ég sannfærður um að öll efni hafi verið til þess að afgreiða málið með þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Samfylkingin hefði að mínu mati gengist inn á þessa leið ef skynsamlega – og af staðfestu – hefði verið á málum haldið af hálfu VG. En frumskilyrði var að sjálfsögðu vilji af hálfu forystu VG. Sá vilji var aldrei fyrir hendi.“
Hvað varðar innihald samninga var ég alltaf handviss um að í samningum um aðild Íslands yrði aldrei neitt frábrugðið meginreglum ESB, engar varanlegar undanþágur. Allt öðru máli gegndi um viðræðuferlið, þar hefðu Íslendingar allt í hendi sinni, þótt ESB drægi lappirnar gætum við ráðið viðbrögðum okkar og efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar við tækjum um það ákvörðun. Þetta væri okkur í lófa lagið.
Varað við nauðhyggju á forsendum ESB
Á fundi flokksráðs VG á Grand hóteli í Reykjavík laugardaginn 25. febrúar 2012 varaði ég við þeirri nauðhyggju sem menn væru margir haldnir gagnvart ESB, að þar væri vonlaust að við fengjum nokkru um ráðið í samningaferlinu. Þar var ég ekki síst að gagnrýna ýmsa innan okkar raða. Þessi nauðhyggja þótti mér alltaf vera áminning um hve fljótt íslensk stjórnvöld færu niður á hnén gagnvart Evrópusambandinu. Varðandi hraðann í samningaferlinu minnti ég á mjög hratt samningaferli þegar Noregur átti í hlut á tíunda áratugnum. Norðmenn sóttu þá um aðild sem þeir síðan höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nær væri að bera okkur saman við þá en við nýju ríkin í Austur-Evrópu sem hefðu á undangengnum árum sótt um aðild og fengið hana. Gilti allt annað um þau en um Ísland sem hefði verið aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði síðan í ársbyrjun 1994 og því hægt að kortleggja á mjög skömmum tíma hvað gera þyrfti til að við fengjum aðild, ef til kæmi.
Forkastanleg ósvífni
Þessi flokksráðsfundur VG í febrúar 2012 fékk talsverða umfjöllun í fjölmiðlum vegna tillögu sem ég talaði fyrir um að fá lyktir í viðræðurnar við ESB. Nú væri mælirinn fullur. Þegar við hefðum gengið inn í þetta ferli á sínum tíma hafi aðlögun aldrei átt að vera á dagskrá og ætti ekki að vera á dagskrá. Nú ætti að fastsetja viðræðulok. Umstang og kostnaður væru nægileg rök en lítilsvirðing og niðurlæging hefðu bæst við þegar utanríkismálanefnd Evrópusambandsins dirfðist að senda frá sér ályktun þar sem því var fagnað að ætla mætti að aðildarferlinu verði fylgt fram af meiri ákefð eftir uppstokkun í ríkisstjórn Íslands um síðustu áramót þegar Jóni Bjarnasyni hafi verið vikið úr stjórninni. Þetta væru ekki aðeins kaldar kveðjur til hans heldur til okkar allra. Reyndar forkastanleg ósvífni.
Litið á Ísland sem peð í hagsmunaskák ESB
Ég vakti athygli á því að í samþykkt utanríkisnefndar ESB hafi Íslandi verið veitt einkunnagjöf fyrir viðleitni til að aðlagast markaðsvæðingartilskipunum frá Brussel. Frammistaðan hefði þótt nokkuð góð. En ekki væri nóg að gert! Opna þyrfti fyrir einkavæðingu orkugeirans og sjávarútvegsins. Inná þessi svið þyrftu ESB-fjárfestar að komast! Og mikilvægt væri fyrir ESB að innlima Ísland til að gæta hagsmuna ESB – ekki náttúrunnar, ekki Íslands – nei, ESB á norðurslóðum.
Með öðrum orðum, í Brussel væri litið á Ísland sem mikilvægt peð í hagsmunaskák ESB á norðurslóðum. Ég sagðist nú leggja til að dagsetning yrði ákveðin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta lagi undir lok þessa kjörtímabils. Samninganefndum okkar og ESB yrði gerð grein fyrir því að sú dagsetning afmarkaði þann tímaramma sem þær hefðu til að fá efnislegar niðurstöður í þeim málaflokkum sem helst vörðuðu okkar hag. Greidd yrðu atkvæði um þau drög sem lægju fyrir þegar boðaður dagur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu rynni upp.
Færi svo að þjóðin hafnaði því að ganga í Evrópusambandið á þeim efnislegu forsendum sem þá lægju fyrir, yrði viðræðum sjálfhætt. Ef hins vegar kæmi í ljós að þjóðin samþykkti inngöngu, þá yrði það verk klárað. Með þessu móti taldi ég að upplegg okkar sem studdum smningaferlið frá vorinu 2009 gengi upp: Kröfunni um lýðræði væri fullnægt og við sameinuðumst um að fella ESB-aðild í samræmi við samþykkta stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Ekki lýkur hér með frásögn af ESB deilum í bók minni Rauða þræðinum. En eftir stendur spurningin, hverjar verða ráðleggingar íslenskra embættismanna til úkraísnkra stjórnvalda í «samningsviðræðum» við ESB um aðild Úkraínu að bandalaginu?
------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.